Tilnefningar til íþróttamanns KA 2011 - Myndir

Birna Baldursdóttir var kjörin íþróttamaður KA 2010
Birna Baldursdóttir var kjörin íþróttamaður KA 2010

Hinar fjórar deildir KA hafa nú tilnefnt jafn marga einstaklinga úr sínum röðum, er munu keppa um titilinn Íþróttamaður KA árið 2011. Úrslit þess kjörs verða að venju tilkynnt í árlegri afmælishátíð félagsins þann 8 janúar n.k. en eins og flestir félagsmenn vita þá var KA stofnað þann 8. janúar 1928.
Tilnefningar deildanna eru að þessu sinni:

Blakdeild: Filip Pawel Szewczyk
Filip er fæddur þann 17. Janúar 1978 og verður því 34 ára í janúar 2012. Hann hefur verið hér á landi síðastliðin þrjú ár og er óumdeilanlega besti, erlendi uppspilari, sem til Íslands hefur komið.

Filip er uppspilari og aðaldrifjöður meistaraflokks blakdeildar KA og hefur orðið Íslandsmeistari með liðinu undanfarin tvö ár.

Tækni hans og yfirsýn er einstök. Uppspilari er mikivægasti leikmaður hvers blakliðs og þó hann skori sjálfur ekki mörg stig þá er gott uppspil nauðsynlegt fyrir aðra leikmenn til þess skora þau stig, sem til þarf til að
vinna leiki.  Pilip var valinn í landslið Ísland til að spila á síðustu Smáþjóðaleikunum og var hann aðaluppspilari liðsins.

Filip var einnig kjörinn besti uppspilari á Íslandi sl. keppnistímabil af leikmönnum og þjálfum liða í fyrstu deild og er því vel að tilnefningunni kominn.


Handknattleiksdeild: Martha Hermannsdóttir
Martha er leikmaður og fyrirliði meistaraflokksliðs KA/Þórs í handbolta. Hún er mjög leikreynd og hefur spilað mörg ár í efstu deild, oftast með KA en einnig með Haukum. Martha spilar í stöðu leikstjórnanda í sókn og leikur jafnframt aðalhlutverk í miðju varnarinnar. Hún er sannur leiðtogi liðsins og er yngri leikmönnum frábær fyrirmynd. Hún þjálfaði lið KA/Þórs á síðasta vetri með góðum árangri. Martha hefur óumdeilanlega verið jafnbesti leikmaður liðs Þórs/KA í N1 deildinni árið 2011, bæði í sókn og vörn, auk þess að vera markahæsti leikmaður liðsins í vetur.






Júdódeild: Helga Hansdóttir
Helga er 18 ára gömul, fædd 1993.  Faðir hennar er Hans Rúnar Snorrason marfaldur Íslandsmeistari í júdó og fyrsti Akureyringurinn til að vinna til verðlauna á alþjóðlegu móti. 

Helga hefur æft júdó frá 11 ára aldri og hefur orðið Íslandsmeistari 11 sinnum.  Hún stundar nám við Menntaskólann á Akureyri og mun útskrifast þaðan næsta vor, ári á undan jafnöldrum sínum. 

Hún meiddist í janúar á þessu ári, fékk heilahristing, og keppti því ekki eins mikið erlendis fyrir vikið.  Þrátt fyrir meiðslin sigraði hún á öllum júdómótum innanlands og missti ekki úr æfingu.
Árangur Helgu á síðastliðnu ári:
Íslandsmeistari í U20 í -63 kg
Íslandsmeistari í fullorðinsflokki kvenna í -63 kg
brons á Norðurlandamótinu -57 kg í U20
(silfur á íslandsmóti í BJJ í -64 kg og brons í opnum flokki)
Afmælismót JSÍ/RIG gullverðlaun í +52 kg og júdókona mótsins
Júdósamband Íslands: Júdókona ársins U20 ára


Knattspyrnudeild: Haukur Heiðar Hauksson
Haukur Heiðar er fæddur árið 1991. Þrátt fyrir ungan aldur var hann fyrirliði meistaraflokks KA á liðnu sumri, en liðið endaði í 8. sæti 1. deildar. Haukur Heiðar var lykilmaður í KA-liðinu, nautsterkur og ódrepandi baráttujaxl sem aldrei gaf tommu eftir. Hann spilaði 22 leiki á liðnu keppnistímabili í deild og bikar og skoraði í þeim fimm mörk. Hann hóf að leika með meistaraflokki KA árið 2008 og síðan hefur hann spilað 91 leik og skorað í þeim átta mörk. Í lokahófi knattspyrnudeildar KA í september var Haukur Heiðar kjörinn leikmaður ársins með fádæma yfirburðum.

Að loknu liðnu keppnistímabili söðlaði Haukur Heiðar um og gekk til liðs við Íslands- og bikarmeistara KR, þar sem hann mun örugglega láta að sér kveða í framtíðinni.