Knattspyrnufélag Akureyrar heldur upp á 98 ára afmæli sitt sunnudaginn 11. janúar 2025 við hátíðlega athöfn í KA-Heimilinu klukkan 16:30. Við það tilefni verður meðal annars lið ársins hjá félaginu valið en í þetta skiptið eru sjö lið tilnefnd af deildum félagsins.
Margir glæsilegir sigrar unnust á árinu sem nú er liðið og bættust við fjölmargir titlar bæði hjá meistaraflokksliðum okkar sem og yngriflokkum og óhætt að fullyrða að enn fleiri lið eigi tilkall til að vera lið ársins úr okkar öfluga starfi.

Karlalið KA í blakinu er handhafi allra stóru titlanna í blakinu þetta árið. Spilamennska liðsins var góð, sérstaklega í lok tímabils sem tryggði því að lokum alla titlana. Í Unbrokendeildinni vann KA liðið sautján leiki og tapaði fjórum og hampaði því Deildarmeistaratitlinum. Strákarnir spiluðu svo í kjölfarið til úrslita við Þrótt Reykjavík í Kjörísbikarnum og vann hann örugglega 3-0. Sömu lið spiluðu svo til Íslandsmeistara þar sem KA vann einvígið 3-0.
Í lok síðasta tímabils átti liðið fjóra fulltrúa og þjálfara ársins en valið er gert af þjálfurum, fyrirliðum og frammistöðu samkvæmt tölfræði BLÍ. Þetta voru þeir Zdravko Kamenov uppspilari, Miguel Mateo Castrillo díó, Mateusz Jeleniewski frelsingi og Gísli Marteinn Baldvinsson miðja ásamt því að Miguel Mateo Castrillo var þjálfari ársins.

Kvennalið KA í blakinu er handhafi allra stóru titlanna í blakinu þetta árið og vann einnig keppni meistara meistaranna í upphafi tímabilsins. Í Unbrokendeildinni tapaði KA einungis tveimur leikjum af átján og tryggði sér deildarmeistaratitilinn eftir harða baráttu við Völsung. Í Kjörísbikarnum spilaði KA til úrslita við HK sem þær sigruðu eftir æsispennandi 5 hrinu leik þar sem Paula del Olmo var kosin besti leikmaðurinn. Í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn spilaði KA við Völsung og vann KA liðið það einvígi örugglega 3-0.
Í lok síðasta tímabils átti liðið þrjá fulltrúa í liði ársins sem valið er af þjálfurum, fyrirliðum og frammistöðu samkvæmt tölfræði BLÍ. Þetta voru þær Julia Bonet kantsmassari, Amelía Ýr Sigurðardóttir uppspilari og Paula del Olmo sem spilar díó. Eins var Julia Bonet valin besti erlendi leikmaðurinn í úrvalsdeildarinni.

Stúlkurnar í U16 liði KA í blaki urðu bæði Íslandsmeistarar og bikarmeistarar í sínum aldursflokki. Á Íslandsmótinu spilaði liðið gríðarlega vel og tapaði einungis einni hrinu í 13 leikjum. KA spilaði svo við Völsung til úrslita í Kjörísbikarnum og vann þann leik 2-0. Frábært að sjá hvernig yngri flokka starfið er að skila sér lengra og lengra upp í aldursflokkunum og margar nú þegar farnar að æfa og spila með meistaraflokki.

2. flokkur karla í knattspyrnu átti einstakt tímabil og sýndi afburða árangur, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Liðið hefur á árinu sýnt mikinn þroska, samheldni og fagmennsku sem endurspeglast í frammistöðu þeirra.Á alþjóðavettvangi sló liðið út FS Jelgava frá Lettlandi í Evrópukeppni landsmeistara. Í kjölfarið áttu þeir hörkuleiki gegn stórliði PAOK frá Grikklandi þar sem leikmenn fengu dýrmæta reynslu gegn liði sem var með um 10 unglingalandsliðsmenn og að kaupa leikmenn í U19 ára liðið sitt fyrir tugi milljóna.
Á Íslandsmótinu safnaði A-liðið flestum stigum allra liða yfir tímabilið en endaði í 2. sæti í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn en einungis lota 3 gildir hvaða lið stendur uppi sem Íslandsmeistari. A2 liðið átti einnig frábært sumar, liðið vann D-riðil í lotu 1 og C-riðil í lotu 3. Allir strákarnir í flokknum eiga því heiður skilið fyrir sína frammistöðu í sumar.

Stelpurnar í 3. flokki Þórs/KA áttu mjög flott fótboltasumar þar sem þær sýndu mikinn stöðugleika í gegnum allar þrjár loturnar. Þær fengu flest lið allra liða í sumar en í síðustu lotunni þá enduðu þær og Stjarnan með jafn mörg stig en okkar stúlkur með síðri markatölu. Þær þurfti því að sætta sig við silfrið á Íslandsmótinu þar sem lota 3 ákvarðar hvaða lið verður Íslandsmeistari. Flokkurinn var einnig með tvö önnur lið sem stóðu sig einnig vel, annað í A-keppni og hitt í B-keppni á Íslandsmótinu.

KA strákarnir í 2012 árgangnum voru frábærir síðasta vetur og náðu frábærum árangri en þeir tryggðu sér bæði Íslandsmeistara- og bikarmeistaratitilinn síðasta vetur. Þessir ungu íþróttamenn sýndu ótrúlegan karakter og stóðu eins og klettar í öllum sínum leikjum. Liðið hefur haldið áfram að blómstra í vetur, en liðið hefur nú tryggt sér sæti í spennandi bikarúrslitum og eru staðráðnir í að verja Íslandsmeistaratitilinn af sömu krafti og ákefð. Þessir framtíðarstjörnur Akureyrar halda ótrauðir áfram á sigurbraut sinni!

Stelpurnar í KA/Þór 2012 árgangur kvenna halda áfram að skrifa sigursögu sína. Á síðasta tímabili tryggðu þær sér bæði Íslands- og Bikarmeistara titilinn með stæl. Lið 1 sýndi ótrúlegan styrk með því að sigra allar túrneringar sem þær tóku þátt í á síðasta keppnistímabili og standa þær enn nánast ósigraðar í keppnisleikjum frá upphafi ferils síns. Þær halda svo áfram í vetur, þar sem þær eru á toppnum í Íslandsmótinu og hafa tryggt sér sæti í úrslitum bikarkeppninnar. Framtíðin er sannarlega björt með þessar stjörnur í röðum félagsins.