Tilnefningar til þjálfara ársins 2025

Knattspyrnufélag Akureyrar heldur upp á 98 ára afmæli sitt sunnudaginn 11. janúar 2025 við hátíðlega athöfn í KA-Heimilinu klukkan 16:30. Við það tilefni verður meðal annars þjálfari ársins hjá félaginu valinn en þetta verður í sjötta skiptið sem verðlaun fyrir þjálfara ársins verða veitt innan félagsins.

Alls eru sjö frábærir þjálfarar tilnefndir til þjálfara hjá KA fyrir árið 2025. Þjálfarar félagsins skipa lykilhlutverk í okkar starfi og erum við ákaflega heppin að eiga fjölmargar fyrirmyndarþjálfara innan okkar raða og var árangur okkar liða á vellinum til fyrirmyndar auk þess sem miklar bætingar urðu hjá okkar iðkendum á árinu sem nú er nýliðið.

Andri Snær Stefánsson stýrði 5. flokki karla á liðnu tímabili með framúrskarandi árangri, en A-lið í yngri árgangi hrósaði sigri og varð Íslandsmeistari og Bikarmeistari. Með ótrúlegri eljusemi og fagmennsku hefur Andri Snær lagt hjarta sitt og sál í starf sitt fyrir KA undanfarin ár. Hans einstaka jákvæðni og smitandi húmor hefur lífgað upp á andrúmsloftið í félaginu og gert hann að dýrmætum félaga í KA-fjölskyldunni.

Andri Snær tók við þjálfun meistaraflokks karla hjá félaginu í sumar og hefur liðið leikið framar vonum það sem af er en KA liðið er komið í úrslitahelgina í Bikarkeppninni auk þess að vera meðal efstu liða í Olísdeildinni. Ásamt því er Andri enn að þjálfa 5. flokk karla en strákarnir unnu Norden cup á milli jóla og nýárs en á mótinu léku bestu lið Norðurlandanna. Andri er auk þess gríðarlega mikilvægur hlekkur í 8. flokki (1.-2. bekk) sem hann hefur þjálfað um áraraðir. Það má því með sanni segjast að Andri sé potturinn og pannan í handboltastarfinu hjá félaginu.

Egill Daði Angantýsson er einn besti unglingaþjálfari landsins en hann sinnir starfi sínu af miklum metnaði og fagmennsku, er afar skipulagður og leggur sig fram um að ná því besta fram hjá sínum iðkendum. Hann hefur mikinn metnað fyrir hönd leikmanna sinna og er ætíð boðinn og búinn að styðja þá, jafnt innan sem utan vallar. Egill er einnig mikill félagsmaður og ber hag KA ætíð fyrir brjósti.Egill Daði hefur skilað framúrskarandi árangri með 2. flokk félagsins undanfarin ár. Á þessu tímabili stýrði hann liðinu í Evrópukeppni landsmeistara þar sem liðið sló út FS Jelgava frá Lettlandi og mætti í kjölfarið sterku liði PAOK frá Grikklandi í hörkuleikjum.

Á Íslandsmótinu náði liðið einnig góðum árangri og endaði í öðru sæti í lokalotu mótsins, en mótafyrirkomulagið er að lokalotan úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Liðið safnaði þó flestum stigum samanlagt yfir loturnar þrjár sem sýnir hversu stöðugt og öflugt liðið var allt tímabilið. Flokkurinn var einnig með annað lið á Íslandsmóti sem vann D-riðil í fyrstu lotu og í þeiri þriðju vann það C-riðil. Þá kom Egill einnig inn í þjálfarateymi meistaraflokks á erfiðum tímapunkti þegar liðið var í harðri fallbaráttu. Þar átti hann stóran þátt í að snúa gengi liðsins við og var jafnframt hluti af teyminu í Evrópuleikjunum gegn Silkeborg IF þar sem liðið sýndi framúrskarandi frammistöðu.

Júdódeild KA hefur útnefnt Eirini Fytrou sem þjálfara ársins 2025. Eirini hefur haldið áfram af einstökum dugnaði að byggja upp öflugt og metnaðarfullt starf innan deildarinnar og erum við afar stolt af því að hafa hana í okkar röðum.Undir stjórn Eirini hefur deildin haldið áfram að dafna og vaxa. Iðkendum hefur fjölgað jafnt og þétt og er sérstaklega ánægjulegt að sjá mikla aukningu í hópi yngri iðkenda. Árangur á keppnisvellinum hefur sömuleiðis verið góður og sýnir að sú tæknivinna og agi sem Eirini leggur áherslu á skilar sér ríkulega.

Eirini lætur ekki staðar numið í faglegri þróun sinni og sýnir mikið frumkvæði í að víkka út starfsemi deildarinnar. Undanfarið hefur hún sótt námskeið erlendis í Adaptive Judo (júdó fyrir fatlaða) og vinnur nú markvisst að því að innleiða þær áherslur af metnaði hér heima. Með þessu framtaki opnar hún dyr júdóíþróttarinnar fyrir nýjum hópum og sýnir í verki hversu mikilvægt það er að íþróttin sé fyrir alla.

Karl Kristján Benediktsson sem byrjaði að þjálfa hjá KA síðasta vetur hefur komið gríðarlega sterkur inn í starfið og með mikla fagmennsku. Stelpurnar hjá honum í 6. flokki blómstra sem aldrei fyrr og hafa þær sýnt mikla bætingu og er gleðin í fyrirúmi á æfingum hjá þeim. Kalli Ben hefur komið með góða nærveru og hjálpar mikið til við að leggja grunninn að næstu kynslóð hjá KA/Þór.

Miguel Mateo Castrillo hefur verið potturinn og pannan í gríðarlegri velgengni meistaraflokksliða KA í blaki undanfarin ár en hann stýrir bæði karla- og kvennaliði félagsins. Bæði lið náðu þeim merka áfanga undir stjórn Mateo að tryggja sér alla stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu 2024-2025 (Íslands,- Deildar- og Bikarmeistarar) og er það í annað skipti í sögunni sem nokkuð lið nær þeim árangri (fyrra skiptið var einnig KA).

Miguel Mateo hefur byggt upp gríðarlega öflug lið bæði í karla og kvennaflokki svo að eftir því er tekið. Hann er gríðarlega metnaðurfullur þjálfari sem eyðir miklum tíma í að undirbúa sín lið fyrir leiki. Mateo er með skýra framtíðarsýn fyrir sín lið og sýnir það sig best á þeim fjölda titla sem hann hefur skilað í hús á undanförnum árum. Hann hefur mikla ástríðu fyrir íþróttinni og skilar frábæru starfi til félagsins. Þá tók hann við sem yfirþjálfari yngriflokkastarfs KA í haust og hefur því tekið enn meiri ábyrgð í metnaðarfullu starfi blakdeildar.

Paula del Olmo hefur þjálfað yngstu hópa blakdeildar undanfarin ár með frábærum árangri. Paula er mikil fyrirmynd og nær vel til krakkanna sem hún þjálfar og hrífur þau með í íþróttina sem hún brennur fyrir. Gott dæmi um þetta er að á síðasta ári var nánast enginn iðkandi í sameiginlegum flokki U12. Nokkrum mánuðum síðar hafði Paula náð um 25 krökkum á æfingar og leysti það verkefni með bros á vör. Einnig náði U14 kvenna frábærum árangri á Íslandsmótinu og enduðu sem Íslands- og Bikarmeistarar.

Paula hefur lagt grunninn að því öfluga yngri flokka starfi sem KA hafur státað af undan farin ár og sést það best á þeim fjölda einstaklinga sem hafa tekið þátt í verkefnum yngri blaklandsliða undanfarið ár og einnig frábærum árangri yngri flokka KA í gegnum árin.

Sindri Skúlason er metnaðargjarn, áhugasamur og vinnusamur þjálfari en í sumar var hann í þjálfarateymum 4. fl, 5. fl og 7. fl drengja og í haust í þjálfarateymum 3. fl, 4. fl og 7. fl drengja. Hann hefur í langan tíma þjálfað marga flokka enda hefur hann mikla ástríðu fyrir þjálfuninni. Í haust kom hann inn í stærra hlutverk þar sem hann mun sinna ýmsum verkefnum í bland við þjálfunina. Sindri var öflugur á árinu og má reikna með að þessi efnilegi þjálfari haldi áfram að styrkjast og vaxa hjá KA á næstu árum.