Íþrótta-og leikjaskóli KA sumarið 2011.
Íþrótta-og leikjaskóli KA starfaði um 8 vikna skeið í sumar og var tímabilinu skipt niður í 4 tveggja vikna námskeið. Aðsóknin var eftirfarandi:
Námskeið 1: 96, 50 strákar og 46 stelpur.
Námskeið 2: 71, 43 strákar og 28 stelpur.
Námskeið 3: 61, 32 strákar og 29 stelpur.
Námskeið 4: 25, 13 strákar og 12 stelpur.
Samtals voru það því 253 krakkar sem sóttu námskeiðin. Þá eru ekki talin með öll þau börn sem fengu að mæta með vinum sínum af og til en talsvert var um það.
Íþrótta-og leikjaskólinn var ætlaður börnum á aldrinum 6-12 ára.
Starfsmenn við skólann voru 6. Því til viðbótar voru 2 starfsmenn frá Akureyrarbæ sem sáu um stuðning og einnig voru 2 starfsmenn frá Vinnuskólanum sem komu að starfinu.
Starfsemi skólans var þannig sniðinn að reynt var að búa til ramma fyrir krakkana til að leika sér innan með það að markmiði að allir skemmtu sér sem best. Húsnæðið hentaði fullkomlega. Skipulagið var þannig að í Eróbikksalnum mátti bara spila og föndra og tala rólega saman, þar máttu ekki vera læti. Í stóra salnum mátti bara leika sér með allar gerðir af boltum. Í júdósalnum máttu bara vera læti, þar mátti kýla í boxpúða, fara á gamnislag og vera með mikinn hasar. Börnin lærðu strax hvernig þetta virkaði og aldrei þurfti að skammast út í ranga hegðun á hverjum stað, þau einfaldlega fóru þangað sem þeim leið best hverju sinni. Eina reglan var sú að engum mátti leiðast, sú regla var aldrei brotin. Hver dagur var svo brotinn upp með sameiginlegum atriðum, þannig var t.d. morgunleikfimi á hverjum morgni í júdósalnum og einnig var mikið farið í gönguferðir. Í raun var eina viðmiðið það að ef að ekki var skemmtilegt lengur þá var gert eitthvað annað. Nákvæmlega skipulögð dagskrá var til, en bara á pappír handa foreldrunum :) Skipulag var aldrei látið skemma gott stuð.
Um það hvernig kynjaskipting var í hverju svæði hefði mátt skrifa heila ritgerð. Þannig voru oft litlar mýslur kófsveittar í átökum upp í júdósal á meðan stórir lurkar perluðu á hæðinni fyrir neðan.
Krakkarnir sem tóku þátt í starfi skólans í sumar voru mjög fjölbreyttur hópur eins og ávallt er. Talsvert var um börn með sérþarfir og tókst starfið með þeim prýðilega og féllu þau vel inn í þann ramma sem sniðinn hafði verið. Öll stóðu börnin sig afar vel. Í heildina var þetta mjög skemmtilegt sumar hjá Íþrótta-og leikjaskóla KA.
F.h. Íþrótta-og leijaskóla KA
Jón Óðinn Waage (Ódi)