KA 4 0 Tindastóll
1 0 Stefán Þór Pálsson (8) Stoðsending: Kristján
2 0 Hallgrímur Mar Steingrímsson (64)
3 0 Hallgrímur Mar Steingrímsson (66) Stoðsending: Gunnar Ö.
4 0 Úlfar Valsson (75) Stoðsending: Hallgrímur
Lið KA í dag:
Rajkovic, Kristján, Atli Sveinn, Gauti, Baldvin, Jóhann, Bjarni, Hrannar, Hallgrímur, Stefán og Arsenij.
Bekkur: Fannar, Ólafur Hrafn, Ævar, Jón Heiðar Gunnar Örvar, Úlfar og Bjarki Viðars.
Skiptingar:
Bjarni Mark út Bjarki Þór inn (59)
Stefán Þór út Gunnar Örvar inn (62)
Hrannar Björn út Úlfar inn (72)
Töluverðar breytingar voru gerðar á liðinu sem mætti HK í síðasta deildarleik KA. Rajkovic kom í markið fyrir Fannar sem meiddist með U19 ára landsliðinu í Írlandi í síðustu viku. Stefán Þór kom inn fyrir Ævar sem fékk hvíld eftir mikið álag með U19 fyrr í vikunni. Bjarni Mark og Kristján Freyr komu svo inn fyrir þá Davíð Rúnar og Karsten Smith sem voru fjarri góðu gamni ásamt Orra.
Leikurinn í gær einkenndist af mikilli hörku og voru tæklingar í miklu fyrirrúmi og raunar í aðalhlutverki. Gestirnir frá Sauðárkróki voru tölvuert duglegri við spjaldasöfnun og uppskáru 6 gul spjöld og eitt rautt.
KA liðið hóf leikinn af miklum eldmóð og byrjaði ballið á 8. mínútu þegar að Kristján Freyr átti gullfallega sendingu utan af velli inn í teig á Stefán Þór sem virtist vera kominn í heldur þröngt færi en lét vaða á markið með föstu skoti í þaknetið á nærstöng. 1-0 fyrir KA. Mögnuð afgreiðsla hjá Stefáni sem var ekki lengi að skora í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir KA.
Tíu mínútum síðar var Arsenij að sleppa einn í gegn um vörn Stólanna en Kári Eiríksson varnarmaður Stólanna brá á það ráð að kippa Arsenij niður og bjuggust flestir við að dómari leiksins gæfi honum rautt spjald og farmiða í sturtur KA-heimilisins. Svo var hinsvegar ekki og var liturinn á spjaldinu gulur. Dómarinn mat það sem svo að annar varnarmaður Sauðkrækinga hafi verið samsíða honum og því ekki verið að ræna Arsenij upplögðu marktækifæri.
Réttlætinu var hinsvegar fullnægt skömmu seinna þegar að Kári fékk sitt annað gula spjald eftir groddaralega tæklingu á Stefán. Hálftími búinn og Stólarnir manni færri. Kári fór í bað. Þó ekki Nellabað.
Restina af fyrri hálfleik var öngþveiti fyrir framan mark Tindastóls og var það eiginlega ótrúlegt að KA bætti ekki við marki. Fyrst átti Stefán góðan sprett og fíflaði varnarmenn Tindastóls upp úr skónum og gaf inn í teig þar sem boltinn barst til Arsenij sem skaut föstu skoti í slá og niður. Einhverjir vildu meina að boltinn væri inni en tæpt var það. Enginn marklínutækni á KA-vellinum og treystum við dómaratríóinu fyrir þessari ákvörðun.
Títnefndur Stefán var svo aftur á ferðinni þegar að Grímsi tók aukaspyrnu við endalínu sem endaði á fjærstönginni þar sem Stefán var mættur og skaut hann í stöng af einkar stuttu færi. Sannkallað dauðafæri. En staðan 1-0 í hálfleik sem var í raun ótrúlegt. Forystan hefði hæglega geta verið mun meiri.
Seinni hálfleikur byrjaði rólega og var það ekki fyrr en á 64. mínútu sem eitthvað markvert gerðist. Þá vann Grímsi boltann af varnarmanni Stólanna sem var kærulaus með boltann rétt fyrir miðju. Grímsi tók þá á rás. Lék á einn varnarmann og afgreiddi svo færið af miklu öryggi.
Tveimur mínútum síðar eða á 66. mínútu var Gunnar Örvar felldur innan teigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Á punktinn steig Grímsi og var öryggið uppmála og sendi markvörð Stólanna í vitlaust horn. 3-0 orðin staðan og KA komið í vænlega stöðu.
Þegar korter var eftir var Grímsi sem var afar sprækur í dag flotta fyrirgjöf á Úlfar Valsson sem var ný kominn inn á í sínu fyrsta meistaraflokksleik fyrir KA og skallaði Úlfar boltann snyrtilega í netið.
Eftir markið róaðist leikurinn og lokatölur 4-0 fyrir KA. Kærkomin sigur fyrir KA og jákvætt að ná í fyrstu stigin ásamt því að halda markinu hreinu.
KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson ( Skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu. Var mikill kraftur í Grímsa í dag og greinilegt að hann ætlaði sér að opna markareikning sinn þetta sumarið í þessum leik. Var vinnusamur í dag og lék oft varnarmenn Stólanna grátt.) Stefán Páls átti einnig frábæran leik. Var allt í öllu í sóknarleik KA í fyrri hálfleik. Vörnin var líka þétt í dag og varðist allt liðið vel.
Ekki er langt í næsta leik hjá KA. Hann er á mánudaginn næstkomandi 9. júní (Annar í hvítasunnu) þegar að topplið Leiknis mætir í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 16.00 ATH 16.00. Óljóst er hvort leikurinn verði leikinn á gervigrasvellinum eða niðri á Akureyrarvelli. Það kemur í ljós fyrr en síðar.