Unglingaflokkur kvenna: KA/Þór með sigur á Val

Fyrsti leikurinn á nýju ári hjá stelpunum í 3. flokki kvenna fór fram sl. sunnudag og mættu Valsstúlkur í heimsókn. Liðin mættust í fyrsta leik tímabilsins og endaði sá leikur með jafntefli 28-28 og var því búist við hörku leik.

KA/Þór byrjaði betur og náði fljótt nokkurra marka forystu. Fyrst og fremst spiluðu heimastúlkur mjög góða vörn sem Valur átti erfitt með að finna glufur á. Valsstelpurnar þurftu því að taka skot fyrir utan sem voru ekki góð og fóru ýmist yfir markið eða þá að Lína varði í markinu. Sóknarleikurinn var ágætur í fyrri hálfleik og náði KA/Þór fimm marka forskoti sem hélst út hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 11-6 KA/Þór í vil.

Síðari hálfleikur byrjaði svo af krafti hjá heimastúlkum og fór Arna Kristín Einarsdóttir gjörsamlega hamförum í sóknarleiknum þar sem hún skoraði nánast að vild. Varnarleikurinn hélt áfram eins og í fyrrihálfleik og var mjög góður. KA/Þór seig svo hægt og bítandi lengra frá Val og náði mest 10 marka forskoti í stöðunni 26-16. Það endaði svo með því að leiknum lauk með 9 marka sigri KA/Þórs, 27-18 og sá Valur aldrei til sólar í leiknum.

Markaskor KA/Þór:
Arna Kristín Einarsdóttir 12, Birta Fönn Sveinsdóttir 8, Stefanía Theodórsdóttir 4, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 2 og Laufey Lára Höskuldsdóttir 1.

Í markinu var Lína Aðalbjargardóttir frábær og varði hún 15 skot.

Þetta var fyrsti sigur liðsins í vetur og eru stelpurnar komnar með sigurtilfinninguna og ætla sér að klára næstu leiki, en næsti leikur hjá liðinu er á móti ÍR sunnudaginn 26. janúar í KA-heimilinu.