Loksins er farið að halla undan vetri og sumarið framundan gefur tilefni til þess að líta veröldina jákvæðum augum. Það hefur verið gaman að fylgjast með því hvernig kvennaknattspyrnan á Akureyri hefur verið að þróast undanfarin ár og óhætt að segja að það góða starf sem þar hefur verið unnið hafi skilað sér vel. Við búum svo vel að kraftar rótgrónnu félaganna tveggja á Akureyri hafa verið sameinaðir í eitt lið, Þór/KA, sem náð hefur virkilega góðum árangri og skipað sér í röð með allra fremstu knattspyrnuliðum landsins. Líkt og við Akureyringar vitum varð Þór/KA Íslandsmeistari sumarið 2012, en liðið hefur ekki lent neðar heldur en í 4. sæti á Íslandsmótinu síðan árið 2007. Á síðasta tímabili komst liðið alla leið í bikarúrslitaleikinn og hefur þar að auki tekið þátt í Meistaradeild Evrópu tvisvar sinnum á síðustu þremur árum. Nokkrir leikmenn Þór/KA hafa náð þeim árangri að hafa verið valdir í A-landslið Íslands og spila með liðinu bæði hérlendis sem erlendis, auk þess sem fjöldi leikmanna Þór/KA hafa leikið með landsliðum yngri flokka. Hin bjarta framtíð liðsins endurspeglaðist vel í U-17 ára leik Íslands gegn Wales um daginn, en fimm af byrjunarliðsmönnum Íslands leika með Þór og KA.
Öflugt starf í kvennaknattspyrnu er okkur Akureyringum ekki einungis til sóma, heldur skapar einnig aukin tækifæri fyrir þær efnilegu knattspyrnukonur sem við búum yfir. Nú þegar hafa margir fyrrverandi leikmenn Þór/KA getað sótt háskólanám í Bandaríkjunum sökum skólastyrks á grundvelli knattspyrnunnar. Eins er ljóst að með því að renna enn styrkari stoðum undir það starf sem unnið er í kvennaknattspyrnu hér í bænum aukum við möguleika efnilegra knattspyrnukvenna á að komast í atvinnumennsku á erlendri grundu. Með framúrskarandi árangri meistaraflokks Þórs/KA styrkjum við leikmenn liðsins einnig sem jákvæðar fyrirmyndir fyrir ungt fólk. Ávinningur þessa starfs er því ótvíræður.
Að framansögðu gefur það auga leið að við Akureyringar getum gert mun betur í því að styðja við bakið á Þór/KA. Sýnum stuðning okkar í verki með því að vera duglegri að mæta á leiki liðsins í sumar og hvetja stelpurnar okkar áfram. Þær eiga það svo sannarlega skilið að við leggjum þeim lið og sýnum þeim að þær skipti okkur máli. Fyrsti heimaleikur sumarsins verður á Þórsvelli þriðjudaginn 13. maí og hefst klukkan 18:00.
Þór/KA er lið allra Akureyringa bærinn þarf að standa saman til að gera kvennaboltann enn öflugri en hann er í dag.
Kvennaráð Þórs/KA