07.05.2007
Það er farið að styttast verulega í fyrsta leik í deildinni en nú er einungis vika þar til flautað verður til leiks í leik KA og Víkinga frá Ólafsvík á Akureyrarvellinum í 1. deildinni. Liðið lenti í sjöunda sæti skv. spá fyrirliða og þjálfara í deildinni á Fótbolta.net. Hér að neðan er hægt að sjá spánna.KA-mönnum er nú spáð sjöunda sæti deildarinnar eftir að hafa naumlega náð því sjötta á síðasta leiktímabili. Síðustu ár hefur liðið orðið fyrir mikilli blóðtöku og sterkir leikmenn haldið í úrvalsdeildarlið. Það hljóta þó að vera gerðar kröfur til þess á Akureyri að liðið berjist í efri helmingnum í sumar, sérstaklega í ljósi þess að fimm erlendir leikmenn eru í herbúðum þess.
Eins og allir vita sem fylgjast af viti með íslenska boltanum þá hefur KA einn sterkasta markvörð deildarinnar, Sandor Matus, sem er klárlega á úrvalsdeildarklassa. Hann er meðal annars þekktur fyrir að vera ótrúlegur vítabani. Þrátt fyrir að KA hafi fengið mörg mörk á sig í leikjum Lengjubikarsins þá má reikna með því að vörn liðsins í sumar verði mjög sterk.
Horfa verður til þess að í Lengjubikarnum hefur KA aðallega verið að kljást við lið í efstu deild. Í varnarlínu liðsins í sumar verða tveir mjög sterkir erlendir leikmenn, þeir Aleksandar Linta og Janez Vrenko. Þeir hafa nánast ekkert leikið á undirbúningstímabilinu en Linta hefur verið meiddur og Vrenko í heimalandi sínu. Á miðjunni er Srdjan Tufegdzic í aðalhlutverki en hann ætti að vera enn sterkari en í fyrra enda farinn að þekkja betur inn á íslenska boltann.
KA hefur misst Hrein Hringsson frá því í fyrra en hann var þeirra helsti markaskorari. Spurning verður hvernig þeir ná að fylla hans skarð en ljóst er að þeir hafa alveg leikmenn sem geta skorað mörk. Ibra Jagne er kominn frá Þór en hann var þó ekki mikið á skotskónum í fyrra. Þá var hann m.a. að kljást við heimþrá en nú er hún úr sögunni þar sem kona hans og barn eru komin til landsins og vonast KA-menn að hann finni markaskóna.
KA hefur fengið Elmar Dan Sigþórsson til baka og hann og Ibra mynda athyglisverða sóknarlínu. KA hefur ágætis blöndu af efnilegum leikmönnum og reyndari leikmönnum. Í fyrri flokknum er leikmaður eins Almarr Ormarsson sem á framtíðina fyrir sér og vert er að fylgjast með.
Styrkleikar: KA er með frábæran markvörð sem gerir sóknarmönnum andstæðingana lífið leitt og mjög mikilvægt fyrir þá að hafa í sínum röðum. Þá er vörn liðsins einnig sterk. KA er með heimavöll sem erfitt er að heimsækja og hefur í gegnum árin skilað mörgum stigum. Fín blanda af ungum leikmönnum og reyndari köppum.
Veikleikar: Stórir hlekkir voru ekki með KA-liðinu stærstan hluta undirbúningstímabilsins og gæti það tekið þá einhverjar umferðir að stilla saman strengi. Markaskorun er ákveðið spurningamerki og gæti liðinu vantað afgerandi skorara. Hreinn Hringsson sem nú er horfinn á braut skoraði níu af 22 mörkum liðsins í fyrra. Liðið skoraði ekki mikið í Lengjubikarnum.
Þjálfari: Slobodan Milisic. Tók við þjálfun KA fyrir síðasta tímabil. Milisic er fæddur og uppalinn í Bosníu og spilaði hann fótbolta um skeið í Serbíu. Árið 1994 kom hann til Íslands og lék með Leiftri í fimm ár, í eitt ár með ÍA og fór síðan í búning KA. Lagði skóna á hilluna 2003 og var síðan aðstoðarþjálfari meistaraflokks áður en hann tók við sem aðalþjálfari.
Lykilmenn: Sandor Matus, Janez Vrenko og Elmar Dan Sigþórsson.
Komnir: Elmar Dan Sigþórsson frá Víkingi Reykjavík, Hjalti Már Hauksson frá KS/Leiftri, Ibra Jagne frá Þór, Ingi Freyr Hilmarsson frá KS/Leiftri, Kristinn Þór Björnsson frá Dalvík/Reyni, Orri Gústafsson frá ÍBV.
Farnir: Bjarni Pálmason til Hamrana, Hreinn Hringsson til Þórs, Jón Gunnar Eysteinsson til Fjarðabyggðar.