Tilnefningar til íþróttakonu KA 2023

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak | Lyftingar

Fimm konur eru tilnefndar til íþróttakonu KA fyrir árið 2023. Þetta er í fjórða skiptið sem verðlaunin eru afhent hvoru kyni fyrir sig og hefur mikil ánægja ríkt með þá breytingu. Deildir félagsins tilnefndu aðila úr sínum röðum og verður valið kunngjört á 96 ára afmæli félagsins.

Drífa kom eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í keppnishóp lyftinga deildarinnar á árinu 2023. Hún keppti á sínu fyrsta móti í mars síðastliðnum þegar hún keppti á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum. Það má með sanni segja að gengið hafi vel hjá henni þar sem hún lyfti 125 kg í hnébeygju, 65 kg í bekkpressu og 160 kg í réttstöðulyftu, en þá sló hún Íslandsmetið í réttstöðulyftu í flokki kvenna í -57 kg þyngdarflokki.

Drífa lyfti 350 kg í samanlagðriþyngd á mótinu og hlaut þar með íslandsmeistaratitil í -57 kg flokki kvenna. Í maí tók Drífa þátt í Íslandsmeistaramótinu í réttstöðulyftu sem var einmitt haldið af lyftingadeild KA með glæsibrag hérna í KA heimilinu. Þar bætti Drífa eigið Íslandsmet um 12,5 kg þegar hún lyfti 172,5 kg. Lyftan skilaði henni Íslandsmeistaratitli í -57 kg flokki kvenna og einnig 2.sæti í stigakeppni óháð þyngdarflokki.

Í september keppti Drífa á Vestur-Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum, mótið gekk ekki eins vel og Drífa hafði vonað en þrátt fyrir það lyfti hún 125 kg í hnébeygju, 82.5 kg í bekkpressu og 170 kg í réttstöðulyftu. Þá sló Drífa Íslandsmetið í samanlagðri þyngd með 377.5 kg í -57 kg flokk kvenna. Ljóst er að Drífa lærði helling á árinu og tekur með sér ómetanlega reynslu í pokahorninu á næstu árum og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með þessari öflugu lyftingakonu keppafyrir félagið og landsliðið á komandi árum

Helena Kristín var ein af lykilmanneskjunum í framúrskarandi blakliði KA þegar stelpurnar okkar unnu alla þá titla sem hægt var að vinna tímabilið 2022-2023. Stelpurnar urðu Meistarar meistaranna, Deildarmeistarar, Bikarmeistarar og að lokum Íslandsmeistarar. Helena var í lok tímabils valin í lið ársins í stöðu kants auk þess að vera valin besti leikmaður Úrvalsdeildarinnar af Blaksambandi Íslands.

Á núverandi tímabili er Helena fyrirliði KA og hefur leitt liðið áfram og sitja stelpurnar í efsta sæti deildarinnar ásamt Aftureldingu. Helena er gædd þeim eiginleikum að vera ótrúlega metnaðarsöm og drífandi leikmaður sem nær til allra sem með henni spila.

Ísfold Marý átti gott tímabil með Þór/KA sem endaði í 6. sæti í Bestudeildinni. Hún er vel spilandi og fjölhæfur leikmaður sem getur leyst hvaða stöðu sem er mjög vel eins og kom á daginn í sumar þar sem hún spilaði í bæði öftustu og fremstu línu.

Hún var einnig öflug fyrir yngri landslið Ísland en þar var hún í sterku U19 ára sem tók þátt í lokakeppni EM í Belgíu. Þar tók hún þátt í öllum leikjum liðsins og endaði hún og liðsfélagar hennar í 5.-6. sæti. Sá góði árangur gaf þeim umspilsleik um sæti á lokakeppni HM U20. Hún tók þátt í þeim leik gegn Austuríki sem tapaðist.

Jóna Margrét er uppspilari sem spilaði lykilhlutverk í hinu magnaða kvennaliði KA í blaki sem hampaði öllum titlum síðasta tímabils er stelpurnar urðu Meistarar meistaranna, Deildarmeistarar, Bikarmeistarar og að lokum Íslandsmeistarar.

Jóna var valin besti uppspilari úrvalsdeildarinnar og valin í lið ársins. Jóna kvaddi KA í sumar þegar hún hélt til Spánar þar sem hún spilar sem aðal uppspilari með liði Club Sant Joan og er því að ryðja brautina fyrir þær sem á eftir koma og er ótrúleg fyrirmynd bæði innan vallar og utan.

Matea hefur varið mark KA/Þór í efstu deild undanfarin ár og staðið sig frábærlega en hún gekk í raðir KA/Þórs árið 2019 og hefur síðan þá gegnt afar mikilvægu hlutverki í liðinu. Ekki nóg með að standa sig frábærlega inná handboltavellinum að þá er hún afar sterk utan vallar og orðin gildur þegn í samfélagi okkar Akureyringa og aðlagast lífinu á Akureyri vel. Matea var lykilleikmaður í liði KA/Þór sem endaði í 6. sæti efstu deildarkvenna og datt út í 8-liða úrslitum í bikarkeppni HSÍ.

Matea hefur verið einn besti markvörður Olísdeildarinnar undanfarin ár en hún var með yfir 34% markvörslu að meðaltali í öllum leikjum síðasta tímabils og er með 35% meðaltals-markvörslu á yfirstandandi tímabili. Hún var kjörin besti leikmaður KA/Þórs á síðustu leiktíð og miðlar vel af reynslu sinni til yngri leikmanna liðsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is