Sigríður og Þormóður fengu heiðursviðurkenningu

Almennt
Sigríður og Þormóður fengu heiðursviðurkenningu
Sigga og Móði eru ansi vel að heiðrinum komin

Kjör íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar fyrir árið 2022 fór fram í Hofi í gær við hátíðlega athöfn og voru fjórar heiðursviðurkenningar frá fræðslu- og lýðheilsuráði Akureyrar fyrir vel unnin störf í þágu íþrótta á Akureyri afhentar. Við í KA áttum þar tvo fulltrúa en það eru þau Sigríður Jóhannsdóttir og Þormóður Einarsson.

Sigríður eða Sigga systir eins og hún er iðulega kölluð innan KA er fædd 26. desember 1963 og lék á sínum yngri árum knattspyrnu með KA. Utan vallar hefur Sigríður gegnt ábyrgðarstörfum fyrir félagið í áratugi og meðal annars verið gjaldkeri aðalstjórnar KA í fjölmörg ár samhliða því að vinna ötullega fyrir unglingaráð handknattleiksdeildar félagsins.

Í gegnum tíðina hefur Sigríður eytt fjölmörgum klukkustundum við að aðstoða félagið í kringum hin ýmsu störf og hefur gætt að því að hin fjölmörgu ósýnilegu verkefni í starfi KA séu leyst og hlutirnir gangi smurt fyrir sig. Fyrir þetta óeigingjarna starf hefur Sigríður hlotið gullmerki KA og fær nú heiðursviðurkenningur fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrar.

Þormóður Einarsson eða Móði eins og hann er iðulega kallaður er fæddur 14. nóvember árið 1943 og hefur nánast frá fæðingu verið tengdur KA sterkum böndum. Þormóður lék knattspyrnu með ÍBA og síðar með meistaraflokksliði KA við góðan orðstír og var meðal annars fyrirliði KA er liðið fór í fyrsta skiptið upp í efstu deild.

Móði var fyrsti formaður knattspyrnudeildar KA á sama tíma og hann var leikmaður og fyrirliði liðsins. Þá þvoði eiginkona hans, Elínborg Árnadóttir, búningana af öllum flokkum félagsins. Síðar varð Móði framkvæmdarstjóri félagsins um skeið og hefur hann heldur betur látið félagið njóta góðs af sínum öflugu kröftum. Um margra ára bil fór ekki fram sá handboltaleikur hjá KA nema Móði væri tímavörður eða ritari í sjálfboðastarfi. Fyrir öll sín merku störf hefur hann hlotið gullmerki KA, gullmerki KSÍ auk þess að vera heiðursfélagi KA.

Auk Siggu og Móða voru þeir Herbert Bárður Jónsson og Páll Jóhannesson heiðraðir fyrir þeirra störf í þágu íþróttafélagsins Þórs og óskum við þeim öllum til hamingju með heiðurinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is