Fréttir

Stelpurnar komnar í undanúrslit í Bridgestone bikarnum

KA liðin átti misjöfnu gengi að fagna í Bridgestone bikarnum nú um helgina. Kvennaliðið vann alla sína leiki og komst þar með í undanúrslit keppninnar. Karlaliðið vann einn leik en tapaði illa fyrir Stjörnunni og HK og þarf því að spila seinna um þau tvö sæti sem enn eru laus.

Bridgestone bikarkeppni BLÍ um helgina

Bæði karla- og kvennalið KA taka þátt í Bridgestone Bikarnum sem fer fram í dag og á morgun í Fylkishölli í Reykjavík.  Fylgjast má með framvindu mótsins á http://www.blak.is/  Einnig sendir Skautafélag Akureyrar lið í kvennaflokki til þátttöku á mótinu.

Skiptir sagan og baklandið máli?

Geta yngri leikmenn sótt sér styrk til þeirra eldri - skiptir sagan og bakgrunnur félaga máli.  Af hverju eru gamalgróin íþróttafélög oftast öflugri en þau ungu?  Þetta eru spurningar stundum heyrast í tengslum við íþróttafélög, á afmælum og hátíðlegum stundum.  Um helgina var eitt slíkt afmæli og.....

KA marði Þróttara í bráðfjörugum leik

KA-menn náðu góðum sigri gegn Þrótti, 3-2 í gær eftir mikinn barning. Einhver værð var yfir liðinu en góður endasprettur bjargaði tveimur stigum í hús. Mikil forföll voru í röðum KA og greip Marek þjálfari til þess ráðs að kalla til leiks ýmsa snillinga úr röðum öldungablakara. Má segja að þeir hafi staðið fyrir sínu en yngri spilarar fengu einnig sína eldskírn. Marek notaði þretttán menn í leiknum og hlýtur það að vera Íslandsmet. Þróttur keyrði hins vegar allan leikinn á sínum sex mönnum.

"Tvítugir" Íslandsmeistarar KA heiðraðir

Árið 1989 vann karlalið KA sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í blaki.  Af tilefni þess að 20 ár eru liðin síðan þessi ánægjulegi viðburður átti sér stað hefur stjórn Blakdeildar KA boðið leikmönnum sem unnu þennan titil að koma á leikinn í MIKASA deildinni milli KA og Þróttar Rvk. karla sem fram fer í KA heimilinu laugardaginn 21. nóvember kl. 17:00.  Fyrir leikinn verður stutt athöfn þar sem þessir leikmenn KA verða heiðraðir og mun Sigurður Harðarsson, sem áður var bæði stjórnarmaður og þjálfari hjá Blakdeild KA, flytja stutt erindi.  

Opna KA mótið um helgina

Hið árlega Opna blakmót KA í verður haldið um helgina.  Mótið hefst á föstudagskvöld kl. 18:30 og líkur um kl. 16:00 á laugardag.  Góð þátttaka er á mótinu að vanda alls 22 lið, 14 kvennalið og 8 karlalið. Þess á geta að KA er með 7 lið á mótinu allt frá unglingum upp í öldunga sem er nýtt met hjá félaginu.

Frábær árangur yngriflokkanna

Fyrstu yngriflokkamótin fóru fram um síðustu og þarsíðustu helgi á Neskaupstað. Skemmst er frá því að segja að KA liðin náðu einhverjum besta árangri sínum á þessum mótum fyrr og síðar.  Sérstaklega voru karlaliðin í 3. og 4. flokki sterk en þau töpuðu ekki hrinu á mótunum.

Tveir góðir sigrar í blakinu

Blaklið KA voru í eldlínunni í dag og unnu bæði mjög sterka sigra. Strákarnir fengu Stjörnuna í heimsókn og unnu 3-1 í mjög jöfnum og spennandi leik. Strax á eftir spiluðu stelpurnar við Þrótt frá Neskaupsstað og eftir frábæran leik urðu þær ofan á í 3-2 sigri. Liðin eru nú bæði á toppnum og virðist ekkert lát á sigurgöngu kvennaliðsins. Stelpurnar eru enn ósigraðar og ljóst er að spennandi vetur er að fara í hönd hjá KA.

Tap gegn HK í fyrsta heimaleiknum

KA strákarnir mættu HK í dag í afar skrautlegum leik. Virtust gestirnir algjörlega máttlausir í upphafi leiks og KA komst í 2-0 án nokkurrar fyrirhafnar. HK gerði sér svo lítið fyrir og vann næstu þrjár hrinur og þar með leikinn 2-3. Í þeim hrinum virtust KA-menn hreinlega ekki hafa nokkra trú á að HK gæti gert þeim skráveifu. Kæruleysi greip um sig og liðið spilaði bara á hálfum snúning og því fór sem fór.

Kvennalið KA vann Ými 3-0

KA-stelpurnar eru enn ósigraðar í blakinu eftir þrjá leiki. Um helgina skellti liðið Ými úr Kópavogi 3-0. Liðið var á köflum að sýna fína takta og reynsluboltarnir Birna Baldursdóttir og Hulda Elma Eysteinsdóttir koma til með að styrkja það mikið í vetur. KA var með yfirhöndina allan leikinn en minnstu munaði þó að Ýmir ynni aðra hrinuna. KA er nú á toppnum í deildinni og verður sú staða að teljast nokkuð óvænt.