Granitas Kaunas - KA 27-23, 5. okt 1997

KA varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta skiptið árið 1997 og fékk fyrir vikið þátttökurétt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu tímabilið 1997-1998. Þar voru mótherjar KA liðsins Litháensku meistararnir í liði Granitas Kaunas en ekkert íslenskt lið hafði komist inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Miklar breytingar höfðu orðið á liði KA sem hampaði titlinum en Atli Hilmarsson tók við liðinu um sumarið af Alfreð Gíslasyni. Róbert Julian Duranona, Sergei Ziza, Guðmundur Arnar Jónsson, Jakob Jónsson og Heiðmar Felixson höfðu allir yfirgefið liðið og var því röðin komin að yngri leikmönnum KA að taka við keflinu.

Liðið styrkti sig þó með tveimur erlendum leikmönnum en það voru þeir Karim Yala og Vladimir Goldin. Yala hafði vakið mikla athygli með framgöngu sinni með Alsírska landsliðinu gegn Íslandi á HM í Kumamoto árið 1997. Hann þótti ákaflega leikinn, snöggur og skemmtilegur sóknarmaður en skorti líkamlegan styrk til að standa vörnina af fullum krafti.

Vandræði voru hinsvegar með Goldin en hann var kallaður í herþjónustu Hvít-Rússa skömmu eftir að skrifa undir hjá KA. Það leit því út fyrir að hann myndi ekki leika með KA og spilaði því Evrópuleik með SKA Minsk. Í lok október tókst þó að losa flækjuna en það þýddi að hann var ekki gjaldgengur með KA í Evrópukeppni og munaði um minna enda stór og sterkur leikmaður bæði í vörn og sókn.


Leó Örn skorar gegn Kaunas í leik liðanna í KA-Heimilinu

Fyrri leikur liðanna fór fram í Litháen þann 5. október og var á brattan að sækja fyrir KA liðið. Heimamenn tóku yfirhöndina og leiddu 13-8 að fyrri hálfleik loknum. Ekki leið á löngu uns staðan var orðin 17-9 fyrir Kaunas og virtist sem okkar lið réði illa við hraða þeirra Litháensku. Atli Hilmarsson brá á það ráð að taka leikhlé og reyndi að hægja á leiknum.

Það tókst og smátt og smátt saxaði KA liðið á forskotið. Skömmu fyrir leikslok var munurinn kominn niður í þrjú mörk en heimamenn gerðu síðasta markið og fóru með 27-23 sigur af hólmi og höfðu því fjögurra marka forystu fyrir síðari leikinn í KA-Heimilinu. Gífurleg harka var í leiknum sem leystist nánast upp í slagsmál í lokin þar sem hnefarnir voru á lofti og fékk Leó Örn Þorleifsson meðal annars rautt spjald á sjöundu mínútu síðari hálfleiks.

Karim Yala var markahæstur hjá KA með 7 mörk, Halldór Jóhann Sigfússon 6 (þar af 3 úr vítum), Björgvin Þór Björgvinsson 3, Sævar Árnason 2, Heimir Örn Árnason 2, Jóhann Gunnar Jóhannsson 2 og Þorvaldur Þorvaldsson gerði 1 mark. Sigtryggur Albertsson og Hermann Karlsson stóðu vaktina í markinu.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is