Keppnistímabilið 1997-1998

Þessi texti er enn í vinnslu!

KA varð Deildarmeistari í handbolta öðru sinni veturinn 1997-1998 og má með sanni segja að aldrei hafi verið jafn mikil spenna í toppbaráttunni eins og þann vetur. Þegar upp var staðið voru fjögur lið efst í deildinni með 30 stig en KA var með bestu markatöluna og stóð því uppi sem Deildarmeistari.

Þetta var annar sigur KA í deildarkeppninni en liðið hafði áður unnið deildina árið 1996 og aftur vannst sigur í keppninni árið 2001. Þá varð hið sameinaða lið Akureyrar Deildarmeistari árið 2011.

Ekki voru margir sem höfðu trú á KA-liðinu fyrir veturinn 1997-1998 enda höfðu orðið miklar breytingar á liðinu sem varð Íslandsmeistari árið áður. Liðinu var spáð 5. sæti deildarinnar en Atli Hilmarsson náði að skapa heilsteyptan leikmannahóp sem óx með hverjum leiknum í vetur.


Gleðin var allsráðandi í klefa KA-liðsins á Hlíðarenda

Útlitið var þó ekkert sérlega bjart fyrir lokaumferðina þar sem Fram var á toppnum með 30 stig og átti leik gegn FH sem var í 4. sætinu með 28 stig. KA og Afturelding voru í 2. og 3. sætinu með 29 stig. Mosfellingar áttu leik gegn Stjörnunni sem sat í 8. sæti.

KA átti hinsvegar erfiðan útileik gegn Bikarmeisturum Vals og aðstæður voru sérstaklega erfiðar fyrir liðið því aðeins tveimur dögum áður hafði loks tekist að leika heimaleik KA gegn ÍBV sem hafði verið frestað tvívegis vegna ófærðar. Það var því ekki mikil hvíld milli leikjanna hjá liðinu og í aðdraganda lokaumferðarinnar voru fæstir sem nefndu KA á nafn sem líklega Deildarmeistara.

Þó voru þó nokkrir stuðningsmenn KA sem höfðu óbilandi trú og fylgdu um 300 stuðningsmenn liðinu á Hlíðarenda. Úr varð ótrúleg stemning og var eins og KA-liðið væri að leika á heimavelli. Enn einu sinni sönnuðu þeir gulu styrk sinn, hvort heldur þeir voru leikmenn eða stuðningsmenn.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi, eftir að KA komst í 0-2 tóku Valsmenn við sér og gerðu fjögur mörk í röð. Mikið var um mistök í sóknarleik beggja liða í upphafi og sem dæmi um það gerði KA tvö mörk úr átta fyrstu sóknum sínum og Valur tvö úr sjö sóknum. En þegar mesta taugaspennan var farin úr leikmönnum lagaðist leikurinn. Staðan í hálfleik var jöfn 14-14.

Spennan var ótrúleg í leikjum toppliðanna og breyttist staðan á toppnum nánast við hvert mark sem skorað var. Á lokamínútunum var svo mikil óvissa að starfsmenn HSÍ brugðu á það ráð að setjast upp í bíl með sjálfan bikarinn og keyra í átt að þeim stað þar sem líklegir Deildarmeistarar yrðu krýndir.

"Við vorum á Grensásveginum þegar við ákváðum að fara í Hafnarfjörð því allt benti til að Fram myndi vinna. En það breyttist og þá héldum við áleiðis upp í Mosfellsbæ þar sem útlit var fyrir að Afturelding næði sigri. En það breyttist einnig, því Stjarnan var að vinna Aftureldingu og KA var komið yfir á móti Val. Það var því úr að tekin var stefnan á Hlíðarenda og við náðum þangað rétt þegar búið var að flauta alla leikina af" sagði Pálmi Matthíasson formaður landsliðsnefndar HSÍ.

Þegar upp var staðið höfðu FH-ingar lagt Framara að velli 23-22 og voru því bæði lið með 30 stig í deildinni. Afturelding knúði fram jafntefli gegn Stjörnunni með flautumarki og lauk því einnig keppni með 30 stig.


Fögnuðurinn var gífurlegur á Hlíðarenda (mynd DV)

Í síðari hálfleik voru Valsmenn sterkari framan af og náðu þrisvar tveggja marka forskoti. Þegar staðan var 22-20 og um kortér lifði leiks tóku KA-menn mikinn kipp með Karim Yala fremstan í flokki. Þeir gerðu fjögur mörk í röð á sjö mínútna kafla og breyttu stöðunni í 22-24. Valsmenn jöfnuðu, 24-24, og sex mínútur eftir af leiknum.

Leó Örn Þorleifsson og Karim Yala komu KA í vænlega stöðu 24-26 og sigurinn virtist blasa við. En Valsarar voru ekki á sama máli og þeir jöfnuðu með síðustu tveimur mörkunum og lokatölur voru því 26-26. Algjör þögn ríkti á Hlíðarenda í leikslok en nokkrum sekúndum síðar ærðust KA-menn af fögnuði en þá höfðu staðfestar fregnir borist af úrslitum annarra leikja.

Af liðunum fjórum sem voru jöfn á toppnum var KA með bestu markatöluna eða 68 í plús. Næstir komu Framarar með 64 mörk, svo FH með 50 mörk og loks Afturelding með 43 mörk í plús. Ótrúleg lokastaða í deildinni en KA liðið átti magnaðan lokasprett þar sem liðið halaði inn 9 stigum af 10 mögulegum.

Ekki nóg með að verða Deildarmeistarar og þar með heimaleikjarétt í úrslitakeppninni tryggði KA sér sæti í Norðurlandakeppni félagsliða ásamt Bikarmeisturum Vals en keppt var í Svíþjóð. Eftir tap gegn norska liðinu Runar í 8-liða úrslitum vann KA góða sigra á sænska liðinu Drott og norska liðinu Viking og endaði því í 5. sæti keppninnar. Valsmenn urðu hinsvegar í áttunda og neðsta sæti keppninnar.

Bjóst ekki við sigri í deildarkeppninni

Atli Hilmarsson, þjálfari KA, var kátur í lokin enda fyrsta keppnistímabilið sem hann var með liðið. "Satt að segja bjóst ég ekki við sigri okkar í deildarkeppninni fyrir síðustu umferðina því Fram var með bikarinn nánast í hendi sér og eins átti Afturelding góða möguleika. Ég reyndi að einbeita mér að þessum leik á móti Val og hugsa ekki um hvernig færi hjá hinum liðunum. Ég reyndi að prenta það inn hjá mínum strákum að hugsa fyrst og fremst um að vinna þennan leik."

"Þegar staðan var jöfn, 26-26, og þrettán sekúndur eftir af leiknum fékkst það staðfest út í sal að okkur dugði jafntefli. Ég öskraði því inn á og bannaði mönnum að skjóta á markið fyrr en á síðustu sekúndu" sagði Atli.

Hann sagði árangurinn í deildarkeppninni væri framar vonum. "Okkur var spáð fimmta sæti í deildinni og það er ekkert undarlegt því við höfum skipt um sjö leikmenn frá í fyrra. En þessi árangur undirstrikar að við erum með gott lið. Strákarnir hafa allir æft mjög vel í vetur. Þátttaka okkar í Meistaradeildinni hefur líka verið góður skóli fyrir okkur og ivð komum til með að njóta góðs af því. Þess má einnig geta að ég tók við góðu búi af Alfreð Gíslasyni og öll umgjörð í kringum liðið er góð."

Skutumst fram í sviðsljósið þegar það skipti máli

"Við áttum erfitt með að trúa því að jafnteflið myndi duga okkur. Við erum búnir að vera hlémegin við Aftureldingu og Fram og höfum látið þau um athyglina í vetur. Nú voru það við sem skutumst fram í sviðsljósið, þegar það skipti máli. Þetta var stórkostlegt" sagði Jóhann Gunnar Jóhannsson fyrirliði KA þegar titilinn var í höfn.

"Við áttum helminginn af húsinu og rúmlega það. Okkar frábæru áhorfendur eru komnir aftur til að vera og í síðustu tveimur leikjum hafa þeir verið ómetanlegir. Það er rosalega mikilvægt að vera komnir með heimavallarréttinn alla leið og það er mikill plús í baráttunni. Við ætlum að reyna að ná Stjörnunni í tveimur leikjum, öll þessi átta lið eru annars mjög jöfn og það eiga eftir að koma óvænt úrslit í úrslitakeppninni."

Kom skemmtilega á óvart

Þorleifur Ananíasson, einn af frumherjunum í kringum handboltann hjá KA, var eins og aðrir KA-menn í sigurvímu eftir að Deildarmeistaratitillinn var í höfn.

"Þetta kom mér skemmtilega á óvart og fyrir mótið var ég búinn að tippa á Hauka eða Aftureldingu og KA í 4.-5. sætið. Eftir leikinn gegn ÍBV á dögunum gatmann dreymt um að þetta gæti gerst. Mér fannst við vera búnir að skíttapa deildinni fyrir nokkru. Við töpuðum fyrir Fram og Aftureldingu og gerðum jafntefli við HK og þá hélt maður að þetta væri endanlega búið."

"En strákarnir sýndu ótrúlegan karakter. Liðið hefur verið mjög óheppið með meiðsli í vetur og það má ekki gleyma að liðið er mjög breytt frá því í fyrra. En þessir strákar þekkja ekkert annað en að vinna titla og það er alveg ljóst að Atli hefur unnið frábært starf. Ég er því mjög glaður fyrir hönd Atla og strákanna að þessi titill hefur unnist."

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is