Keppnistímabilið 2020-2021

Þjálfari meistaraflokks karla var Jónatan Magnússon og honum til aðstoðar Sverre Andreas Jakobsson.. Liðið lék í Olís deild karla og endaði í 6. sæti deildarinnar og komst þar með í úrslitakeppnina þar sem liðið féll út á móti Val sem reyndar endaði sem Íslandsmeistari. Í bikarkeppninni tókst aðeins að ljúka einni umferð þar sem KA sló Þór út, en framhaldi bikarkeppninnar var síðan frestað fram á upphaf næstu leiktíðar.

Líkt og undanfarin ár léku konurnar undir merki KA/Þór og gerðu heldur betur góða hluti á tímabilinu. Í stuttu máli þá unnu þær alla titla sem í boði voru. Hófu tímabilið með því að vinna titilinn meistarar meistaranna, urðu deildarmeistarar og kórónuðu tímabilið með því að taka Íslandsmeistaratitilinn þar sem þær unnu Val 2-0 í lokaeinvíginu. Bikarkeppnin var blásin af og frestað fram á upphaf næstu leiktíðár. Þjálfari meistaraflokks KA/Þór var Andri Snær Stefánsson og honum til aðstoðar Sigþór Árni Heimisson.

Á lokahófi HSÍ, þar sem handboltaveturinn var gerður upp, voru KA og KA/Þór heldur betur sigursæl og rökuðu til sín verðlaunum eftir frábæran vetur.

Rut Jónsdóttir var valin besti leikmaður Olísdeildar kvenna en Rut kom eins og stormsveipur inn í deildina eftir 12 ára atvinnumannaferil. Rut er ekki bara stórkostlegur leikmaður heldur lyftir hún samherjum sínum einnig upp á hærra plan og er heldur betur vel að verðlaununum komin. Ekki nóg með að vera valin besti leikmaðurinn fékk hún einnig Sigríðarbikarinn ásamt því að vera valin besti sóknarmaðurinn.

Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs var valinn besti þjálfari Olísdeildar kvenna. Andri Snær tók við liðinu fyrir veturinn og endaði á að vinna alla titlana sem í boði voru. Fyrir veturinn í vetur hafði KA/Þór aldrei hampað stórum titli og afrekið magnaða því enn stærra.

Matea Lonac var valin besti markvörður Olísdeildar kvenna en Matea sýndi mikinn stöðugleika í vetur og fór á kostum. Hún var með 36,1% markvörslu í deild og úrslitakeppni sem er frábær tölfræði auk þess að vera frábær liðsfélagi.

Loks var Rakel Sara Elvarsdóttir valin efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna en Rakel Sara sem er aðeins 18 ára gömul hélt áfram að stíga upp í vetur sem kristallaðist í úrslitakeppninni þar sem hún skoraði ófá mörkin á úrslitastundum leikjanna.

Árni Bragi Eyjólfsson var valinn besti leikmaður Olísdeildar karla en Árni Bragi átti stórbrotið tímabil og má með sanni segja að hann hafi hrifið hug og hjörtu KA-manna í vetur. Loksins fengum við að upplifa kappann í gula og bláa búningnum og sá stóð heldur betur undir öllu því sem á hann var lagt í vetur. Árni rakaði heldur betur til sín verðlaununum í dag en hann varð markakóngur deildarinnar, var valinn besti sóknarmaður, fékk Valdimarsbikarinn og uppskar Háttvísisverðlaun HSÍ.

Á lokahófi handknattleiksdeildar voru Rut og Árni Bragi sömuleiðis valin bestu leikmenn liðanna, Rakel Sara og Arnór Ísak Haddsson efnilegustu leikmenn auk þess sem Martha Hermannsdóttir og Jón Heiðar Sigurðsson voru valdir bestu liðsfélagarnir.  Nánar um lokahófið

Hér til hliðar er hægt að skoða leikmannahópa liðanna svo og yfirlit yfir úrslit allra leikja liðanna á tímabilinu.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is