Keppnistímabilið 1993-1994

Alfreð nýtur fulls trausts þrátt fyrir að sl. vetur hafi valdið stuðningsmönnum jafnt sem stjórnarmönnum vonbrigðum. Alfreð er ráðinn til 2-ja ára og nú er hópurinn styrktur verulega með tveimur af bestu leikmönnum landsins, Valdimar Grímssyni og Sigmari Þresti Óskarssyni markverði úr Eyjum. Sigurður Sigurðsson heldur áfram sem formaður deildarinnar.

Liðið fór vel af stað, því í troðfullu KA-heimili vinnst sigur á Val 28:22 og fór Valdimar fyrir sínum mönnum gegn gömlu félögunum í Val og skoraði 10 mörk. Var það forsmekkurinn að því sem koma skyldi, ekki má heldur gleyma þætti Sigmars Þrastar, sem varði á þriðja tug skota. Eftir góðan sigur á sterku liði Vals þyngdist róðurinn, tap í Seljaskóla gegn ÍR 16:17, jafntefli við Selfoss 23:23, þar sem Valdimar gerði 11, tap gegn Haukum 30:25 í miklum slagsmálaleik. Brottvísanir urðu alls 20, KA 12 og Haukar 8 og því brottvísanir í samtals 40 mínútur! Valdimar gerði 8 mörk í Haukaleiknum og 11 í tapleik gegn Víkingi 29:31. KA var í 8. sæti eftir 5 umferðir og róðurinn vægast sagt þungur.

Alfreð í leik gegn Selfossi
Alfreð Gíslason - harðskeyttur í sókn og vörn. Hér í leik gegn Selfyssingum.

Eftir enn einn ósigurinn, gegn Aftureldingu 25:26 komu sigrar á KR 25:24, Stjörnunni 27:25, þar sem „nýliðarnir“ tveir voru bestir, Sigmar Þröstur með ein 20 skot varin og Valdimar með 14 mörk (!), HK í bikarnum 29:28, þar sem enginn afgangur var eins og sjá má. af úrslitum leiksins. Valdimar markamaskína skoraði 12 í leik þessum og bætti um betur og gerði 13 í 26:26 jafnteflisleik gegn FH, sem komst raunar í 1:9! Þessu fylgdi liðið svo eftir með jafntefli gegn Val 15:15 þar sem margnefndur Valdimar skoraði liðlega helming marka KA eða 8 mörk!

Í kjölfar þessa góða kafla vann KA Val í 4-liða úrslitum bikarins með 21:19 í frábærum leik í KA-heimilinu og fylgdi þeim sigri eftir með því að gjörsigra Þór 31:19 þar sem Valdimar fór fremstur og setti 12. KA í 7. sæti.

KA ákveður að senda lið 6. flokks í fyrsta sinni á Íslandsmótið og gera piltarnir vel með því að fara í úrslit í A-, B-og C-liða undir stjórn Jóhannesar Bjarnasonar. Vel gengur í öðrum flokkum, má segja að starfið blómstri sem aldrei fyrr og útlitið vægt til orða tekið jákvætt.

Nýtt ár hefst með ósigri fyrir ÍBV, 22:25 þrátt fyrir 22 skot varin af Eyjapeyjanum Sigmari Þresti og 10 mörk Valdimars. Sigur gegn ÍR 23:22 í æsispennandi viðureign, enn og aftur gerir Valdimar 10 mörk í leik. Í kjölfarið fylgdi góður kafli þótt eitt tap hafi slæðst með, 30:26 sigur á Selfossi syðra, þá glæsilegur sigur á ÍBV í undanúrslitum bikarkeppninnar, 20:16. Sýndi lið okkar mikinn styrk og lék við hvurn sinn fingur, einkum var það Sigmar Þröstur sem var sínum gömlu samherjum erfiður en Valdimar 6, Jóhann Gunnar 5 og Þorvaldur Þorvaldsson 4 voru markahæstir. Lið okkar sem sé komið í bikarúrslit í fyrsta sinni og skal leikið gegn stórliði FH, sem hefur mikla reynslu af slíkum leikjum.

Valdimar Grímsson í gegn í leik gegn ValValdimar Grímsson skorar gegn sínum gömlu félögum

Eftir tap gegn Víkingi 22:26, Valdimar með 10, kom yfirburða sigur á Aftureldingu 31:16 (!) og enn eru það Sigmar og Valdimar (10) sem eru í sviðsljósinu en auðvitað lék allt liðið skínandi vel í leiknum. Sigur 25:21. á KR og liðið komið í 6. sæti en Þór fellur eftir tap gegn FH. Margnefndur Valdimar markamaskína slasar sig í leik á snjósleða í hlíðum Hlíðarfjalls og útlitið ekki gott fyrir mikilvægasta leik KA frá upphafi.

Stúlkurnar í 4. flokki hafna í 2. sæti 2. deildar og komast þannig í 10 liða úrslit Íslandsmótsins, markahæstar Ebba Særún Brynjarsdóttir og Sólveig Sigurðardóttir.

Stóri dagurinn rann upp þann 5. mars 1994, vel á 2. þúsund manns leggur land undir fót og stemmningin í Laugardalshöll einstök. KA átti þó eftir að kynnast því hve hefðin er sterk og hversu miklu munar að hafa reynslu af leikjum sem þessum, 23:30 var niðurstaðan og má segja að hið leikreynda lið FH hafi gert út um leikinn strax á upphafsmínútum leiksins. Valdimar var markahæstur þrátt fyrir eymslin og gerði 9 og Alfreð með 4. Þrátt fyrir tap voru Akureyringar stoltir af sínum mönnum, sem upplifað höfðu alveg nýja reynslu og nutu hennar þrátt fyrir stórt tap.

Lið okkar endaði í 6. sæti með 24 stig, vann m.a. Þór 29:20 þar sem Valdimar gerði 13 mörk og vantaði einungis 2 mörk upp á 200 mörkin í 1. deild, en 198 er met þó, og á leik gegn Selfossi í úrslitakeppninni en varð Akureyrarmeistari áður en til þess leiks kom. Leikurinn á Selfossi var erfiður og 22:29 niðurstaða, Valdimar með tæplega helming marka eða 10. Heimaleikurinn vannst 27:23 en tap á Selfossi, 27:24, og þátttöku KA á Íslandsmótinu lokið þetta árið.


Hér má sjá syrpu af meistaraflokki KA tímabilið 1993-1994

Jóhannes Bjarnason fór suður með 6. flokkinn sinn, kom norður með 3 Íslandsmeistaratitla, 14 sigra og eitt jafntefli! Jú, piltarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu úrslitaleiki A-, B-og C-liða í 6. flokki, sem er að sjálfsögðu einstakur árangur. Vert er að geta aðstoðarmanns Jóhannesar, sá heitir Þórir Sigmundsson og er einungis 14 ára en er þegar farinn að sýna tilburði á sviði þjálfunar hefur einnig góða fyrirmynd.


Frétt RÚV um heimkomu 6. flokks drengja

Íslandsmeistarar KA 1994 – 6. flokkur karla A-lið
Íslandsmeistarar KA 1994 – 6. flokkur karla A-lið. Aftari röð frá vinstri: Þórir Sigmundsson aðstoðarmaður, Hafþór Úlfarsson, Atli Ingvason, Einar Logi Friðjónsson, Ingólfur R. Axelsson, Jóhannes G. Bjarnason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Helgi Jónasson, Gísli J. Grétarsson, Baldvin Þorsteinsson fyrirliði, Birkir Baldvinsson, Einar Ingi Egilsson, Stefán Pálsson.

Íslandsmeistarar KA 1994 – 6. flokkur karla B-lið
Íslandsmeistarar KA 1994 – 6. flokkur karla B-lið. Aftari röð frá vinstri: Þórir Sigmundsson aðstoðarmaður, Jóhann Valdemarsson, Ólafur Már Þórisson, Elfar Alfreðsson, Skúli Eyjólfsson, Jóhannes G. Bjarnason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Árni B. Þórarinsson, Jóhann Helgason, Atli Ragnarsson, Arnar Sæþórsson fyrirliði, Gunnar Ómarsson, Gunnar Björnsson.

Íslandsmeistarar KA 1994 – 6. flokkur karla C-lið
Íslandsmeistarar KA 1994 – 6. flokkur karla C-lið. Aftari röð frá vinstri: Þórir Sigmundsson aðstoðarmaður, Theodór Kr. Gunnarsson, Jóhannes Árnason, Halldór Örn Tulinius, Geir Sigurðsson, Birkir Stefánsson, Jóhannes G. Bjarnason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Steindór Kr. Ragnarsson, Kristján Aðalsteinsson, Jón Gunnarsson, Egill Thoroddsen fyrirliði, Egill Daði Angantýsson, Bjarni Þórisson, Arnór Sigmarsson.

Vel gekk einnig í 3. og 4. flokki, fengu raunar silfur á Íslandsmótinu og sem dæmi um styrk flokkanna má geta þess, að 4. flokkur KA lék á vetrinum 26 leiki, vann 25 en tapaði einungis úrslitaleiknum sjálfum gegn KR 11:15.

3. flokkur Árna Stefánssonar stóð sig einnig með prýði en mátti játa sig sigraðan eftir tvíframlengdan úrslitaleik gegn ÍR. í samhengi við yngri flokkaumræðuna er ljúft og skylt að geta þeirra góðverka sem foreldrafélögin eru að vinna og eru að skila mikilli vinnu í mörgum tilfellum. Sigur vannst í öllum flokkum karla í Akureyrarmótinu. Í drengjalandslið Íslands eru valdir Halldór Jóhann Sigfússon, Vilhelm Jónsson, Hörður Flóki Ólafsson og Heimir Örn Árnason.

Á lokahófi HSÍ var Valdimar kjörinn „besti leikmaðurinn“ auk þess að vera langmarkahæstur á Íslandsmótinu. Stefán Arnaldsson var ásamt Rögnvaldi kosinn besti dómarinn.

Myndbönd frá 1993-1994

1992-1993 << Framhald >> 1994-1995

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is