Keppnistímabilið 1995-1996

Valdimar Grímsson ákvað að hverfa suður yfir heiðar að nýju eftir tvo góða vetur nyrðra og var Valdimar löngu kominn í guðatölu hjá áhangendum KA en eftir stóð Patrekur Jóhannesson, sem slegið hafði eftirminnilega í gegn og bætt sig á öllum sviðum sem handknattleiksmaður. Til KA voru einnig keyptir liðlega 2 metra risi frá Kúbu, Julian Duranona, og Guðmundur Arnar Jónsson markvörður úr ÍH. Auk þeirra tveggja komu Björgvin Þór Björgvinsson úr Breiðabliki og Heiðmar Felixson úr Þór. Tveir okkar ungu leikmanna, Halldór Sigfússon og Hörður Flóki Ólafsson komust í landslið undir 16 ára. Anna Bryndís Blöndal úr 3. fl. kvenna var valin í 16 manna hóp landsliðs 16-18 ára.

SS-Byggismótið er haldið fyrsta sinni í KA-heimilinu og vinnst af KA er vann FH í úrslitaleiknum og skömmu síðar halda Patrekur og Leó Örn með A-landsliðinu til keppni í Austurríki. Á Opna-Reykjavíkurmótinu tapar KA fyrir FH í 8-liða úrslitum og í leik „Meistarar meistaranna“ vinnur Valur okkur með 23:26, í fremur tilþrifalitlum leik í KA-heimilinu. Patrekur virtist einn hafa gaman af og skoraði 13 mörk, Julian Duranona stimplaði sig inn og gerði 6 mörk.


Innkoma Julian Duranona inn í KA-liðið vakti mikla athygli

Íslandsmótið fór vel af stað með útisigri á KR 33:29 þar sem Julian gerði 13 mörk, flest með miklum langskotum, Patrekur 7 og Björgvin Þór Björgvinsson 4. Annar leikur var sýning af hálfu KA er stjörnum prýtt lið Aftureldingar kom í heimsókn og mátti sætta sig við 9 marka tap, 33:24. Patrekur og Julian gerðu þar 9 hvor, Leó Örn 7 og Erlingur 4.

Sú breyting var gerð á handknattleiksreglum að leikhlé eru tekin upp, 1 mínútu hlé í hvorum hálfleik af hvoru liði, en tillagan var borin upp af Guðjóni L. Sigurðssyni dómara.

Menn héldu uppteknum hætti, því í 3. leik mátti Hafnarfjarðarrisinn FH játa sig sigraðan á eigin heimavelli, 31:28. Julian gerði 11, Jóhann Gunnar 7 og Patrekur 5. Þótti KA-liðið sýna skínandi leik og leyfði liðið sér að slaka á undir lok leiks en liðið átti í vændum erfitt verkefni í Noregi gegn Viking frá Stavanger en lið okkar tekur þátt í Evrópukeppni fyrsta sinni.

Fyrsti Evrópubikarleikur KA í handknattleik
Hinn 7. október var leikið gegn Viking, um 100 stuðningsmenn fylgdu liði sínu á erlenda grundu og hvöttu langt umfram hina norsku áhorfendur. KA lék vel og gaf Norðmönnum aldrei færi á að stinga af, úrslitin 23:24 fyrir Viking voru gott veganesti fyrir heimaleikinn viku síðar. Patrekur og Jóhann Gunnar voru bestir KA-manna ásamt Guðmundi Arnar markverði, gerðu 9 og 7 mörk.

Gulir og glaðir
Gulir og glaðir fylgjast með sínum mönnum úti í Noregi

Keppni er hafin - 100 gulklæddir létu vel í sér heyra
Keppni er hafin - 100 gulklæddir áhorfendur létu vel í sér heyra.

Viku síðar, 15. október, mættust liðin öðru sinni, vel hvatt áfram af fjölmörgum aðdáendum sínum vann KA næsta auðveldan sigur 27:20. Nú var það Julian sem dró vagninn og skoraði 9, Jóhann Gunnar 6 og Leó Örn 4.

KA keppti við landsúrval, sem lék við hvurn sinn fingur og vann auðveldan 40:25 sigur í KA-heimilinu. En úrslitin skiptu engu, málefnið öllu meir, þar sem aðgangseyrir allur rann til bágstaddra á Flateyri, en þorpið varð fyrir ægikrafti náttúruaflanna. Alls söfnuðust langt á 4. hundrað þúsund krónur og ber að þakka þeim fjölda er mætti í húsið.

Stuttu eftir nefndan leik lék KA í Evrópukeppninni gegn stórliði VSZ Kosice, en í troðfullu KA-heimili vann KA athyglisverðan sigur 33:28, þótti leikurinn hin besta skemmtan. Patrekur naut sín sem aldrei fyrr og gerði 10 mörk, Julian 7. Tveimur vikum síðar er úti ævintýri, stórlið Kocsice sýndi mátt sinn og megin og vann heima 24:31., sem telja verður þó góð úrslit, því liðið er ægisterkt, en þeir þóttu sýna heldur óprúðmannlega framkomu. Julian var langfremstur okkar manna, skoraði 12 mörk og Patrekur 5. Skömmu síðar er Patrekur valinn í Evrópuúrval er leikur gegn heimsmeisturum Frakka.

Vel gengur í hvoru tveggja deildinni sem og í bikarnum, efstir í deildinni eftir 8 umferðir. Alfreð er með gott lið í höndunum er leikur æ betur. Í upphafi nýs árs mætast bikarlið sl. árs, KA-Valur í KA-heimilinu í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar, með tilheyrandi stemmningu. Álit flestra er, að það lið sem vinni þessa rimmu muni þegar yfir lýkur standa uppi sem bikarmeistari, að þetta sé hinn eini sanni úrslitaleikur! Leikurinn bauð upp á allt sem síðustu leikir liðanna hafa boðið upp á, við KA-menn höfðum ástæðu til að gleðjast, því sigur vannst 23:21. Guðmundur Arnar sýndi frábæran leik og varði yfir 20 skot gegn besta liði Íslands og lagði grunninn að sigri KA. Liðið lék annars allt vel en Julian gerði 8 og Jóhann Gunnar 4 mörk.

Leó Örn lék landsleik á Grænlandi og síðar kom Björgvin Þór í hópinn og vinnur sér fast sæti í landsliðshópi Íslands, ásamt Patreki, Leó Örn er einnig í hópnum áfram. KA vinnur sinn 5. sigur í röð er liðið vinnur FH næsta auðveldlega 36:30 með Patrek í ham, er gerði 12 mörk. Í lok janúar beið Selfoss-lið Valdimars Grímssonar í undanúrslitum bikarkeppninnar og hvílíkur leikur, það var að sönnu engin afgangur af 32:31 sigri KA en voru að sönnu „gulir og glaðir“ þetta kvöld. Julian fór mikinn og skoraði 14 mörk.

Eftir tvo frábæra leiki á leið sinni að bikarnum kom heldur sneyptur úrslitaleikur gegn Víkingi. Ekki svo að skilja að Víkingar hafi ekki sýnt baráttuvilja og verið okkur verðugur andstæðingur, heldur fremur kom visst spennufall eftir undangegna spennuleiki enda verulegur styrkleikamunur á liðunum tveimur. Engu að síður gátu KA-menn glaðst yfir sínum öðrum bikarmeistaratitli, sem er auðvitað mikið afrek. Julian og Guðmundur Arnar voru meðal bestu manna.

KA fagnar Bikarmeistaratitlinum 1996
Bikarmeistaratitlinum 1996 fagnað af ákefð

Eftir langt spennutímabil kom erfiður leikur í Garðabænum, lið okkar lék afleitlega lengi vel, Stjarnan gekk á lagið og hreinlega valtaði yfir viljalitla KA-menn og leiddi í leikhléi 9:15. Allt annað lið mætti til leiks í síðari hálfleik, liðið sýndi þann styrk að snúa tapaðri stöðu sér í hag og vann 27:26, enn og aftur hafði liðið minnt á styrk sinn, að vinna án þess að leika vel. Tveimur vikum síðar er það opinbert að Patrekur muni leika með þýska liðinu Tusem Essen næstu 2 árin, fetar hann þannig í fótspor Alfreðs.

KA gefur ekkert eftir og vinnur Val öðru sinni heima, nú 23:22 í æsispennandi leik, Patrekur 8 mörk, Julian 6, Jóhann Gunnar 5, og fylgdi eftir sigrinum með því að leggja Víkinga að velli 24:20, markahæstir Patrekur og Björgvin Þór með 6 mörk hvor og tryggði liðið sér deildarmeistaratitilinn í fyrsta sinni. Fyrir síðustu umferð, þar sem ÍBV vann KA óvænt 26:28, var KA með 38 stig, Valur 35 og Stjarnan 28.

Í unglingastarfinu er sem fyrr mikið að gerast, virðist sem stöðugt megi gera betur. 6. flokkur Jóhannesar var enn að bíta frá sér, vann nú B- og C-liða keppni Íslandsmótsins, hafa þar með unnist 8 slíkir á 3 árum! Einvarður Jóhannsson og Helgi Þór Arason fylgdu sigrum þeim eftir með því að koma heim með 3 titla í 5. flokki, Íslandsmeistarar í keppni A-, B- og C-liða!
Íslandsmeistarar KA í 5. flokki A lið 1996
Íslandsmeistarar KA í 5. flokki í handbolta. A lið 1996. Aftari röð frá vinstri: Helgi Arason aðstoðarþjálfari, Kjartan Þórarinsson, Helgi Þór Arason, Steinn Kr. Bragason, Hannes R. Hannesson, Einvarður Jóhannsson þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Ari J. Arason, Finnur B. Sigurðsson, Elmar Sigþórsson, Viktor Þórisson. Kató Hauksson.

Íslandsmeistarar KA í 5. flokki B lið 1996.
Íslandsmeistarar KA í 5. flokki í handbolta, B lið 1996. Aftari röð frá vinstri: Helgi Arason aðstoðarþjálfari, Ingólfur Axelsson, Einar L. Friðjónsson, Viðar Valdemarsson, Steinar Ó. Jónsson, Einvarður Jóhannsson. Fremri röð frá vinstri: Egill Jóhannsson, Baldvin Þorsteinsson, Þorvaldur Guðmundsson, Ingvar K. Hermannsson, Gísli Eyland.

Íslandsmeistarar KA í 5. flokki C lið 1996.
Íslandsmeistarar KA í 5. flokki í handbolta, C lið 1996. Aftari röð frá vinstri: Helgi Arason aðstoðarþjálfari, Egill Thoroddsen, Arnar Sæþórsson, Steindór Ragnarsson, Skúli Eyjólfsson, Birkir Stefánsson, Guðjón Ragnarsson, Einvarður Jóhannsson þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Einar Egilsson, Hafþór Úlfarsson, Gísli Grétarsson, Ólafur Þórisson, Sigfús Arason, Jón V. Þorsteinsson, Árni Harðarson.

Íslandsmeistarar KA 1996 – 6. flokkur karla B-lið
Íslandsmeistarar KA 1996 – 6. flokkur karla B-lið. Aftari röð frá vinstri: Jóhannes G. Bjarnason þjálfari, Páll Ingvarsson, Bjarni Pálmason, Friðrik Smárason, Egill Arnarsson, Þórir Sigmundsson aðst. þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Logi Arnarsson, Jón I. Sveinbjörnsson, Stefán Bergsson, Sigurður Sigtryggsson, Jónas Þór Guðmundsson, Gunnar Þ. Björnsson.

Íslandsmeistarar KA 1996 – 6. flokkur karla C-lið
Íslandsmeistarar KA 1996 – 6. flokkur karla C-lið. Aftari röð frá vinstri: Jóhannes G. Bjarnason þjálfari, Gunnar Sigurðsson, Páll Andrés Pálsson, Sigurður R. Helgason, Óðinn Stefánsson, Magnús Stefánsson, Þórir Sigmundsson aðst. þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Hlynur Ingólfsson, Sigurður Fannar Stefánsson, Egill Þór Níelsson, Magnús T. Magnússon, Halldór Brynjar Halldórsson, Guðmundur Hermannsson.

Jóhannes svaraði með því að koma 3. flokknum í hús með Íslandsmeistaratitil. Aðrir flokkar léku líka hressilega, 5. flokkur kvenna undir stjórn Erlings Kristjánssonar náði 3. sæti í keppni A- og B-liða, 4. flokkur karla Friðjóns Jónssonar í 3. sæti í sínum flokki og loks náði 3. flokkur kvenna 4. sæti á Íslandsmótinu undir stjórn Einvarðs Jóhannssonar. Hefur einhver efasemdir um unglingastarf KA?

Íslandsmeistarar KA 1996 – 3. flokkur karla
Íslandsmeistarar KA 1996 – 3. flokkur karla. Aftari röð frá vinstri: Jóhannes G. Bjarnason þjálfari, Atli Þórarinsson, Jóhannes Jónsson, Anton Þórarinsson, Vilhelm A. Jónsson, Guðmundur Pálsson, Heimir Örn Árnason, Jón Óskar Ísleifsson liðsstjóri Fremri röð frá vinstri: Ísak Jónsson Guðmann, Hafþór Einarsson, Halldór Jóhann Sigfússon fyrirliði, Hörður Flóki Ólafsson, Kristinn Ólafsson, Þórir Sigmundsson.

Akureyrarmótið var síðan KA verulega hagstætt í öllum flokkum, þ.á.m. meistaraflokki.

Úrslitakeppni meistaraflokks
Úrslitakeppnin beið okkar manna og skyldi leikið gegn duglegu liði Selfyssinga. KA þurfti að gefa allt til að knýja fram 34:32 sigur í KA-heimilinu, Patrekur með 12 mörk, Julian 11. Selfoss svaraði með 24:25 sigri á Selfossi, sýndu strákarnir hans Valdimars gífurlegan baráttuvilja. Í 3. leik sýndi KA styrk sinn og vann öruggan 5 marka sigur,26:21.

Í 4-liða úrslitum var leikið gegn hinu sterka liði FH. Leikurinn var þó auðveldur KA-mönnum og lauk 34:26, Julian 8, Jóhann Gunnar 7. Í Hafnarfirði var barist frá fyrstu til hinstu stundar og hafði KA að lokum betur 29:28, þótti leikurinn hin besta skemmtun í yfirfullu húsinu að Kaplakrika. Julian gerði þar 12 mörk og Björgvin Þór 6.

Annað árið í röð skyldi uppgjörið verða milli KA og Vals. Fyrsti leikurinn varð aldrei sú skemmtun sem menn höfðu vænst, Valur leiddi allan leikinn 3-5 mörk og vann 26:31. Varnarleikur KA var ekki góður en sóknin skárri, Julian með 11 mörk og Patrekur 8. Með sigri þessum, frammi fyrir 1500-1800 áhorfendum í KA-heimilinu hafði Valur brotið hefðina – sigur heima, tap úti - og stóð með pálmann í höndunum - hafði snúið taflinu við strax í fyrsta leik. Að Hlíðarenda hélt liðið uppteknum hætti og vann örugglega 23:26 þar sem lið okkar var enn á hælunum. Julian gerði 13 mörk og Patrekur 6.

Alfreð Gíslason brýst í gegn í leik gegn ValAlfreð Gíslason skorar af harðfylgi gegn Valsmönnum

KA-heimilið var að venju vel fullt þegar kom til 3. leiks, lið KA sýndi loks hvers megnugt það er og vann 28:26 í bráðskemmtilegum leik. Julian 11 mörk, Patrekur 6. Valsmenn ákveða að leika í Laugardalshöll, sýna þannig öryggi sitt með því að yfirgefa hinn lukkusama heimavöll sinn. Vel á 3-ja þúsund manns kom í Höllina tilbúið að sjá hörkuleik að hætti KA og Vals. En því miður, Valur lék af miklu öryggi frá fyrstu stundu og hleypti KA aldrei inn í leikinn og vann verðskuldað Íslandsmótið fjórða árið í röð, lokatölur 17 25. Julian gerði 9 mörk, Patrekur einungis 3 og var óvenju daufur og Leó Örn 3. Virtust KA-menn mettir eftir langan vetur, náðu ekki háflugi í þessari úrslitarimmu gegn góðu liði Vals, sem er vel að titlinum komið.

Julian Duranona var langmarkahæstur í 1. deild með 195 mörk, átti KA þannig markakóng Íslandsmótsins 3. árið í röð. Einnig var Julian valinn besti sóknarmaðurinn en Patrekur varnarmaðurinn, þar sem hann hefur vaxið mjög. Stefán og Rögnvald voru kosnir bestu dómararnir og telst það vart frétt lengur!

1994-1995 << Framhald >> 1996-1997

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is