Fréttir

Lokaumferð hjá 5. flokki haldið á Akureyri um helgina

Lokaumferð Íslandsmótsins í handbolta í 5. flokki karla og kvenna verður haldið í samvinnu Unglingaráða KA og Þórs um helgina. Leikirnir hefjast kl. 16:00 á föstudag og leikið verður til kl. 21:20. Á laugardag verður leikið frá kl. 8:00 til kl. 20:00 og á sunnudag frá kl. 8:00 til kl. 15:00. Alls verða leiknir 140 leikir og keppendur eru um 500 auk fjölmargra foreldra og þjálfara. Allir eru velkomnir til að sjá handboltahetjur framtíðarinnar, en leikið verður í KA heimilinu, Íþróttahúsi Síðuskóla og Íþróttahúsi Glerárskóla.

Norðlenska verður einn aðalstyrktaraðili KA/Þór

Þann 17.04 var undirritaður samningur milli Norðlenska og KA/Þórs kvennaliðs í handbolta. Norðlenska verður á næstu árum einn aðalstyrktaraðili liðsins og er þetta mjög mikilvægt í því starfi sem framundan er í kvennahandboltanum við að halda stelpunum okkar í fremstu röð.

Daníel Matthíasson í U-18 ára landslið karla

Valinn hefur verið 16 manna hópur u-18 ára landsliðs karla í handbolta sem mun leika í undankeppni EM í Tyrklandi helgina 13.-15. apríl. Okkar maður Daníel Matthíasson er í hópnum og mun vafalaust láta til sín taka í vörn og sókn.

Myndir frá leik KA/Þór gegn deildarmeisturum Vals

Valur hafði betur gegn KA/Þór, 30-22, í lokaumferð N1-deildar kvenna í handknattleik í KA-heimilinu í dag og tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinn þriðja árið í röð. Valur lýkur deildarkeppninni með 30 stig á toppnum, tveimur stigum meira en Fram sem varð í öðru sæti.

KA/Þór – Valur klukkan 16:00 á laugardaginn í KA heimilinu.

Þá er komið að lokaleiknum í N1 deild kvenna þegar KA/Þór tekur á móti stórliði Vals. Með sigri á KA/Þór möguleika á að komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn. Valsmenn geta hins vegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri. Komið og sjáið spennandi lokaleik deildarkeppninnar í vetur.  Aðgangur ókeypis.

Úrslitaleikur hjá KA/Þór á miðvikudaginn

Það er mikið undir í leik Gróttu og KA/Þór á miðvikudaginn þegar liðin mætast á Seltjarnarnesinu. Bæði lið eiga eftir að spila tvo leiki í deildinni þar sem Grótta er í 6. sæti með 9 stig en KA/Þór í því 7. með 8 stig.  Efstu sex liðin fara síðan í úrslitakeppnina þannig að allar líkur eru á því að sigurliðið í þessum leik fái sæti í úrslitakeppninni.

Aðalfundur Handknattleiksdeildar KA á morgun miðvikudag

Aðalfundur Handknattleiksdeildar KA verður haldinn miðvikudaginn 21. mars klukkan 18:00. Léttar veitingar í boði. Dagskrá:  Venjuleg aðalfundarstörf. Allir áhugamenn um handbolta hvattir til að mæta. Stjórnin

Magnaður leikur KA/Þór og ÍBV - myndir

Það var sannkallaður hörkuleikur þegar KA/Þór tók á móti ÍBV í N1-deild kvenna í handknattleik á laugardaginn. Eyjastúlkur unnu að lokum tveggja marka sigur, 24-22, en staðan í hálfleik var 12-14, ÍBV í vil. Florentina Staciu átti stórleik í marki ÍBV og varði 23 skot. ÍBV fer í nítján stig í þriðja sæti deildarinnar en KA/Þór hefur átta stig í því sjöunda og eygir enn von um að komast áfram í úrslitakeppnina þrátt fyrir tap í leiknum.

„Verðum að fá fulla Höll gegn FH“ segir Atli Hilmarsson

Það er gríðarlega mikilvægur leikur á mánudagskvöldið þegar Akureyri tekur á móti toppliði deildarinnar FH og hefst leikurinn klukkan 19:00 í Íþróttahöllinni. Síðast þegar liðin mættust í N1 deildinni lauk leiknum með jafntefli 29 -29 í Hafnarfirði. Áhorfendur stóðu sig frábærlega í síðasta heimaleik gegn HK og nú er enn meira undir, mætum öll og tökum með okkur vini og vandamenn og gerum frábæra skemmtun á mánudagskvöldið.

KA/Þór með heimaleik gegn ÍBV á laugardaginn

Það er stórleikur hjá meistaraflokki KA/Þór á laugardaginn þegar spútniklið ÍBV mætir í KA heimilið. Með ÍBV liðinu leika a.m.k. tveir leikmenn sem voru hér fyrir nokkrum árum, þ.e.a.s. Ester Óskarsdóttir og Þórsteina Sigurbjörnsdóttir. Þær tvær eru einmitt meðal markahæstu leikmanna liðsins það sem af er. Það kostar ekkert inn á leikinn sem hefst klukkan 13:00 á laugardaginn – allir á völlinn og hvetja stelpurnar okkar!