3-0 sigur Þórs/KA á nýliðunum

Fótbolti
3-0 sigur Þórs/KA á nýliðunum
Borgarstjórinn gerði 2 í dag (mynd: Þ.Tr)

Stelpurnar í Þór/KA höluðu inn góðum sigri í kvöld þegar liðið tók á móti nýliðum HK/Víkings í Boganum. Það var ljóst að stelpurnar myndu þurfa góðan skammt af þolinmæði enda sterkari aðilinn fyrir fram.

Þór/KA 3 - 0 HK/Víkingur
1-0 Sandra Mayor ('57)
2-0 Sandra María Jessen ('64)
3-0 Sandra Mayor ('71)

Fyrirfram var vitað að gestirnir myndu verjast aftarlega og beita skyndisóknum. Það kom því ekki á óvart að okkar lið skyldu stjórna ferðinni, en erfiðlega gekk að skapa færi og var fyrri hálfleikur frekar tíðindalítill.

Staðan var því markalaus þegar síðari hálfleikur hófst en eftir um 10 mínútna leik í síðari hálfleik umturnaðist leikurinn. Sandra Mayor fékk boltann í teignum og var komin ein í gegn þegar Maggý Lárentsínusdóttir togaði hana niður. Vítaspyrna dæmd og Maggý fékk umsvifalaust rautt spjald, Borgarstjórinn gerði svo engin mistök á punktinum og staðan orðin 1-0.

Eftir þetta var í raun aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda og tvöfaldaði Sandra María Jessen svo forystuna á 64. mínútu þegar hún skallaði aukaspyrnu frá Önnu Rakel Pétursdóttur í markið. Stuttu síðar var staðan orðin 3-0 þegar Sandra Mayor skoraði stórglæsilegt mark fyrir utan teig.

Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir ágætis tilraunir og góð 3 stig í hús. Stelpurnar hafa því unnið báða leiki sumarsins og það með markatölunni 8-0. Næsti leikur er svo útileikur gegn Bikarmeisturum ÍBV á sunnudaginn og verður spennandi að sjá hvernig sá slagur fer.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is