Flýtilyklar
Keppnistímabilið 1997
Setið sem fastast í næst efstu deild
Nokkrar væntingar voru gerðar til liðsins þetta árið enda kominn til starfa maður sem þekktur hefur verið fyrir mikinn vilja og ósérhlífni, utan vallar sem innan. Sigurður Lárusson lagði sig í líma að koma þessum þáttum til skila en svo virðist sem ekki hafi gengið því liðið náði í raun aldrei að sýna hvað í því bjó með örfáum undantekningum. Þannig vann KA Þór næsta örugglega 3-1 í fyrri umferðinni en annars gekk liðinu illa að halda fengnum hlut og tapaði oftar en ekki á marki á lokamínútum leikjanna.
Árið hófst að sönnu með glæsibrag því 2. flokkur Einvarðs Jóhannssonar gerði sér lítið fyrir og vann Íslandsmeistaratitilinn innanhúss og færði félagi sínu meistaratign sem er alltof sjaldséð í bikarasafni deildarinnar. Sem dæmi um hversu slælega gekk þetta sumarið þá féll þessi sami flokkur úr B-deild í C-deild en auðvitað er þjálfaranum nokkur vorkunn þar sem hann fær aldrei notið alls þess mannskaps sem flokkinn fylla. Þriðji flokkur KA tók þátt í Gothia-cup í Gautaborg og var almenn ánægja með ferðina.
Sigurður þjálfari gat þó glaðst yfir að Akureyrarmótið vannst þriðja árið í röð, aftur eftir 2-2 jafntefli og vítaspyrnukeppni í seinni leik og eru þá Akureyrartitlarnir í meistaraflokki á síðastliðnum 10 árum orðnir 7, sem hlýtur að gleðja okkur þrátt fyrir stöðugt minnkandi áhorf og ánægju í kringum þessa nágrannaviðureignir.
Liðið fór svo sem allþokkalega af stað í ár með jafntefli 1-1 gegn frískum Dalvíkingum ytra, 2-1 sigri á Reyni Sandgerði og loks 3-0 sigri gegn Fylki á KA-vellinum, sem var einn af betri leikjum KA-manna á sumrinu, barátta góð og færsla á liðinu. Jafntefli við FH 1-1 í Firðinum og 7-0 sigur á Fjölni í bikarnum, þannig var lið okkar í allgóðum málum með 2 sigra, 2 jafntefli í deildinni ásamt bikarsigrinum.
Ef frá er talinn nefndur 3-1 sigur á Þór þá hvorki gekk né rak í næstu leikjum og 1-6 tap gegn firna sterku liði ÍBV sveið sárt. Sá munur sem orðinn er á, annars vegar liði frá 4.500 manna byggðarlagi og okkur er svo ótvíræður og Akureyri algerlega í óhag, hvoru tveggja getulega sem fjárhagslega. Fá stig unnust seinni part sumars, menn virtust glata allri tiltrú á sjálfa sig og skilaboð þjálfarans náðu bersýnilega ekki eyrum þeirra. Þó er vert að minnast leikja gegn liðum þeim tveim er upp fóru, Þrótti Reykjavík og ÍR, sá fyrrnefndi tapaðist 2-3 eftir 2-0 stöðu okkur í hag og menn óheppnir að mörkin skyldu ekki vera fleiri – hinum lauk 3-3 eftir bráðskemmtilegan leik á Akureyrarvelli þar sem ÍR auðnaðist að jafna á lokasekúndum leiksins. Þessar stundir voru því miður fátíðar en sýndu að í liðinu býr meira en þau 18 stig sem unnust.
Sigurður, sem verið hefur þjálfari um langt árabil ákvað að hætta – í fullri vinsemd við leikmenn og stjórn KA – taka sér frí frá öllu sem knattspyrna heitir en veita KA aðstoð eftir föngum. Ákveðið var að fá leikmann KA, Einar Einarsson margreyndan keppanda og þjálfara, til starfa og var góð samstaða þar um. Á lokahófi var Atli Sveinn Þórarinsson valinn efnilegastur leikmanna en markahæsti maðurinn, Steingrímur Birgisson, bestur.
Stjórn Knattspyrnudeildar KA 1997-1998, frá vinstri: Einar Þ. Rafnsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Valdimar Freysson formaður, Vignir Einarsson og Tryggvi Gunnarsson
Rætt við Atla Svein Þórarinsson
Keppnistímabilið 1996 << Framhald