Flýtilyklar
Keppnistímabilið 1975
Átta leikir á sextán dögum
Sumarið 1975 tók KA í fyrsta skiptið þátt í Íslandsmóti 3. deildar í knattspyrnu. Þá voru liðin 34 ár síðan félagið hafði síðast átt lið í þessu helsta móti íslenskra knattspyrnumanna. Það var því ekki að ástæðulausu að nýráðinn þjálfari KA, Einar Helgason, varaði félaga sína við of mikilli bjartsýni í blaðaviðtali við Íslending 8. maí 1975. Einar kvað ástandið í knattspyrnumálum Akureyringa mun verra en það hafði verið fyrir nokkrum árum, allt vegna þess að yngri knattspyrnumennirnir höfðu setið svo lengi á hakanum. Einnig var aðstöðuleysið fótboltamönnum fjötur um fót og þegar talið barst að vallarmálum bæjarins var Einar ekkert að klípa utan af orðum sínum, frekar en hans var vandi.
„Aðstaðan hér vægast sagt hörmuleg. Það sem af er vorinu höfum við æft á Sanavellinum. Oft hefur hann verið slæmur, en aldrei eins og nú. Það má með sanni segja að hann sé ónothæfur og jafnvel hættulegur.
Okkur hefur nú verið boðin æfingaaðstaða á grasfletinum fyrir ofan menntaskólann, en sá völlur er einnig í algjörri niðurníðslu. Yngri flokkarnir hafa haft aðstöðu á moldarvellinum yfir neðan grasvöllinn við Brekkugötu. Að mínum dómi er hann hvorki meira né minna en heilsuspillandi fyrir börnin. Þarna leika þau sér í moldarmekki og ryki frá aðalumferðgötunni inn í bæinn. Eini ljósi punkturinn í vallarmálum okkar er loforð um eina æfingu í viku á gasvellinum við Brekkugötu...“
En KA-menn voru ekki á því að láta aðstöðuna standa sér fyrir þrifum. Uppistaðan í hópnum voru gamalreyndir liðsmenn ÍBA-liðsins sáluga, Þormóður Einarsson, sem verið hafði fyrirliði ÍBA þegar það vann sig upp í fyrstu deild 1972, Eyjólfur Ágústsson, bróðir Skúla Ágústssonar, Steinþór Þórarinsson og Jóhann Jakobsson, bróðir Jakobs heitins og Hauks Jakobssonar. Inn í þennan hóp komu ungir og efnilegir piltar eins og til dæmis varnarmennirnir Haraldur Haraldsson og Magnús Vestmann að ógleymdum markaskoraranum Ármanni Sverrissyni.
Úr skaptinu gekk markakóngurinn Kári Árnason, sem var ákveðinn í að leggja skóna á hilluna, og um vorið varð útséð um það að markvörðurinn, Árni Stefánsson, kæmi aftur á heimaslóðir. Hann var þá orðinn fastur liðsmaður í Fram og átti eftir að verja íslenska markið í mörgum landsleikjum. Þetta var vísirinn að því sem átti eftir að koma því KA hefur alla tíð búið við ákveðinn „atgervisflótta“. Margir af liðsmönnum þess, og þá ekki aðeins í fótboltanum, hafa lagt stund á framhaldsnám við skóla á suðvesturhorninu og þá hefur það viljað brenna við að þeir ánetjuðust íþróttafélögum í Reykjavík. Þessa eru fjölmörg dæmi.
Sumarið 1975 var þetta vandamál ofarlega á baugi þótt ekki ætti nema einn maður í hlut í það sinnið – markmaður eins og Árni varð ekki gripinn upp af götunni. KA-menn létu þetta þó ekki á sig fá og sigruðu glæsilega í D-riðli 3. deildarinnar, fengu 15 stig af 16 mögulegum. Liðið var því komið í undanúrslit með Reykjavíkurfélaginu Fylki, Stjörnunni úr Garðahreppi og Einherja frá Vopnafirði. En það gekk ekki átakalaust að knýja fram úrslit milli liðanna fjögurra. KA, Fylkir og Stjarnan gerðu öll jafntefli í innbyrðis leikjum sínum en Einherji fékk ekki stig. Það var því auðsætt að þessi þrjú lið urðu að reyna með sér öðru sinni. Auðvitað datt sunnanmönnum ekki annað í hug en að framlenging undanúrslitanna færi fram í Reykjavík en þá var komið að Þormóði Einarssyni, formanni knattspyrnudeildar KA og fyrirliða kappliðsins, og félögum hans að setja hnefann í borðið. Þeir höfðu orðið að ferðast suður til að taka þátt í undanúrslitakeppninni og núna þótti þeim ekki nema sanngjarnt að mótið færðist norður um heiðar. Niðurstaðan varð sú að spilað var á Árskógsströnd við Eyjafjörð.
Og nú biðu bæði Fylkir og Stjarnan ósigur fyrir KA, við blasti sjálfur úrslitaleikur 3. deildar. Mótherjarnir voru engir aðrir en Þórsarar.
Það var á fyrsta fimmtudegi í september að Akureyringar flykktust á völlinn að sjá bæjarliðin tvö takast á um sigurlaunin í 3. deild. Að viðstöddum 1.300 áhorfendum beið KA ósigur í eina leiknum sem það hefur tapað til þessa í 3. deild. Úrslitin urðu 4-0 Þór í vil.
Ekki var þó öll nótt úti enn fyrir KA því nú var haldið til Reykjavíkur og spilað um hvaða tvö lið ættu að fylgja Þór í 2. deild. Mótherjarnir voru Ísfirðingar og Víkingur frá Ólafsvík, sem lent hafði í neðsta sæti 2. deildar. Ísfirðingar byrjuðu vel, sigruðu Víking, en biðu síðan lægri hlut fyrir KA-mönnum. KA nægði því jafntefli gegn Víkingum til að færast á milli deilda. Spilað var á Melavellinum. Leikmenn urðu að ösla pollana, sem voru óteljandi, og strekkingshliðargola bætti ekki úr skák. Á upphafsmínútum leiksins skoraði Sigbjörn Gunnarsson fyrir KA eftir fyrirgjöf frá Þormóði. Ólafsvíkingarnir svöruðu með þremur mörkum í röð. Útlitið var því orðið heldur dökkt fyrir KA og virtist helst sem öll liðin þrjú ætluðu að verða jöfn að stigum. En Sigbjörn var ekki á því að leika aðra umferð. Um miðjan síðari hálfleik gaf hann boltann á Ármann sem skoraði. Og þegar aðeins um 15 mínútur voru eftir af leiktímanum var Sigbjörn enn á ferðinni og nú með mark sitt númer tvö í leiknum og þriðja mark KA. Úrslitin urðu 3-3.
Á aðeins 16 dögum hafði KA spilað 8 leiki og að endingu náð að tryggja sér sæti í 2. deild að ári.
Ekki dró það heldur úr gleði KA-manna að þetta sama sumar komst 4. flokkur félagsins í úrslit Íslandsmótsins. Þar spiluðu þeir við Breiðablik um efsta sætið. Tvo leiki þurfti til að fá úrslit því fyrri viðureigninni lyktaði með jafntefli eftir að KA-strákarnir höfðu haft yfirhöndina lengst af. Þegar liðin mættust aftur tókst Kópavogsdrengjunum að sigra. Í þessu fyrsta liði KA, sem spilaði úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil, voru margir efnilegir piltar, til dæmis Aðalsteinn Jóhannsson, sem aðeins þremur árum síðar var kominn í mark meistaraflokks, Erlingur Kristjánsson og Gunnar Gíslason, sem fyrstur Akureyringa spilaði með drengjalandsliði Íslands. Þetta sama sumar, 1975, var Gunnar ekki við eina fjölina felldur. Hann setti glæsilegt Íslandsmet í bæði spjótkasti pilta og fimmtarþraut og um haustið fékk hann sérstök verðlaun fyrir frammistöðu sína á knattspyrnuvellinum. Þessi verðlaunaafhending var liður í þeim fasta ásetningi stjórnar knattspyrnudeildar KA að efla unglingastarf félagsins með því meðal annars að veita drengjunum viðurkenningu fyrir getu, ástundun og prúðmennsku á leikvelli. Þeir fjórir leikmenn sem urðu þessa heiðurs aðnjótandi fyrstir voru: Ögmundur Snorrason úr 3. flokki, Gunnar Gíslason úr 4. flokki, Óðinn Óðinsson í 5. flokki og Bjarni Jónsson 6. flokki.
ÍBA liðið skiptist upp << Framhald >> Keppnistímabilin 1976-1977