Keppnistímabilið 1978

Flestir spáðu þeir KA falli

Á vordögum 1978 gerðu sjö blaðamenn á vegum Morgunblaðsins sér það til dundurs að spá fyrir um úrslit Knattspyrnumóts Íslands sem þá var að hefjast. Fimm þeirra sendu KA niður í 2. deild. Og vissulega voru ýmis teikn á lofti sem bentu til þess að róðurinn yrði þungur fyrir nýliðana í 1. deild. Kannski vó þar þyngst á metunum að fimm fyrstu leikir liðsins voru að heiman. En það mátti einnig finna ljósa punkta í tilverunni. Þorbergur Atlason fyrrum landsliðsmarkvörður úr Fram, var kominn til liðs við bróður sinn Jóhannes á Akureyri. Annar landsliðsmaður, Elmar Geirsson, var einnig genginn í raðir KA-manna. Mesta ánægjuefnið var þó að tveir ungir og efnilegir Akureyringar, Aðalsteinn Jóhannsson og Gunnar Gíslason, voru komnir í hóp meistaraflokksmanna KA. Aðalsteinn varð að vísu að bíða enn um sinn með að tryggja sér sæti í ellefu-manna hópnum, enda aðeins 16 ára og við sjálfan Þorberg Atlason að eiga. Gunnar, jafnaldri Aðalsteins, var hinsvegar einn af betri liðsmönnum KA þetta sumar.

Það varð strax ljóst að norðanmenn ætluðu sér annað og meira en fall að hausti. Þrátt fyrir óheppilega niðurröðun leikja tókst þeim að ná fjórum stigum út úr fimm fyrstu leikjum sínum sem voru allir á útivelli. Smám saman seig þó á ógæfuhliðina og Þorbergur í marki KA fékk sífellt fleiri tækifæri að sýna snilld sína. Eftir 10 umferðir hafði liðinu aðeins tekist að vinna einn leik, gegn Keflvíkingum, og uppgjöf virtist vera að grípa um sig meðal KA-manna.

Jóhannes teflir á tæpasta vað

Ellefti leikur KA var framundan, við FH, sem einnig stóð höllum fæti í deildinni. Þetta var heimaleikur fyrir KA-menn en engu að síður þóttu Hafnfirðingarnir öllu sigurstranglegri. Þeim hafði vegnað vel að undanförnu en sömu sögu var ekki að segja af KA sem hafði tapað helmingi leikja sinni og aðeins unnið einn.

Það var í þessari stöðu sem Jóhannes tók þá ákvörðun að setja þrjá af betri mönnum liðsins út í kuldann, þá Sigbjörn Gunnarsson, Ármann Sverrisson og Jóhann Jakobsson. Þetta var djarflega teflt, ekki síst þegar haft var í huga að þessir þrír leikmenn höfðu gert nær öll mörk liðsins um sumarið, eða sjö af samtals átta. En þetta hreif, þremenningarnir sem inn á komu, Óskar Ingimundarson, Ólafur Haraldsson og Gunnar Gunnarsson hleyptu nýju lífi í leik liðsins og fyrsti sigur KA á heimavelli í 1. deildinni varð loks að veruleika. Sigurinn var þó ekki auðsóttur því þrátt fyrir mörg dauðafæri tókst KA ekki að skora fyrr en um miðjan seinni hálfleik. Gunnar Gunnarsson tók þá hornspyrnu, gaf á Eyjólf Ágústsson sem skallaði boltann inn að markteig FH en þar var Gunnar Blöndal á réttum stað og skoraði. Úrslitin urðu KA 1, FH 0.

„Þessu er lokið í bili“

Síga tók á seinni hluta Íslandsmótsins og ekki vænkaðist hagur KA hið minnsta. Félaginu tókst að vísu að ná jöfnu á móti Völsurum, sem urðu Íslandsmeistarar þetta sumar, en síðasta leiknum, gegn Þrótti, töpuðu þeir 1-0. Öllum dagblöðunum bar saman um að KA hefði vissulega átt skilið annað ef ekki bæði stigin. Liðsmenn þess báru höfuð og herðar yfir andstæðingana allan leikinn og mark Þróttara, gert á lokamínútunum, bar keim af rangstöðu. Helmingur útileikmanna KA, fékk tækifæri til að skora, sumir fleiri en eitt, og sýnir það best yfirburði liðsins. Jóhann Jakobsson misnotaði dauðafæri, þrumuskot Eyjólfs Ágústssonar var varið á línu, Elmar átti skot rétt framhjá og Ármann Sverrisson og Gunnar Blöndal fengu sín tækifæri. Þegar kom fram í seinni hálfleik var sókn KA orðin svo þung að fátt virtist geta komið í veg fyrir ósigur Þróttar „... og var oft undarlegt að sjá hvernig mark þeirra slapp“, skrifaði blaðamaður Tímans. Það var því vonsvikinn þjálfari sem sagði við íþróttafréttaritara Morgunblaðsins að leik loknum: „Möguleikar okkar eru nú engir, þessu er lokið í bili.“ Fall blasti við, í botnbaráttunni var aðeins einn leikur eftir, FH – Breiðablik. Fyrirfram voru flestir þeirrar skoðunar að FH-ingar myndu eiga í fullu tré við Kópavogsbúana, sem aðeins höfðu fengið 5 stig allt sumarið og voru þegar fallnir. Fyrir KA skipti þessi leikur öllu máli, ynni FH voru norðanmenn fallnir, yrði jafntefli sáu þeir fram á aukaleik við Hafnfirðinga um 1. deildarsætið. Fáir létu sér til hugar koma að Breiðabliksmenn gætu borið hærri hlut. Það fór samt svo að Blikarnir sigruðu, 3-1. KA slapp með skrekkinn en Breiðablik tók FH með sér niður í 2. deild.

Það varð enn til að létta skap KA-manna að Eyjólfur Ágústsson var valinn Knattspyrnumaður Akureyrar 1978. Þetta kjör hafði farið fram allar götur síðan 1975 en enginn KA-félagi hafði hreppt hrossið fyrr.

Keppnistímabilin 1976-1977 << Framhald >> Keppnistímabilin 1979-1980

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is