Keppnistímabilið 1990

Erfið titilvörn

Þriðja ár lukkukarlsins Guðjóns Þórðarsonar hófst með sigrum á tveimur innanhússmótum, svo Íslandsmeistararnir fóru vel af stað þar að minnsta kosti. Nýr aðstoðarþjálfari kom til KA, Eiríkur Eiríksson, markvörður Þórs til margra ára. Stefán Gunnlaugsson hélt áfram sem formaður sjöunda árið í röð. Bjarni Jónsson, hinn trausti leikmaður KA er valinn til að leika landsleiki gegn Bermuda og Bandaríkjamönnum í öndverðum aprílmánuði og atvinnumaðurinn Þorvaldur Örlygsson er kosinn Íþróttamaður Akureyrar 1989.

Eftir nefnda sigra á innanhússmótum vorsins vann KA Tactic-mótið, vann Þór meðal annars 2-0 og fylgdu þeim sigri eftir með sigri á Fram 1-0 í leik „meistarar meistaranna“. Þótti leikurinn harla daufur en sigur samt ásamt titli var gott veganesti fyrir sumarið. Titilvörnin byrjaði þó álappalega með 0-1 tapi gegn FH, sem enn var í sárum eftir hræðilega lokaumferð árið á undan! Sigurður Pétur Ólafsson er ráðinn þjálfari kvenna, ákveðið var að blása til sóknar þar eftir fundarhöld haustsins.

Bræðurnir Þorvaldur og Ormarr Örlygssynir voru í landsliði Íslands gegn Albaníu (2-0) þann 5. maí , einnig lék Gunnar Gíslason með en hann er jú KA-maður að upplagi. Í framhaldi af þessu má nefna að ungu mennirnir Eggert markvörður og Þórður Guðjónsson voru valdir í unglingalandsliðið.

Byrjun móts var Íslandsmeisturunum erfið, 0-2 tap gegn Val þar sem Anthony Karl skoraði bæði mörk Vals og niðurlæging gegn Fram á Laugardalsvelli, 0-4. Loks í 4. leik vannst sigur, 2-0 gegn Víkingi með mörkum Þórðar G. og Ormarrs og þar á eftir lá Stjarnan 3-1 og „vorið er komið“ að sögn Guðjóns. Dömurnar eiga erfiða daga og tapa gegn Val 0-3 og Þór 1-5 í 1. deildinni.

Í stuttu máli, gekk hvorki né rak þetta sumar í 1. deildinni og orð Guðjóns þjálfara voru svo sönn er hann sagði, að „...mun auðveldara er að vinna titil en að verja hann“. Tap 1-2 gegn Þór þar sem harkan var mikil, meðal annars kinnbeinsbrotnaði Ormarr eftir samstuð við Luca Kostic spilandi þjálfara Þórs. Mark KA gerði Jón Grétar en það dugði ekki til.

Í bikarnum tapaði KA 0-2 fyrir ÍA en á hinu ört vaxandi ESSÓ-móti KA stóð FH uppi sem sigurvegari umfram önnur lið. Eftir tap gegn KR voru KA og Þór orðin neðst með 7 stig hvort lið en heldur birti til er KA burstaði FH 6-0 á Akureyrarvelli þegar Kjartan Einarsson gerði 3 mörk og Jón Grétar besti maður vallarins. Í kvennaboltanum er KA neðst á miðju sumri og tapar síðan í bikarnum gegn ÍA 1-2. Steingrímur Birgisson leikur landsleik gegn Færeyingum þann 3. ágúst og er þá kominn með 3 landsleiki.

3. flokkur KA vinnur titilinn „Bikarmeistari Norðurlands“ auk þess að vinna Akureyrarmeistaratitilinn. Lið okkar sleikir botn deildarinnar allt sumarið ásamt nágrönnum okkar úr Þór, sem öðru sinni sama sumarið vinna okkur 1-2, aukheldur að vinna Akureyrarmótið 1-3 í framlengdum leik, sem auðvitað er sem salt í sárin. KA lauk keppni í 8. sæti af 10 með 16 stig og slapp naumlega við fall en baráttan stóð milli Fram og KR og hafði Fram betur.


KA vann sigur í fyrsta Evrópuleik sínum

Stór stund rann upp þann 19. september er KA atti kappi við Búlgarska stórliðið CSKA Sofia á Akureyrarvelli. Er skemmst frá því að segja að KA lagði þetta sterka lið að velli með marki Hafsteins Jakobssonar þegar á 16. mínútu. Þótti leikurinn hin besta skemmtan, tilþrif KA-manna þau bestu á sumrinu enda kvað þjálfarinn svo: „...við spiluðum agaðan leik og unnum verðskuldað“. Hafi KA leikið agaðan bolta á Akureyrarvelli hinn 19. september gerði CSKA Sofia það í Búlgaríu og vann 0-3, Ormarr þótti sýna þar mikil tilþrif og var ásamt Steingrími Birgissyni besti maður vallarins en KA var engu að síður úr leik í sinni fyrstu Evrópukeppni.

Á vissan hátt verða hér vatnaskil í sögu KA, sá þjálfari sem gert hafði KA að raunverulegu 1. deildarliði, Íslandsmeisturum til að mynda, Guðjón Þórðarson, kveður eftir þrjú góð ár og heldur heim á leið til að byggja ÍA upp að nýju. Stefán Gunnlaugsson, einn okkar mestu stjórnarmanna, kveður knattspyrnudeildina eftir 15 ára stjórnarsetu, þar af formaður í 8 ár, en fer inn í aðalstjórn KSÍ um veturinn. Við formennsku af Stefáni tók Sveinn Brynjólfsson.

Keppnistímabilið 1989 << Framhald >> Keppnistímabilið 1991

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is