Keppnistímabilið 2012

Öflugur lokakafli dugði ekki í toppbaráttunni

Þó nokkrar breytingar urðu á liði KA fyrir baráttuna í 1. deildinni sumarið 2012. Jóhann Helgason sneri aftur heim úr Grindavík, Gunnar Valur Gunnarsson kom úr Fjölni, Darren Lough kom frá Ashington og þá sneri ungverski framherjinn Dávid Disztl aftur í KA. Hinsvegar fór Haukur Heiðar Hauksson í KR, Hafþór Þrastarson fór aftur í FH og Elvar Páll Sigurðsson gekk í raðir ÍR.

Undirbúningstímabilið gekk vel og vann KA afar sannfærandi sigur í riðli sínum á Hleðslumótinu með markatölunni 13-4. Svo sannfærandi var sigur KA í riðlinum að hin þrjú liðin voru öll með neikvæða markatölu. Þór vann hinn riðilinn og því mættust nágrannarnir í úrslitaleik mótsins.


KA vann Hleðslumótið eftir sætan 3-2 sigur á Þór

KA fékk algjöra draumabyrjun þegar Ævar Ingi Jóhannesson skoraði furðulegt mark með skalla strax á 2. mínútu en Janez Vrenko jafnaði metin stuttu síðar. Hallgrímur Mar Steingrímsson sá hinsvegar til þess að KA leiddi 2-1 í hálfleik. Sveinn Elías Jónsson jafnaði metin á 58. mínútu en Hallgrímur Mar innsiglaði sætan sigur KA liðsins með marki á lokamínútunum og Elmar Dan Sigþórsson fyrirliði gat því hampað bikarnum í leikslok.

KA sótti ÍR-inga heim í fyrsta leik sumarsins og kom Guðmundur Óli Steingrímsson KA yfir í fyrri hálfleik og var staðan 0-1 í hléinu. En Heimamenn sneru leiknum við í þeim síðari og komust yfir í 2-1. Jóhann Helgason jafnaði með marki úr vítaspyrnu en Elvar Páll Sigurðsson tryggði ÍR sigurinn gegn sínu gamla liði með skoti frá vítateig í uppbótartíma og 3-2 tap staðreynd í fyrsta leik. Í bikarnum vannst 7-0 sigur á Magnamönnum þar sem Brian Gilmour og Þórður Arnar Þórðarson gerðu báðir tvö mörk og þeir Bjarki Baldvinsson, Dávid Disztl og Guðmundur Óli Steingrímsson gerðu eitt mark hver.

Aftur þurfti KA-liðið að heimsækja Breiðholtið því næsti leikur var gegn Leikni Reykjavík. Þessi heimsókn var þó árangursríkari þrátt fyrir að heimamenn næðu forystunni snemma. Gunnar Valur Gunnarsson jafnaði og var staðan því 1-1 í hléinu. Jóhann Helgason náði forystunni snemma í síðari hálfleik en Dávid Disztl var í stóru hlutverki í leiknum og hann átti meðal annars stangarskot og í lokin skot í þverslá en hinn ungi Ævar Ingi Jóhannesson fylgdi á eftir og gulltryggði 1-3 sigur KA.

Þá var komið að fyrsta heimaleiknum og var það Víkingur Reykjavík sem kom í heimsókn á Akureyrarvöll. Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik og Egill Atlason kom þeim yfir á 36. mínútu. En KA-liðinu tókst að snúa leiknum sér ívil í þeim síðari og Dávid Disztl jafnaði metin er kortér lifði leiks og liðin skyldu því jöfn, 1-1.

En liðið fékk skell í þeim næsta er Fjölnismenn voru sóttir heim. Dávid Disztl minnkaði muninn í 3-1 seint í leiknum en sigur Fjölnis hefði hæglega getað orðið stærri. Því næst kom 2-2 jafntefli gegn Tindastól á Akureyrarvelli þar sem Brian Gilmour og Ævar Ingi Jóhannesson gerðu mörk KA-liðsins. Liðið fór þó áfram í bikarnum með 2-0 sigri á Fjarðabyggð á Akureyrarvelli þar sem Brian Gilmour gerði bæði mörk leiksins seint í síðari hálfleik. Enn fylgdu þó vonbrigðarúrslit í deildarkeppninni er liðið tapaði 2-0 gegn Hetti á Egilsstöðum og var KA því aðeins með 5 stig eftir fyrstu sex leiki sína og í botnbaráttu.

Það var því ekkert sérstaklega bjart yfir fyrir nágrannaslagnum gegn Þór en Þórsarar voru á toppi deildarinnar og til að toppa ástandið hafði Elmar Dan Sigþórsson fyrirliði KA slitið krossband í leiknum gegn Tindastól og lék því ekki meira það sumarið. Þá fékk Þórður Arnar Þórðarson slæmt höfuðhögg á æfingu og lék einnig ekki meira með það sumarið.

Stemningin á Akureyrarvelli var gífurleg á nágrannaslag KA og Þórs og voru tæplega 1.600 áhorfendur mættir í stúkuna. Leikurinn var gríðarlega harður og fast leikinn, þessi barátta skilaði sér upp í stúku og voru mikil læti í stuðningssveitum liðanna frá fyrstu mínútu og til þeirrar síðustu. Þrátt fyrir ágæt tækifæri var ekkert mark skorað í fyrri hálfleik.


Leikur KA og Þórs á Akureyrarvelli var hádramatískur og bauð upp á allt

Ekki þurfti að bíða lengi eftir marki í þeim síðari því Ármann Pétur Ævarsson kom Þór yfir á 47. mínútu. En KA var ekki lengi að svara því Haukur Hinriksson jafnaði þegar hann fylgdi á eftir aukaspyrnu frá Brian Gilmour sem hafði farið í slánna. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði svo stórglæsilegt mark með skoti fyrir utan teig og kom KA yfir í 2-1 á 58. mínútu. Kristinn Þór Björnsson jafnaði hinsvegar metin úr vítaspyrnu á 73. mínútu.

Ekki varð útlitið bjart fyrir KA þegar Guðmundur Óli Steingrímsson fékk beint rautt spjald og enn 10 mínútur eftir af leiknum. En Darren Lough reyndist hetja KA-manna þegar hann skoraði sigurmarkið með skalla rétt fyrir leikslok eftir aukaspyrnu Jóhanns Helgasonar. Aftur vannst því 3-2 sigur á Þór og þessi sigur var heldur betur kærkominn og var fagnað vel og innilega.

Bikarævintýrinu lauk á heimavelli í 16-liða úrslitum gegn úrvalsdeildarliði Grindavíkur. Gestirnir komust í 0-2 snemma leiks en Jóhann Helgason minnkaði muninn fyrir hlé. Brian Gilmour hefði getað jafnað metin á 70. mínútu en vítaspyrna hans small í þverslánni. Gunnar Örvar Stefánsson tókst hinsvegar að jafna og virtist hafa tryggt liðinu framlengingu er hann skoraði á 88. mínútu en Oluwatomiwo Ameobi skoraði sigurmark gestanna í uppbótartíma og þar við sat.

Það tókst hinsvegar ekki að fylgja eftir sigrinum á Þór í deildinni því KA-liðið þurfti að sætta sig við 2-1 tap gegn Þrótti Reykjavík. Davíð Rúnar Bjarnason jafnaði fyrir KA í síðari hálfleik en það dugði ekki og fyrsti sigur Þróttar í deildinni staðreynd. Ævar Ingi Jóhannesson kom KA yfir snemma leiks gegn Haukum á Akureyrarvelli og Gunnar Valur Gunnarsson tvöfaldaði forystuna í þeim síðari en á grátlegan hátt missti liðið sigurinn frá sér og Haukar jöfnuðu í uppbótartíma. Markið var þó umdeilt en aðstoðardómari taldi að boltinn hafði farið innfyrir marklínuna og niðurstaðan því 2-2 jafntefli.

En KA gerði góða ferð til Ólafsvíkur og vann þar topplið heimamanna, 0-1. Þar munaði mest um markvörsluna hjá Sándor Matus sem varði nokkrum sinnum glæsilega og tryggði stigin í uppbótartíma þegar hann varði vítaspyrnu frá Edin Beslija. Hinn ungverjinn í liði KA, Dávid Disztl, skoraði sigurmarkið eftir varnarmistök Víkinga snemma í seinni hálfleik og þriðji sigur sumarsins í höfn.

Því næst kom BÍ/Bolungarvík í heimsókn norður og kom Dávid Disztl KA yfir strax á 8. mínútu. Forystan varði þó ekki lengi því Pétur Georg Markan jafnaði innan við mínútu síðar. Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA aftur yfir þegar kortér lifði leiks en aftur var það Pétur Georg sem svaraði stuttu síðar nú með bylmingsskoti fyrir utan teig og liðin skyldu því jöfn, 2-2. Þegar deildin var hálfnuð var KA með 13 stig fyrir miðri deild, sex stigum frá 2. sætinu og aðeins þremur stigum frá fallsæti.

Liðið sýndi svo allar sínar bestu hliðar þegar ÍR-ingar mættu norður, Davíð Rúnar Bjarnason og Dávid Disztl sáu til þess að KA leiddi 2-1 í hléinu. Í þeim síðari bætti KA við þremur mörkum og vann afar sanngjarnan 5-1 sigur sem hefði getað verið stærri. Hallgrímur Mar Steingrímsson var í stóru hlutverki en hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt, Brian Gilmour átti einnig stóran þátt í tveimur marka liðsins.

En það gekk áfram erfiðlega að fylgja á eftir sigurleik og strákarnir þurftu að sætta sig við 1-2 tap á heimavelli gegn Leikni Reykjavík. Gunnar Örvar Stefánsson lagaði stöðuna undir lokin en það var ekki nóg og varð liðið af mikilvægum stigum. Fannar Freyr Gíslason kom á láni til liðsins út sumarið en hann hafði áður verið á láni hjá Tindastól frá ÍA.

KA stöðvaði svo sigurgöngu Víkings Reykjavík með 0-1 sigri í Víkinni en Jóhann Helgason skoraði sigurmarkið með skalla eftir aukaspyrnu Hallgríms Mar Steingrímssonar. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og átti Helgi Sigurðsson meðal annars skot í stöng en varnarmúr okkar liðs hélt og ansi mikilvæg þrjú stig í hús.

Loks tókst að fylgja á eftir sigurleik með öðrum sigri sem boðaði um leið komu KA inn í toppbaráttuna. Nú vannst 2-1 sigur á Fjölnismönnum á Akureyrarvelli en gestirnir gerðu sjálfsmark snemma áður en Ásgeir Aron Ásgeirsson jafnaði metin á 17. mínútu. Sándor Matus markvörður KA reyndist enn og aftur drjúgur þegar hann varði vítaspyrnu frá Illuga Þór Gunnarssyni. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti eftir góða rispu. Fjölnir sótti stíft en réð ekki við Sándor í markinu.

Markalaust jafntefli á Sauðárkrók reyndist dýrkeypt en Sebastian Furness í marki Tindastóls átti stórleik. KA komst hinsvegar í fjórða sætið með því að vinna Hött örugglega 4-1 á Akureyrarvelli. Brian Gilmour lagði upp tvö fyrstu mörkin fyrir Jóhann Helgason áður en hann skoraði sjálfur og kom KA í 3-0. Elmar Bragi Einarsson minnkaði muninn fyrir gestina áður en Hallgrímur Mar Steingrímsson innsiglaði stórsigur KA.

Það var því enn von um að fara upp þegar fimm umferðir voru eftir af deildinni en til að það gengi þyrfti liðið að vinna nágrannana í Þór sem voru á toppnum. Það gekk því miður ekki fyrir framan um 1.700 manns á Þórsvellinum og þurfti liðið að sætta sig við 1-0 tap. KA-liðið gafst þó ekki upp og vann 1-0 baráttusigur á Þrótti Reykjavík þar sem Brian Gilmour skoraði sigurmarkið með skalla eftir fyrirgjöf Bjarka Baldvinssonar.

Áfram lifði KA í voninni þegar liðið vann 0-2 sigur á Haukum á Ásvöllum í uppgjöri liða sem enn gátu keppt um að komast upp. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði glæsimark með skoti af 20 metra færi og Jóhann Helgason innsiglaði sigurinn með skalla eftir hornspyrnu en bæði mörkin komu í síðari hálfleik. KA var þar með komið í þriðja sæti deildarinnar, var sex stigum á eftir Víking Ólafsvík sem sat í öðru sæti þegar tvær umferðir voru eftir.

Það var því allt undir þegar Ólafsvíkingar sóttu KA heim í 21. umferðinni. Leikurinn var í járnum og reyndi KA liðið allt hvað það gat til að ná inn marki. Leikurinn var markalaus í 75 mínútur, KA vildi fá vítaspyrnu en fékk ekki og í kjölfarið braut Edin Beslija ísinn fyrir gestina. Strákarnir lögðu þá allt í sóknarleikinn og gestirnir gengu á lagið, unnu að lokum 0-4 sigur sem tryggði þeim sæti í efstu deild að ári og draumur okkar liðs því að engu.

Niðurstaðan mikil vonbrigði og það var því að engu að keppa í lokaleiknum gegn BÍ/Bolungarvík fyrir vestan. Leikurinn var ákaflega rólegur og endaði markalaus. KA endaði því sumarið í 4. sæti en slök byrjun á sumrinu reyndist ákaflega dýrkeypt þegar upp var staðið. Liðið var þó ekki með stóran hóp og varð auk þess fyrir nokkrum skakkaföllum yfir sumarið. Það mátti því gleðjast yfir árangri sumarsins þó vissulega hefðu menn viljað meira.

Gunnlaugur Jónsson sem lauk þarna sínu öðru tímabili sem þjálfari liðsins lét af störfum en fjölskylduaðstæður urðu til þess að ómögulegt var fyrir hann að halda áfram á Akureyri. Bjarni Jóhannsson tók við stjórn liðsins í kjölfarið. Hallgrímur Mar Steingrímsson var markahæsti leikmaður liðsins í deildarkeppninni með 7 mörk og Jóhann Helgason gerði 6 mörk. 

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is