Keppnistímabilið 1988

Guðjón Þórðarson ráðinn til KA

Félagið réð til sín nýjan þjálfara, Skagamanninn Guðjón Þórðarson, sem tók við stöðu Skagamannsins Harðar Helgasonar, er kom liðinu í 6. sæti 1. deildar. Sú ráðstöfun, að ráða Guðjón til liðsins, vakti athygli enda þar á ferð afburðasnjall leikmaður og þjálfari með glæstan leikmannsferil að baki. Mun það einkum hafa verið verk formanns deildarinnar, Stefán Gunnlaugssonar, að ráða Guðjón hingað norður. Átti vera Guðjóns eftir að hafa góð áhrif á lið okkar KA-manna. Kvennaknattspyrnan, sem löngum hefur átt undir högg að sækja hér nyrðra, réð Gunnlaug Björnsson sem þjálfara á útmánuðum ársins.

Liðið fór hægt af stað í Tactic-mótinu er Þór vann, aukheldur vann Þór bikartitil KRA þar sem liðið vann KA og Val úr Reykjavík með sömu markatölu, 3-0. Hafði liðið unnið hið árlega Laugamót í innanhússknattspyrnu, sem er að sönnu allt önnur íþrótt en knattspyrna utanhúss. Deildin fór betur af stað, unnust tveir fyrstu leikirnir gegn Víkingi og ÍBK 1-0 og 2-1 en liðið tapaði hinsvegar fyrir Vesturbæjarstórveldinu, KR, 0-2 í jöfnum leik.

Kvennaliðið hóf leik með tapi gegn Val 1-2 þar sem hvorki dómari né línuverðir létu sjá sig og sýnir þá lítilsvirðingu sem stúlkurnar hafa gjarnan mátt þola. Dömurnar gerðu sér hinsvegar lítið fyrir og unnu Fram 4-0 í sömu ferð og gerði Hjördís Úlfarsdóttir 3 mörk í þeim leik.

Að loknum 7 umferðum í 1. Deild var KA með 6 stig, auk nefndra sigra vann liðið Völsung 1-0 með marki Arnars Bjarnasonar. Í áttunda leik mætti liðið erkifjendum sínum úr Þór sem höfðu sigur 2-3 í bráðfjörugum leik, þar sem Friðfinnur Hermannsson og Gauti Laxdal skoruðu mörk KA en í þessum leik þótti Halldór Halldórsson sýna allar sínar bestu hliðar og mátti nafni hans Áskelsson sín lítils. Lauk þá KA fyrri umferð Íslandsmótsins með 6 stig. Í Bikarkeppni KSÍ setti ÍA stopp á alla drauma með 1-0 sigri á Skipaskaga.


Erlingur Kristjánsson í leik með KA

Í upphafi seinni umferðar unnu bæði meistaraflokkalið KA sína leiki, karlar unnu Víking öðru sinni, nú með 2-1 með mörkum Þorvaldar Örlygssonar og Bjarna Jónssonar. Dömurnar unnu hinsvegar Fram 1-0 með marki Ingu Birnu Hákonardóttur. Annars voru það ekki meistaraflokkarnir sem athygli vöktu seinni parts sumars heldur 2. flokks stúlkurnar undir styrkri stjórn Sigurðar Péturs Ólafssonar. Stúlkurnar unnu það afrek að færa KA fyrsta Íslandsmeistaratitil knattspyrnu í sögu félagsins. Vann KA jafnöldrur sínar frá Akranesi 1-0 með marki Eydísar Marinósdóttur á 30. mínútu leiksins. Má með nokkurri sanni segja að þar með hafi stúlkurnar sent piltunum langt nef, því löngum hefur kvennaboltinn átt undir högg að sækja.

Það sem eftir lifir sumars sótti meistaraflokkur karla heldur í sig veðrið og hafnaði lið okkar í 4. sæti 1. deildar, sem mun vera besti árangur félagsins frá upphafi, hafði Guðjón Þórðarson þegar sannað hæfni sína sem þjálfari. Liðið lék meðal annars við tvö bestu lið deildarinnar og máttu verðandi Íslandsmeistarar Fram þakka fyrir sigur í hörkuleik, 2-3 þar sem harka var mikil og hlutverk dómarans venju fremur drjúgt. Rak meðal annars Jón Kristjánsson af velli, auk Guðjóns þjálfara, sem inná var í cirka 9 mínútur! Jafntefli á Skipaskaga 2-2 gerði Evrópudraum að engu en árangurinn engu að síður mjög góður og Þorvaldur Örlygsson orðinn fastur maður í leikmannahópi Íslands. Átti Þorvaldur afburða gott sumar en annars lék liðið sem heild vel. Dömurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu tvo síðustu leiki sína, ÍA 2-1 og ÍBK 6-2 og höfnuðu í 4.-5. sæti ásamt Skagastúlkum.

KA vann Þór í úrhellisrigningu 4-2 í Akureyrarmótinu þar sem Bjarni Jónsson fór fyrir sínum mönnum. Vann liðið aukinheldur Laugamótið, haldið í nóvember, vann Magna í úrslitum.

Hið árlega ESSÓ-mót KA, haldið í annað sinn, þótti takast vel og er í sókn.

Myndbönd frá sumrinu 1988

Keppnistímabilin 1987 << Framhald >> Keppnistímabilið 1989

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is