Keppnistímabilið 1982

George Best leikur með KA

Sumarið 1982 varð mörgum knattspyrnuáhugamönnum á Akureyri einkum minnisstætt fyrir þrennt. Í lok maí nánar tiltekið þann 23. spilaði KA sinn fyrsta 1. deildarleik á eigin velli, liði gerði þá jafntefli við ÍA 0-0 á mölinni, í ágúst mánuði kom stórliðið Manchester United til kaupstaðarins og um haustið féll KA í 2. deild.

Þeir voru á fjórða þúsund áhorfendurnir sem sáu hinn heimsfræga George Best klæðast KA-skyrtunni gegn fyrrum félögum sínum í Manchester United. Auk hans styrktu norðanmenn lið sitt með þeim Arnóri Guðjohnsen og Janusi Guðlaugssyni. Leikurinn var líflegur og eftir því skemmtilegur. Enska liðið vann með sjö mörkum gegn einu marki Eyjólfs Ágústssonar.

Þrátt fyrir tapið voru KA-menn ánægðir með gestina en hitt þótti þeim öllu verra að stöðugt seig á ógæfuhliðina fyrir meistaraflokksliðinu í 1. deild. Það hafði byrjað ágætlega og lengi verið meðal efstu liða en í síðari hluta mótsins vannst varla leikur. Um haustið sat KA á botni 1. deildar eftir að hafa tapað 2-1 í 18. og seinustu umferð mótsins fyrir öðru botnliði, Breiðabliki. Þegar aðeins tvær mínútur voru eftir af þessum örlagaríka leik og staðan 1-1 fengu Breiðabliksmenn mjög umdeilda vítaspyrnu og gerðu út um leikinn. Línuvörðurinn hafði verið búinn að veifa rangstöðu örfáum sekúndum áður en vítið var dæmt. „Þetta voru mín mistök. Ég átti ekki að láta flaggið falla,“ sagði hann eftir leikinn við blaðamann DV en úrslitunum varð ekki breytt. Raunar hefði jafntefli ekki nægt KA til að halda sæti sínu, aðeins sigur hefði riðið baggamuninn.

Hin jafna og harða keppni í 1. deildinni þetta sumar gerði það að verkum að KA varð að sætta sig við fall, þrátt fyrir þau 14 stig sem liðið hafði krækt sér í. Til samanburðar má geta þess að þegar Þórsarar féllu í 2. deild árið á undan, 1981, voru þeir með 12 stig án þess þó að vera neðstir, á botninum sátu þá FH-ingar með 7 stig.

Keppnistímabilið 1981 << Framhald >> Keppnistímabilin 1983-1984

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is