Flýtilyklar
Keppnistímabilið 1993
Leikið í næst efstu deild á ný
Breytingar hafa átt sér stað, KA á ný í næst efstu deild, með nýjan þjálfara, Njál Eiðsson, og nýr formaður tekinn við, Þórarinn Egill Sveinsson.
Óskar Bragason og Þórhallur Hinriksson halda sætum sínum í landsliði U-16 ára og keppa á Evrópumóti í Tyrklandi.
Akureyrarmót er nú tveir leikir, snemm- og síðsumars. KA vinnur fyrri leikinn 1-0, er því yfir í hálfleik. Akureyrarliðin undir merkjum ÍBA í kvennaboltanum og byrja á að tapa gegn Þrótti Nes 3-4 þar sem Arndís Ólafsdóttir skoraði öll mörk okkar liðs.
Í 2. deildinni opnum við með 0-1 tapi gegn UBK og síðan 1-2 tapi gegn Stjörnunni. Konur svara með 1-0 sigri á Val en ÍA reynast þeim ofjarlar og vinna 1-2. Eftir fjórar umferðir í 2. deild er KA neðst með 2 stig og engan sigur. Ingibjörg Ólafsdóttir úr ÍBA er valin í landslið U-16 ára og leikur á Norðurlandamóti. Loks um miðjan júní vinnst sigur í 2. deildinni er nágrannar frá Sauðárkróki vinnast 2-1 en 0-3 tap gegn ÍR er staðreynd viku síðar. Loks sannfærandi leikur gegn UBK með fjórum mörkum skoruðum gegn einungis tveimur þeirra Kópavogsbúa. Í bikarnum gengur vel og liðið kemst í 8-liða úrslit en tapar þar fyrir ÍBV 0-4.
Um mitt sumar snýr Bjarni Jónsson heim frá námi, einnig bætist í hópinn ungur Skagamaður, Stefán Þórðarson. Í framhaldinu vinnur KA Stjörnuna 4-0 í góðum leik, naumt tap gegn ÍA í hörkuleik 0-1 og loks sigur gegn Grindavík 1-0 með marki Bjarna Jónssonar. 2. flokkur kemst í undanúrslit Bikarkeppninnar með 5-1 sigri á FH. KA virtist hitta taktinn við heimkomu fyrirliðans og liðið fer hægt upp töfluna enda vinnast átta leikir í röð, meðal annars Víkingur 1-0, Stjarnan 3-2, BÍ 3-0, Tindastóll 2-0 og ÍR hvorki meira né minna en 7-0 þar sem Ívar Bjarklind skoraði 3 mörk, gerði 2 gegn Stólunum svo hann var í miklum ham pilturinn sá. Í áttunda leik vannst svo sigur gegn Leiftri 3-1 og var liðið þá komið úr næst neðsta sæti í það þriðja.
4. flokkur KA lék til úrslita á Íslandsmótinu gegn Fram en mátti játa sig sigraða 0-2 í góðum og opnum leik. Meistaraflokksliðið gerir jafntefli við Þór 0-0 í seinni Akureyrarmótsleiknum og vinnur titilinn. 2. flokkurinn fylgir þeim sigri eftir í sama móti með 4-1 sigri. Skömmu síðar lék þetta duglega lið 2. flokks til úrslita í Bikarkeppninni gegn Fram, skildu liðin jöfn 4-4 í bráðfjörugum leik en seinni leikinn vann Fram hinsvegar 2-5 og hrósaði sigri.
Hjá ÍBA-stúlkum gekk hvorki né rak og féll liðið í 2. deild með einungis 7 stig í 12 leikjum. Það var svo Þróttur Reykjavík sem batt enda á sigurmars KA í deildinni en síðasta leik KA í deildinni lauk með 1-1 jafntefli í Grindavík og hlaut liðið því 29 stig og hafnaði í 4. sæti. 3. flokkur KA varð Bikarmeistari Norðurlands með 5-1 sigri gegn Þór og 0-1 tapi gegn þeim sömu.