Keppnistímabilið 1989

KA Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Á vordögum vann KA Tactic-mótið þar sem liðið vann Þór meðal annars 4-1. Íslandsmótið byrjaði hinsvegar með steindauðu jafntefli gegn FH 0-0. Dömurnar hjá KA gerðu einnig jafnt í sínum fyrsta leik gegn Stjörnunni úr Garðabæ 2-2.


Fjórir af máttarstólpum KA í knattspyrnu 1989. Frá vinstri: Ormarr Örlygsson, Anthony Karl Gregory, Bjarni Jónsson og Steingrímur Birgisson


KA vann frábæran 3-1 sigur á Fram í fyrsta heimaleik sumarsins

KA-liðið þótti sýna afburða leik í annarri umferðinni er liðið vann Íslandsmeistara Fram örugglega 3-1 með mörkum Þorvaldar Örlygssonar og Bjarna Jónssonar og áttu Þorvaldur og Bjarni enn einn stórleikinn þetta sumarið ásamt Ormari bróður Þorvaldar. Hinsvegar kom bakslag þegar liðið náði einungis jöfnu gegn Þór 0-0, svo enn vinnst ekki leikur gegn Þór á Íslandsmóti.

Tveir ungir leikmenn okkar voru valdir í drengjalandsliðið, þeir Eggert Sigmundsson og Þórður Guðjónsson. Í útlandinu var drengjalandsliðið að gera það gott og engir betur en liðsmenn KA og Þórs því Þórður Guðjónsson og Guðmundur Benediktsson raða inn mörkum á Norðurlandamóti í London!

KA liðið svaraði hinsvegar vel fyrir sig í næsta leik þar sem liðið hreinlega malaði KR-inga á malarvellinum á KA-svæðinu. KR-ingar byrjuðu leikinn þó vel þegar Pétur Pétursson skoraði beint úr aukaspyrnu á upphafsmínútunum. En aðeins mínútu síðar sendi Ormarr Örlygsson fyrir mark KR og Bjarni Jónsson jafnaði, 1-1. KA komst síðan yfir þegar Þorvaldur Örlygsson skoraði af miklu harðfylgi, 2-1.


KA hreinlega malaði lið KR á malarvelli sínum

KA-menn voru betri aðilinn í leiknum og tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum á síðustu 12 mínútunum. Fyrst skoraði Gauti Laxdal með föstu skoti eftir fyrirgjöf frá Antony Karli Gregory og síðan átti Jón Grétar Jónsson lokaorðið eftir undirbúning Stefáns Ólafssonar. Lokatölur því 4-1 sigur KA. Ormarr Örlygsson kom heim frá Vestur-Þýskalandi gagngert til að spila leikinn og hélt svo utan strax að leik loknum þar sem hann stundaði nám.


KA liðið náði sér ekki á strik á Akranesi og þurfti að sætta sig við 2-0 tap

KA mátti þó þola fyrsta tap sumarsins í næstu umferð og átti í raun litla möguleika á Akranesi. Skagamönnum tókst þó ekki að skora fyrr en skömmu fyrir leikslok og var það helst vegna góðrar markvörslu Hauks Bragasonar í marki KA. En varamaðurinn Haraldur Hinriksson náði að skora eftir hornspyrnu og nafni hans Ingólfsson tryggði síðan sigur heimamanna þegar hann sendi boltann í KA markið, beint úr aukaspyrnu af vítateigshorni, 2-0.

Heldur tók að síga á ógæfuhliðina hjá dömunum í 1. deild, meðal annars tap gegn Val, jafntefli við Þór og 2-3 tap gegn Þór einnig í Bikarkeppninni. Í Akureyrarmóti meistaraflokks karla unnu okkar strákar Þór 4-2 með mörkum Jóns Grétars 2, Erlings og Anthony Karls.

Þær gleðifregnir bárust KA-liðinu að Ormarr Örlygsson kom fyrr heim frá Vestur-Þýskalandi og gat því leikið alfarið með KA liðinu það sem eftir lifði sumars. KA tók næst á móti Víkingum sem tóku forystuna strax í byrjun. Haukur í marki KA varði vel frá Atla Einarssyni en Goran Micic fylgdi á eftir og kom gestunum í 0-1. Anthony Karl Gregory jafnaði metin í síðari hálfleik með skalla eftir fyrirgjöf Ormarrs. Víkingar svöruðu hinsvegar strax í kjölfarið áður en Anthony Karl gerði sitt annað skallamark.


Ekki tókst KA liðinu að sýna sitt rétta andlit á Fylkisvellinum

Gauti Laxdal kom KA yfir í 3-2 þegar hann fylgdi á eftir stangarskoti frá Anthony Karl en það dugði ekki því Víkingum tókst að jafna í 3-3 sem urðu lokatölur. Gestirnir stálheppnir en þeir nýttu nær öll sín færi í leiknum. Í næsta leik þurfti KA liðið að sætta sig við 1-0 tap á Fylkisvelli og var liðið því komið 7 stigum á eftir Valsmönnum á toppi deildarinnar.

Hafi gengið illa hjá piltunum þá var róðurinn enn þyngri hjá dömunum því þær töpuðu illa tveim leikjum í röð 1-4 fyrir KR og 0-3 fyrir Val. En upp styttir um síðir og 7-1 sigur á Stjörnunni rétti markatöluna fullkomlega við en viðureignin var engu að síður í bikarnum, 16-liða úrslit.

Annars rigndi mörkunum niður á miðju sumri, 2. flokkur karla vann Tindastól 18-0!, 3. flokkur vann Val 6-1 en 2. flokkur lá svo í Reykjavík gegn Fram 9-0.

Í yngri flokkastarfinu næst meðal annars góður árangur í 6. flokki þegar liðið fer mikinn á Tommamótinu í Eyjum auk þess sem liðið hafnar í þriðja sæti í flokki A-liða á Pollamóti KSÍ og Eimskipa. Þar fær markvörður KA, Þórir Sigmundsson, verðlaun sem besti markvörður mótsins en Þórir er jú litli bróðir Eggerts, sem kominn er í drengjalandsliðið í markinu! Aðalmarkaskorarar eru Jóhann Traustason og Arnar Gauti Finnsson, þjálfari Jóhannes Bjarnason.


KA vann gríðarlega mikilvægan sigur á Hlíðarenda

Það var því ansi mikið undir hjá liðinu þegar KA sótti Val heim í næstu umferð. Loksins kom að því að KA skoraði mark á útivelli og það dugði liðinu til 0-1 sigurs í leiknum mikilvæga. Rigning og rok settu sterkan svip á leikinn en KA-menn voru baráttuglaðari og það færði þeim stigin dýrmætu. Sigurmarkið kom þegar Gauti Laxdal tók aukaspyrnu og sendi knöttinn inn í vítateig Vals þar sem Anthony Karl náði honum og skoraði með góðu skoti hjá sínum gömlu félögum.

Bræðurnir Þorvaldur og Ormarr Örlygssynir sáu svo um að tryggja KA öll stigin gegn Keflvíkingum á Akureyrarvelli. Þorvaldur skoraði úr vítaspyrnu sem Jón Grétar Jónsson krækti í, og síðan sendi hann boltann á Ormarr bróður sinn sem skoraði með fallegu skoti. Kjartan Einarsson náði að minnka muninn í 2-1 með góðu skoti frá vítateig en sigur KA var ekki í mikilli hættu og lyfti liðið sér aftur upp í toppbaráttuna.

KA fór hinsvegar illa með fjölmörg marktækifæri í næsta leik er FH-ingar mættu norður. FH náði forystunni, þvert á gang leiksins, þegar Pálmi Jónsson nýtti sér varnarmistök heimamanna eftir um hálftímaleik. Tíu mínútum síðar jafnaði KA er Jón Grétar Jónsson skaut í þverslá og Anthony Karl Gregory fylgdi á eftir, kastaði sér fram og skallaði boltann í markið. Fleiri urðu mörkin ekki og svekkjandi jafntefli fyrir KA-liðið.

Aftur vann KA þó góðan útisigur á toppliði deildarinnar eftir líflegan leik gegn Fram á Laugardalsvelli. Framarar sóttu meira en KA-menn vörðust vel og beittu skæðum skyndisóknum og var sigur KA-liðsins fyllilega sanngjarn þegar upp var staðið. Það var einmitt úr skyndisókn sem eina mark fyrri hálfleiks kom en Bjarni Jónsson sendi boltann innfyrir Framvörnina og Þorvaldur Örlygsson skoraði, 0-1.


KA vann sanngjarnan og góðan 1-3 sigur á Laugardalsvelli

Framarar voru nokkrum sinnum nálægt því að jafna, en KA gerði hinsvegar útum leikinn með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla snemma í síðari hálfleik. Fyrst skoraði Bjarni Jónsson eftir hornspyrnu frá Gauta Laxdal og síðan krækti Ormarr Örlygsson í vítaspyrnu sem Þorvaldur bróðir hans skoraði úr. Ragnar Margeirsson lagaði stöðuna fyrir Fram en nær komust þeir ekki og lauk leiknum með 1-3 sigri KA.

KA missti af gullnu tækifæri til að taka forystuna í deildinni er liðið missti sigurinn frá sér gegn nágrönnum sínum í Þór. Sigur KA blasti við, Jón Kristjánsson skoraði með skalla í upphafi síðari hálfleiks eftir fyrirgjöf Ormarrs Örlygssonar og þannig stóðu leikar uns ein mínúta var til leiksloka. Þá fengu Þórsarar vítaspyrnu sem Júlíus Tryggvason skoraði úr og lokatölur því 1-1.


KA tókst ekki að nýta vítaspyrnu í markalausu jafntefli á KR-vellinum

KR og KA léku næst við erfiðar aðstæður í Vesturbænum í roki og á þungum velli. Liðin fengu talsvert af marktækifærum, KA það besta þegar dæmd var vítaspyrna eftir að Þorfinnur Hjaltason, markvörður KR, felldi Bjarna Jónsson tveimur mínútum fyrir leikhlé. Þorvaldur Örlygsson tók spyrnuna og skoraði, en þurfti að taka hana aftur og þá varði Þorfinnur frá honum.

KA-menn skipuðu sér aftur í hóp toppliðanna með því að leggja Skagamenn á Akureyrarvellinum. Sigurmarkið lét ekki bíða eftir sér, Anthony Karl Gregory skoraði það á upphafsmínútum leiksins eftir fallega sendingu frá Gauta Laxdal innfyrir vörn ÍA. KA var betri aðilinn allan tímann og var nær því að bæta við mörkum en Skagamenn að jafna.

Hinn 30. ágúst gerist það í fyrsta sinn í sögu KA að liðið nær fyrsta sæti í 1. deild er liðið gjörsigrar Víking 5-1 í Reykjavík. Úrslitin réðust á níu mínútna kafla í fyrri hálfleik, fyrst skoraði Erlingur Kristjánsson eftir slæm mistök Guðmundar Hreiðarssonar markvarðar Víkings og síðan þeir Þorvaldur Örlygsson og Bjarni Jónsson með glæsilegum skotum. Seint í leiknum minnkaði Björn Bjartmarz muninn í 1-3 en Árni Hermannsson og Jón Grétar Jónsson sáu til þess að KA vann stærsta sigurinn í deildinni þetta sumarið.

Staðan að loknum 15. umferðum var þannig: KA á toppnum með 27 stig, KR 26, FH 26, Fram 26, ÍA 23, Valur 21, Víkingur 17, Þór 15, Fylkir 13 og loks ÍBK 11 stig.

Í kjölfarið fylgdi baráttusigur gegn Fylki 2-1 þar sem Anthony skoraði bæði mörk KA. Raddir um að Þorvaldur hverfi til Englands, nánar tiltekið Nottingham Forest, gerast æ háværari en Þorvaldur hefur verið yfirburðamaður Íslandsmótsins. Með þessum góða sigri heldur KA forystu í 1. deild með 30 stig, þétt á hæla KA koma FH og Fram með 29 stig hvort lið.


KA tókst ekki að halda toppsæti deildarinnar eftir 1-1 jafntefli gegn Val á Akureyrarvelli í næstsíðasta leik sumarsins

Um 2.000 manns mættu á völlinn til þess að sjá viðureign KA og Vals, næst síðasta leik KA í 1. deildinni en það er jú ekki á hverjum degi sem tæplega 2.000 manns mæta á Akureyrarvöll. Leikurinn olli vonbrigðum, okkar menn voru með taugarnar þandar og var lag Bjarna Hafþórs Helgasonar, sungið af KA-manninum Karli Örvarssyni, ekki til að minnka taugaveiklun drengjanna. Valur komst yfir með snilldarmarki „Þórsarans“ Halldórs Áskelssonar á 30. mínútu við gífurlega vonbrigði heimamanna. Menn kættust þeim mun betur er hetja KA-manna, Þorvaldur Örlygsson, jafnaði á 43. mínútu. En þar við sat og KA stigi á eftir FH með 31 stig fyrir síðustu umferðina og skyldi nú leikið í Keflavík.

Það ríkti mikil spenna fyrir síðustu umferðina, FH stóð langbest að vígi með 32 stig og heimaleik gegn Fylki, KA átti erfitt verkefni fyrir höndum, útileik gegn ÍBK. Með marki Arnars Viðars þegar á 10. mínútu setti KA gríðarlega pressu á lið FH, sem lék einn sinn slakasta leik á sumrinu gegn Fylki. En úrslit lágu þó engan veginn fyrir því lið ÍBK beit duglega frá sér og átti KA mjög í vök að verjast lang tímum saman. Mark Jóns Kristjánssonar seint í leiknum slökktu þó alla neista Keflavíkurliðsins sem játaði sig sigraða 0-2 á eigin heimavelli. FH steig á sama tíma hrunadans og mátti sín ekki gegn fersku liði Fylkis og tapaði heima 1-3! Þar með lá ljóst fyrir að lið KA frá Akureyri var Íslandsmeistari í fyrsta sinnið í knattspyrnu karla!

Sú stund sem beið piltanna er til Akureyrar kom verður seint lýst með orðum, áætlað er að um 1.000 manns hafi tekið á móti hetjunum á Akureyrarflugvelli, voru þar flutt ávörp leikinna og lærðra, embættismanna sem óbreyttra og mátti sjá tár á hvörmum í liði beggja aðila, leikmanna sem aðdáenda. Sú stund sem fólk átti með drengjunum sínum var svo ósvikin og yndisleg að seint líður úr minni og tók margan manninn langa stund að átta sig á þeim raunveruleika er við blasti, Íslandsmeistaratitill á Akureyri! Síðar um kvöldið bauð aðalstjórn með formanninn, Sigmund Þórisson, í fararbroddi til gleði í KA-heimilinu og skemmti fólk sér þar til morguns, heimilið sóttu fleiri hundruð þá nóttina.

Íslandsmeistaralið KA 1989
Íslandsmeistarar KA 1989. Fremri röð frá vinstri: Árni Þór Freysteinsson, Gauti Laxdal, Jónas Þór Guðmundson, Erlingur Kristjánsson, Haukur Bragason, Ægir Dagsson, Stefán S. Ólafsson og Þorvaldur Örlygsson. Aftari röð frá vinstri: Guðjón Þórðarson þjálfari, Árni Hermannsson, Halldór Halldórsson, Bjarni Jónsson, Steingrímur Birgisson, Halldór Kristinsson, Jón Kristjánsson, Örn Viðar Arnarson, Anthony Karl Gregory, Jón Grétar Jónsson, Ómar Torfason sjúkraþjálfari og Stefán Gunnlaugsson formaður knattspyrnudeildar. Á myndina vantar þá Ormarr Örlygsson, Arnar Frey Jónsson og Arnar Bjarnason.

Jón Kristjánsson vann það afrek að fagna Íslandsmeistaratitli í hvoru tveggja knattspyrnu sem handknattleik (Íslandsmeistari með Val í handknattleik) og má til gamans geta, að þetta afrek vann svo stóri bróðir Jóns, Erlingur okkar Kristjánsson, 8 árum síðar er KA varð Íslandsmeistari í handknattleik í fyrsta sinni!


Stærsta stundin. Erlingur fyrirliði meistaraflokks KA hampar Íslandsmeistarabikarnum 1989 á Akureyrarflugvelli

Á lokahófi KSÍ um haustið var Þorvaldur Örlygsson kosinn „besti leikmaður“ Íslandsmótsins, kom það val fæstum á óvart enda sumarið hans – og hans biðu spennandi verkefni í Englandi. Stigahæstur var hann einnig í einkunnargjöf Morgunblaðsins pilturinn sá. Efnilegust kvenna á lokahófi KSÍ var kosin Arndís Ólafsdóttir úr KA en skömmu síðar fundaði stjórn knattspyrnudeildar og íhugaði að leggja niður kvennaknattspyrnu innan vébanda félagsins.


Hér má sjá myndband frá lokahófi KSÍ þar sem Þorvaldur og Arndís taka við viðurkenningum sínum og eru bæði tekin í viðtal.


Þrír góðir saman á sigurstundu haustið 1989. Íslandsmeistaratitillinn í meistaraflokki í knattspyrnu í höfn. Mikil gleði á uppskeruhátíð. Frá vinstri: Stefán Gunnlaugsson, Ragnar "Gógó" Sigtryggsson fyrsti landsliðsmaður KA í knattspyrnu og Guðjón Þórðarson þjálfari meistaraflokks.

Deildarstaða og tölfræði 1989
Myndbönd frá sumrinu 1989

Keppnistímabilið 1988 << Framhald >> Keppnistímabilið 1990

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is