Frábær sigur KA á Seltjarnarnesi

Fótbolti
Frábær sigur KA á Seltjarnarnesi
Grímsi gerði þrennu í dag! (mynd: Sævar Geir)

KA fór langleiðina með að tryggja sér áframhaldandi veru í efstu deild með 2-4 útisigri á Gróttu á Seltjarnarnesi í dag. Með sigrinum lyfti liðið sér upp í 8. sætið og á leik til góða á ÍA sem er í 7. sætinu.

Heimamenn í Gróttu vissu það að þeir þurftu nauðsynlega á sigri að halda í dag til að halda lífi í vonum sínum um að bjarga sér frá falli en það var hinsvegar ekki að sjá það á upphafi leiksins. KA byrjaði betur og stýrði leiknum. Hallgrímur Mar og Bjarni Aðalsteins fengu báðir fín færi snemma leiks en inn vildi boltinn ekki.

Markið lá í loftinu og það kom á 26. mínútu þegar Hallgrímur Mar negldi boltanum upp í skeytin nær eftir að boltinn barst til hans utarlega í teignum eftir sendingu frá Andra Fannari Stefánssyni. Skömmu síðar fékk svo Steinþór Freyr Þorsteinsson fínt færi en renndi boltanum rétt framhjá og þá átti Brynjar Ingi Bjarnason skalla í kjölfarið sem Hákon Rafn í marki heimamanna varði gríðarlega vel.

Hallgrímur Mar tvöfaldaði svo loks forystuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hann renndi boltanum í netið eftir laglega sendingu frá Bjarna Aðalsteinssyni og 2-0 forysta KA liðsins í hléinu var heldur betur verðskulduð.

Strákarnir fóru svo varfærnislega inn í síðari hálfleikinn og ætluðu greinilega ekki að gefa heimamönnum neinn möguleika á að koma sér inn í leikinn. Það breyttist hinsvegar allt á 68. mínútu þegar Grótta fékk ansi ódýra vítaspyrnu sem má hreinlega segja að hafi verið rangur dómur eftir endursýningar. Úr vítinu skoraði Karl Friðleifur Gunnarsson og leikurinn skyndilega opinn á ný.

KA liðið brást hinsvegar vel við markinu, gaf aftur í og Steinþór Freyr lokaði á vonir Gróttumanna þegar hann hamraði boltann í þaknetið eftir geggjaða sendingu frá Bjarna Aðalsteins inn fyrir og staðan orðin 1-3 og kortér til leiksloka.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson var skömmu síðar ansi líklegur til að bæta við fjórða markinu er hann slapp einn í gegn en hann reyndi að vippa boltanum framhjá Hákoni í markinu og boltinn skoppaði framhjá markinu. Steini sótti hinsvegar vítaspyrnu undir lok venjulegs leiktíma og úr henni fullkomnaði Hallgrímur Mar þrennu sína og gulltryggði þar með öruggan sigur.

Kieran Mcgrath náði að laga stöðuna með marki uppúr hornspyrnu í uppbótartíma en það var alltof seint og 2-4 sigur KA staðreynd. Gríðarlega sannfærandi sigur og frammistaða liðsins til fyrirmyndar. Sex leikir eftir af "sumrinu" og nú stefnum við hærra!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is