Mikilvæg 3 stig hjá Þór/KA

Fótbolti
Mikilvæg 3 stig hjá Þór/KA
Sandra María kom okkur á bragðið (mynd: Þ.Tr)

Íslandsmeistarar Þórs/KA tóku í dag á móti Selfyssingum í 15. umferð Pepsi deildar kvenna. Um var að ræða gríðarlega mikilvægan leik fyrir liðið enda í harðri toppbaráttu með Breiðablik. Liðin gerðu markalaust jafntefli fyrr í sumar en það var strax ljóst að stelpurnar ætluðu ekki að láta það endurtaka sig.

Þór/KA 2 - 0 Selfoss
1-0 Sandra María Jessen ('4)
2-0 Karen María Sigurgeirsdóttir ('90)

Strax á fyrstu mínútu leiksins gerði Sandra Mayor sig líklega en gestirnir komu boltanum frá á elleftu stundu. Stuttu síðar kom hinsvegar opnunarmarkið en það gerði fyrirliðinn sjálfur Sandra María Jessen eftir góðan undirbúning hjá Önnu Rakel Pétursdóttur. Rakel kom með góða sendingu og Sandra María gerði vel í að koma sér að markinu og lagði boltann listilega í fjærhornið.

Staðan því orðin 1-0 og bæði áhorfendum sem og liðinu létt enda markið strax komið sem aldrei náðist í fyrri leiknum. Selfoss þurfti því að bregðast við og koma ofar á völlinn og var því líklegt að mörkin myndu verða fleiri.

Er 10 mínútur lifðu af fyrri hálfleik kom besta færið eftir markið en Anna Rakel kom með góða fyrirgjöf sem sveif framhjá nokkrum svörtum treyjum áður en Ariana Calderon setti boltann í stöngina og út. Skömmu síðar voru gestirnir líklegar að jafna metin en Halla Helgadóttir skaut þá í þverslá og sem betur fer því Stephanie Bukovec í marki Þórs/KA virtist ekki reikna skotið rétt.

Þór/KA leiddi því 1-0 er liðin gengu inn í hálfleik og leikurinn hvergi nærri búinn. Selfoss liðið er skeinuhætt og ljóst að okkar lið þurfti eitt mark í viðbót til að geta andað rólegar. Stelpurnar voru meira með boltann og reyndu hvað þær gátu til að bæta við en á sama tíma áttu gestirnir einnig ágætis tilraunir.

Það var því mikil spenna í leiknum allt þangað til að uppbótartíminn hófst en þá loksins kom markið þegar Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði eftir að skot frá Maríu Catharinu Ólafsdóttur hafði verið varið. Báðar höfðu þær komið inná sem varamenn og mjög jákvætt að geta treyst á breiddina í hópnum.

Stelpurnar lönduðu því góðum 2-0 sigri eftir strembinn leik og sigla mjög svo góðum þremur stigum í hús. Liðið lyftir sér þar með á toppinn en reikna má með því að Breiðablik endurheimti toppsætið á morgun þegar þær mæta FH.

Næsti leikur er svo toppslagurinn sjálfur þegar stelpurnar sækja Breiðablik heim. Sigurinn í dag tryggir það að með sigri gegn Blikum fari liðið á toppinn og það er nákvæmlega það sem stefnt var að.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is