Þór/KA byrjar sumarið á stórsigri

Fótbolti
Þór/KA byrjar sumarið á stórsigri
Sandra María gerði þrennu í dag (mynd: Sævar Geir)

Titilvörn Íslandsmeistaranna í Þór/KA hófst í dag og það með glæsibrag þegar stelpurnar sóttu Grindavík heim. Á síðustu leiktíð tapaðist leikurinn í Grindavík en það var alveg ljóst frá fyrstu mínútu að það myndi ekki endurtaka sig hér í dag.

Grindavík 0 - 5 Þór/KA
0-1 Sandra María Jessen ('7)
0-2 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('55)
0-3 Sandra Mayor ('59)
0-4 Sandra María Jessen ('80)
0-5 Sandra María Jessen ('90)

Strax á 7. mínútu kom fyrsta markið og var það að sjálfsögðu fyrirliðinn sjálfur, Sandra María Jessen sem gerði það. Borgarstjórinn hún Sandra Mayor kom með góða fyrirgjöf af kantinum og Sandra María rak boltann í netið með laglegri kollspyrnu.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik þrátt fyrir ágætis tilburði. Þór/KA hafði mikla yfirburði en það er alltaf hætta þegar forskotið er aðeins eitt mark og því alveg ljóst að skipunin frá Donna í hálfleiknum var að reyna að gera útúm leikinn.

Sama var uppi á tengingnum í síðari hálfleik og annað mark leiksins kom strax á 55. mínútu þegar Arna Sif Ásgrímsdóttir gerði glæsilega í að skalla hornspyrnu í netið og staðan orðin ansi vænleg fyrir Íslandsmeistarana.

Skömmu síðar voru Söndrurnar aftur á ferðinni en nú var það Sandra María sem lagði upp fyrir Borgarstjórann, Sandra María kom með frábæra sendingu inn fyrir vörnina og Sandra Mayor klúðrar sko ekki ein á móti markmanni. Staðan orðin 0-3 og eina spurningin á vörum fólks hverjar lokatölur yrðu, sigurinn var kominn í hús.

Er 10 mínútur lifðu leiks bætti Sandra María svo við sínu öðru marki þegar hún refsaði heimastúlkum fyrir glæfraleg mistök. Frábærlega gert hjá Söndru sem var búin að ógna Grindavíkurvörninni mikið í leiknum.

Það kom því ekki á óvart að hún skyldi svo fullkomna þrennuna skömmu síðar þegar hún slapp ein í gegn, gaf sér góðan tíma í að klára og renndi boltanum svo í netið og lokatölur 0-5 útisigur hjá stelpunum í Þór/KA.

Algjörlega frábær byrjun á sumrinu, það er ljóst að pressan sem var á liðinu er ekki að vefjast fyrir stelpunum og verður virkilega gaman að fylgjast með þeim í sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is