Tilnefningar til liðs ársins hjá KA 2022

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Sex lið hjá KA eru tilnefnd til liðs ársins hjá félaginu árið 2022 en þetta verður í þriðja skiptið sem verðlaun fyrir lið ársins verða veitt. Verðlaunin verða tilkynnt á 95 ára afmæli félagsins í byrjun nýs árs og spennandi að sjá hvaða lið hreppir þetta mikla sæmdarheiti.

Meistaraflokkur kvenna í blaki átti hreint út sagt stórkostlegt tímabil þegar stelpurnar tryggðu sér Íslands-, Bikar- og Deildarmeistaratitilinn á tímabilinu 2021-2022. Liðið tók vart feilspor allt tímabilið og sigraði alla leiki tímabilsins nema einn og í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn tapaði liðið ekki hrinu og vann alla þrjá leikina 3-0.

Liðið náði ótrúlegri sigurgöngu þegar stelpurnar unnu 20 leiki í röð sem samsvarar 60 unnum hrinum og einungis 7 töpuðum. Í lok síðasta tímabilsins átti liðið þrjá fulltrúa í liði úrvalsdeildar BLÍ, þær Jónu Margréti Arnarsdóttur og Valdísi Kapitolu Þorvarðardóttur ásamt því að Miguel Mateo Castrillo var valin þjálfari ársins. Að tímabilinu loknu stóð Tea Andric uppi sem stighæsti leikmaður allra leikmanna í úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir töluverðar leikmanna breytingar á liðinu í haust hefur liðið haldið áfram á sömu braut og í upphafi vetrar hampaði liðið titlinum Meistarar meistaranna. Það sem af er þessu tímabili er liðið einnig í efsta sæti úrvalsdeildarinnar. Stelpurnar hafa sýnt einstaka elju og metnað við að ná sínum markmiðum. Hópurinn er vel samstilltur en skemmtileg blanda af ungum og efnilegum leikmönnum í bland við sterka og reynslumeiri skapar frábæra liðsheild. Stelpurnar ýta hvor annarri á hærra plan sem hefur vægast sagt skilað sér í árangursríku ári.

KA/Þór hélt áfram að brjóta blað í sögu kvennahandboltans fyrir norðan er liðið hóf síðasta vetur á að tryggja sér bikarmeistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins. Eftir hörkubaráttu í deild þeirra bestu endaði liðið í þriðja sæti, aðeins tveimur stigum frá Fram í efsta sætinu.

Stelpurnar tóku einnig þátt í Evrópukeppni í fyrsta skipti í sögunni og vakti mikla athygli fyrir vasklega framgöngu sína þar sem þær féllu út í 16 liða úrslitum keppninnar gegn spænsku bikarmeisturunum eftir hörku rimmu. Eftir miklar mannabreytingar fyrir núverandi tímabil hafa stelpurnar engu að síður haldið áfram að standa fyrir sínu og kepptu meðal annars aftur í Evrópukeppni þegar Norður-Makedónsku meistararnir mættu norður í KA-Heimilið.

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu náði næstbesta árangri í sögu félagsins er liðið endaði í 2. sæti Bestu deildarinnar og fór í undanúrslit í Mjólkurbikarsins. Liðið náði 53 stigum í 27 leikjum eða 1,96 stigum að meðaltali sem er besti árangur liðsins frá upphafi og tryggði sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Í gegnum tíðina þá hafa stigin oft verið alltof fá á útivelli en í ár var KA með bestan árangur allra liða á útivelli, þrátt fyrir það að strákarnir hafi ferðast liða mest í deild þeirra bestu. Strákarnir voru einnig gríðarlega öflugir á heimavelli en loksins fengum við að berja liðið okkar augum á KA-svæðinu. KA-liðið er í 2.-3. sæti í annarri tölfræði eins og stig á heimavelli, mörk skoruð og mörk fenginn á sig.

Tímabilið var því virkilega heilsteipt og árangurinn er engin tilviljun. Stjórn og sjálfboðaliðar eiga mikið í þessum árangri en einn af lykilþáttum árangursins var að spila á KA-svæðinu á nýjum gervigrasvelli. Þjálfarateymið og leikmenn voru agaðir og einbeittir að ná árangri frá fyrsta leik. Árangurinn í sumar var án nokkurs efa uppskera mikillar vinnu síðustu ára hjá hópnum og verður gaman að fylgjast áfram með framgöngu okkar magnaða hóps.

Stelpurnar í 3. flokki Þórs/KA áttu stórbrotið sumar þegar þær urðu Íslandsmeistarar A-liða, Bikarmeistarar sem og Barcelona Girls Cup meistarar bæði í árgangi 2006 og 2007 auk þess að verða Stefnumótsmeistarar.

Þór/KA 1 var lang öflugasta A-lið landsins en þær unnu 18 leiki í deild, gerðu eitt jafntefli og töpuðu aðeins einum leik. Þór/KA 2 tók einnig þátt í A-keppni Íslandsmótsins þar sem þær komust upp um tvær deildir þar sem þær unnu sem dæmi B-riðilinn í loka umferðinni. Þór/KA 3 fengu silfurverðlaun á Íslandsmóti B-liða eftir að hafa tapað í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Árangurinn var því heldur betur framúrskarandi hjá þessum öflugu stelpum sem spiluðu undir handleiðslu öflugs þjálfarateymis og eru þó nokkrar í hópnum nú þegar farnar að banka allhressilega á dyr meistaraflokks.

Strákarnir í 4. flokki KA í handbolta komu sáu og sigruðu er þeir unnu alla titla sem í boði voru fyrir þá veturinn 2021-2022. Þeir urðu Íslands-, Bikar og Deildarmeistarar án þess að tapa leik og hafa raunar ekki tapað leik í rúmlega tvö ár, geri aðrir betur.

Í liðinu býr mikill karakter og þó að á móti blási ná þeir ávallt að snúa dæminu sér ívil og knýja fram sigur. Þá kórónuðu þeir tímabilið ótrúlega þegar þeir urðu Partille meistarar í B16 ára flokki en Partille Cup er eitt allra stærsta handboltamót í heimi fyrir yngri flokka þar sem sterkustu lið Norðurlanda koma saman og er sigurinn á mótinu mikill gæðastimpill fyrir okkar frábæra yngriflokka starfi.

Árangur sem þessi næst ekki vegna starfs eins veturs. Það er alveg ljóst að utanumhald þjálfara hefur haft mikið að segja. En einnig er þessi hópur ótrúlega samheldin og mikil liðsheild hefur skilað þessum drengjum á þann stað sem þeir eru í dag. Ljóst er að framtíðin er björt og eigum við eftir að sjá meira af þessum drengjum vonandi með meistaraflokknum okkar í framtíðinni. Í hópnum eru framtíðar landsliðsmenn jafnt sem framtíðar félagsmenn í KA.

Stelpurnar í 5. flokki KA urðu TM-mótsmeistarar í Vestmannaeyjum eftir frábært mót en mótið er það stærsta og sterkasta í flokknum. KA fór alls með fjögur lið til Eyja og öll gerðu þau mjög vel.

KA 1 endaði í 2. sæti A-deildar á Íslandsmótinu í sumar en þurfti að sætta sig við tap í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. KA 2 og KA 4 voru einnig mjög ofarlega í sínum riðlum og vantaði mjög lítið hjá þeim að þau færu í undanúrslitaeinvígin um Íslandsmeistaratitilinn.

Hópurinn er einstaklega skemmtilegur og stútfullur af efnilegum stelpum sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is