Myndaveisla frá sigri KA á Þór í 3. flokki

Handbolti
Myndaveisla frá sigri KA á Þór í 3. flokki
Strákarnir ansi sáttir að leik loknum!

Það var alvöru bæjarslagur í KA-Heimilinu þegar KA tók á móti Þór í bikarkeppni 3. flokks karla í handbolta. Eins og svo oft áður þegar þessi lið mætast myndaðist skemmtileg stemning í húsinu og var þó nokkur fjöldi í stúkunni.

Smá titringur var í liðunum í upphafi og leiddu Þórsarar 2-3 á fyrstu mínútum leiksins. Þá hinsvegar small KA liðið í gang og strákarnir gjörsamlega kaffærðu Þórsarana. Gestirnir skoruðu ekki mark í tæplega tólf mínútur og á sama tíma skoraði KA liðið sex mörk og staðan því skyndilega orðin 8-3.

Í kjölfarið jókst forskotið jafnt og þétt og hálfleikstölur voru 17-8. Lykillinn bakvið forystuna var frábær markvarsla Bruno Bernat í markinu og öflugur sóknarleikur. Varnarlega séð sýndu strákarnir flotta kafla en náðu ekki sama stöðugleika og í sókninni, það var því ansi mikilvægt að hafa Bruno í markinu í þeim ham sem hann var í.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Strákarnir náðu mest ellefu marka forskoti í síðari hálfleik og var allt útlit fyrir ansi öruggan sigur KA liðsins. Þegar kortér lifði leiks var staðan 25-15 fyrir KA en þá hrökk allt í baklás. Þórsarar fóru að taka tvo leikmenn úr umferð og í kjölfarið datt allur taktur úr leik okkar liðs.

Þórsarar skoruðu fimm mörk í röð og skyndilega var komin nokkur spenna í leikinn enda enn nóg eftir af leiknum. En strákarnir héldu haus og juku forskotið aftur í sjö mörk og kláruðu leikinn. Þórsarar náðu hinsvegar að laga stöðuna í 31-27 sem urðu lokatölur og afar sannfærandi sigur KA liðsins staðreynd.

Strákarnir eru því komnir áfram í næstu umferð í bikarnum og skilja nágranna sína í Þór eftir. Í heildina mjög jákvæð frammistaða en það er þó klárt að liðið þarf að fara yfir frammistöðuna í síðari hálfleik og læra af því að gefa ekki jafn mikið eftir.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is