Fréttir

Annað strandblaksmót BLÍ hefst á Akureyri í dag

Annað stigamót BLÍ verður haldið á strandblakvellinum við KA heimilið á Akureyri í dag. Mótið er í höndum KA manna. Keppt er í tveggja manna liðum með hefðbundnum strandblakreglum. Alls hafa 9 lið skráð sig til þátttöku. Við hetjum fólk til að líta við á KA vellinum í dag og fylgjast með spennandi keppni.

Breyttir æfingatímar í strandblakinu

Frá og með fimmtudeginum 3. júlí verða æfingar yngriflokka í strandblaki kl 19:00-20:30 á mánudögum og fimmtudögum bæði fyrir stráka og stelpur. Vinsamlegast klæðið ykkur í samræmi við veður.

Strandblaksæfingarnar að hefjast

Þá eru strandblaksæfingarnar að hefjast hjá Blakdeild KA. Fyrsta æfingin verður núna á föstudaginn 20. júní á strandblaksvellinum við KA heimilið. Það eiga allir að mæta á sama tíma (strákar og stelpur) á fyrstu æfinguna kl. 17:30-19:00.

Þrír KA menn í A-landsliðinu í blaki

Þrír leikmenn voru valdi á dögunum í A-landslið karla í blaki. Þetta eru þeir Hafsteinn og Kristján Valdimarsynir sem eru eru nýliðar í landsliðinu og Hilmar Sigurjónsson. Landsliðið tók þátt í forkeppni Evrópumóts smáþjóða sem fram fór nú um helgina á Möltu. Skemmst er frá því að segja að liðið náði mjög góðum árangri á mótinu og lent í 2. sæti í riðlinum og heldur til Luxemborgar á næsta ári í úrslitariðilinn. Nánari fréttir af leikjum liðsins má sjá á http://www.bli.is/  

Lokahóf yngriflokka 2008

Lokahóf yngriflokka Blakdeildar KA var haldið nú á dögunum. Verðlaun voru veitt fyrir bestu framfarir og síðan voru veitt s.k. háttvísis verðlaun fyrir góða hegðun, ástundun og dugnað á æfingum.

Lokahóf yngriflokkanna þriðjudaginn 20. maí

Kæru blakarar og foreldrar/forráðamenn Nú er frábærum blakvetri að ljúka og verður lokahóf 3. – 6. flokks haldið þriðjudaginn 20. maí kl. 17:00. Við ætlum að hittast við KA-heimilið kl. 17:00, sameinast þar í bíla og halda út í Kjarnaskóg ef veður leyfir. Þar munum við spila blak og skemmta okkur saman. Fari svo að veðrið verði okkur ekki hliðhollt munum við vera í KA-heimilinu í staðinn.

Ný stjórn Blakdeildar KA

Aðalfundur Blakdeildar KA var haldin 7. maí síðastliðinn. Nýr formaður var kosinn á fundinum Sigurður Arnar Ólafsson en Hjörtur Halldórsson sem áður var formaður deildarinnar lét af embætti. Hjörtur mun þó  áfram sitja í stjórn deildarinnar. Sigurður Arnar hefur lengi setið í stjórn Blakdeildar KA og er þar flestum hnútum kunnugur. Hann hefur m.a. stýrt yngriflokkamálum deildarinnar í áraraðir.

Aðalfundur Blakdeildar KA

Aðalfundur Blakdeildar KA verður haldinn miðvikudaginn 7. maí kl. 20:00 í KA heimilinu. Venjuleg aðalfundarstörf. Kaffiveitingar í boði deildarinnar.

Þrír Íslandsmeistaratitlar til KA á yngrifl. móti BLÍ

Lið frá Blakdeild KA náðu frábærum árangri á yngriflokkamóti BLÍ sem fór fram um helgina í Mosfellsbæ. Annar flokkur karla vann HK örugglega 3-0 í síðasta leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn en liðið hafði þegar tryggt sér titilinn fyrir leikinn. Þriðji flokkur kvenna átti frábært mót, vann alla sína leiki og vann sig upp úr þriðja sæti, frá fyrra móti ársins, í það fyrsta. Fimmti flokkur a liða vann alla sýna leiki og tryggði sér Íslandsmeistartitilinn af öryggi. Fjórði flokkur kvenna fékk bronsverðlaun. Blakdeild KA hefur aldrei fengið jafn marga Íslandsmeistaratitla á einu og sama árinu í yngriflokkum. 

KA úr leik eftir tap gegn Þrótti Rvk.

Í kvöld lék KA gegn Þrótti Rvík. í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki karla. KA menn þurftu sigur til að knýja fram oddaleik á Akureyri, eftir tapið á sunnudaginn. Skemmst er frá að segja að leikurinn var æsispennandi frá fyrstu mínútu.   Skiptust liðin á að vinna og þurfti oddahrinu til að skera úr um sigur og í henni hafði Þróttur betur.  Lokatölur urðu 3-2 fyrir Þrótt og KA menn eru úr leik í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn.