Bryndís Lára áfram hjá Þór/KA

Fótbolti
Bryndís Lára áfram hjá Þór/KA
Bryndís og Nói handsala samninginn (Palli Jóh)

Markvörðurinn Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir skrifaði í dag undir nýjan samning við Þór/KA og verður því í röðum liðsins næstu þrjú árin. Þetta eru mikil gleðitíðindi en Bryndís Lára var algjör lykilmaður sumarið 2017 þegar liðið varð Íslandsmeistari en það var hennar fyrsta tímabil með liðinu.

Hún ákvað að leggja markmannshanskana á hilluna fyrir síðasta tímabil og reyndi fyrir sér í spjótkasti með góðum árangri. Eftir meiðslavandamál hjá liðinu sneri hún til baka og lék alls 6 leiki fyrir Þór/KA. Undir lok sumars fór hún á lán til ÍBV þar sem hún lék 7 leiki.

Það er ákaflega jákvætt fyrir okkur að Bryndís Lára verði áfram hjá Þór/KA og ætli sér aftur að einbeita sér að fótboltanum. Hún er einn besti markvörður landsins og hefur svo sannarlega verið að banka á landsliðsdyrnar. Þá er hún einnig flottur karakter með mikinn drifkraft og ansi mikilvægt að hafa leikmann eins og hana í klefanum.

Hún er 27 ára gömul og á því enn nóg eftir og verður mjög gaman að fylgjast með henni á komandi tímabili. Við óskum bæði Bryndísi Láru og Þór/KA til hamingju með samninginn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is