Haukur Heiðar leikmaður ársins

Fótbolti
Haukur Heiðar leikmaður ársins
Haukur Heiðar og Ómar Friðriksson
Haukur Heiðar Hauksson var útnefndur leikmaður ársins hjá meistaraflokki KA í knattspyrnu í lokahófi félagsins á Hótel KEA í gærkvöld. Ómar Friðriksson var útnefndur efnilegasti leikmaðurinn.

Það voru leikmenn meistaraflokks og stjónarmenn í knattspyrnudeild KA sem áttu atkvæðisrétt í kjörinu um besta og efnilegasta leikmanninn. Í kjörinu um besta leikmanninn fengu fjórir atkvæði; Elvar Páll Sigurðsson, Brian Gilmour, Sandor Matus og Haukur Heiðar Hauksson. Niðurstaðan var afgerandi - Haukur Heiðar fékk um 70% atkvæða í kjörinu. Haukur, sem var fyrirliðii KA-liðsins í sumar, stóð vaktina mjög vel allt Íslandsmótið, en varð fyrir meiðslum í þriðja síðasta leiknum gegn Víkingi Ólafsvík á Akureyrarvelli og kom ekki við sögu í leikjunum við ÍA á Akranesi og síðasta leiknum í gær gegn BÍ/Bolungarvík.

Fimm leikmenn fengu atkvæði í kjörinu um efnilegasta leikmanninn; Ómar Friðriksson, Haukur Heiðar Hauksson, Fannar Hafsteinsson, Davíð Rúnar Bjarnason og Ævar Jóhannesson. Niðurstaðan var afgerandi; um 40% þeirra sem greiddu atkvæði töldu Ómar Friðriksson efnilegasta leikmann ársins. Ómar hefur komið mikið við sögu í meistaraflokknum í sumar, þrátt fyrir ungan aldur - f. 1993. Auk þess að spila mikið með meistaraflokki hefur hann einnig verið einn af lykilmönnum í 2. flokki félagsins. Þá spilaði hann nú síðsumars með landsliði Íslands U-19 gegn Eistlendingum í tveimur vináttulandsleikjum í Eistlandi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is