KA mætir ÍBV í undanúrslitum Lengjubikarsins

Fótbolti

KA og ÍBV mætast í undanúrslitum Lengjubikarsins klukkan 16:05 í Akraneshöllinni í dag en bæði lið unnu sinn riðil og fóru því áfram í undanúrslitin. Í hinum leiknum mætast Víkingur og Valur og verður spennandi að sjá hvaða lið fara áfram í sjálfan úrslitaleikinn.

Það var ákveðið að mætast á miðri leið og því fer leikurinn fram í Akraneshöllinni en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en leikur Víkings og Vals fer fram kl. 14:00 og verður einnig í beinni á Stöð 2 Sport.

KA stóð uppi sem sigurvegari í riðli 4 þar sem strákarnir unnu fjóra leiki í röð eftir 2-1 tap gegn Keflvíkingum í opnunarleik mótsins. ÍBV vann riðil 2 með fullu húsi stiga en liðið vann alla fjóra leiki sína, þar á meðal 2-3 sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks í lokaumferðinni.

Það má búast við hörkuleik en nokkrir leikmenn verða fjarri góðu gamni að þessu sinni en það er ekki spurning að strákarnir eru staðráðnir í að komast í úrslitaleikinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is