Umfjöllun: 2-0 sigur á HK

Almennt | Fótbolti
Umfjöllun: 2-0 sigur á HK
Ásgeir skoraði annan leikinn í röð - Mynd - Sævar Sig.

KA lagði í gær HK að velli á Akureyrarvelli 2-0. KA leiddi 1-0 í hálfleik og bættu svo við forystuna í síðari hálfleik.

KA 2 – 0 HK

1 – 0 Guðmann Þórisson (’29) Stoðsending: Hallgrímur

2 – 0 Ásgeir Sigurgeirsson (’77) Stoðsending: Halldór H

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Ívar Örn, Aleksandar, Almarr, Ásgeir, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni.

Bekkur:

Fannar, Baldvin, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Orri og Archange.

Skiptingar:

Juraj út – Halldór Hermann inn (’74)

Hrannar Björn út – Baldvin inn (’82)

Ásgeir út – Ólafur Aron inn (’85)

 

KA og HK áttust við í gær á Akureyrarvelli og voru aðstæður til knattspyrnu prýðilegar.

KA liðið mætti ákveðið til leiks og var spilamennskan í fyrri hálfleik afar góð. Liðið stjórnaði leiknum algjörlega og jókst pressan frá KA með hverri mínútu.

Snemma leiks var til að mynda mark dæmt af Ásgeiri sem virtist vera fullkomlega löglegt. En gestirnir í HK voru hins vegar beittir í skyndisóknum sínum og áttu þeir skot í stöng eftir rúmlega 20 mínútna leik.

Það var svo á 29. mínútu sem sóknarþungi KA bar árangur þegar að Hallgrímur tók hornspyrnu og Guðmann stökk manna hæst í teignum og náði að skalla boltann lystilega vel í markið úr erfiðri stöðu. Staðan orðinn 1-0 og forystan vægast sagt verðskulduð og fyrsta mark Guðmanns fyrir KA staðreynd.

Skömmu síðar átti Hallgrímur svo skot í stöng eftir laglegan sprett frá Ásgeiri. Ekki tókst KA að bæta við forystuna í fyrri hálfleik og hálfleikstölur því 1-0 KA í vil.

KA stýrði síðan síðari hálfleiknum líkt og þeim fyrri en tókst ekki alveg að skapa jafn mikið af færum. Að sama skapi voru gestirnir í HK ekki líklegir til að jafna og var varnarlína KA með Rajko fyrir aftan örugg í öllum sínum aðgerðum.

Á 74. mínútu gerði KA sína fyrstu skiptingu en þá kom Halldór Hermann inn á. Hann var ekki lengi að láta til sín taka því aðeins þremur mínútum síðar átti hann flotta sendingu á Ásgeir sem lék skemmtilega á varnarmann HK og komst einn gegn markverði HK og kláraði færið af öruggi og innsiglaði 2-0 sigur KA.

Undir lokin reyndi KA að bæta við þriðja markinu en inn vildi boltinn ekki. 2-0 sigur varð niðurstaðan og sanngjarn sigur okkar manna. KA liðið hefur verið að spila mjög vel í síðustu tveimur leikjum og vonandi að áframhald verði á því í næstu leikjum.

KA-maður leiksins: Guðmann Þórisson (Skoraði frábært mark sem braut ísinn fyrir okkur. Var síðan sem fyrr eins og klettur í vörninni og gaf ekki tommu eftir. Aldrei gefin neinn afsláttur á þeim bænum.)

Næsti leikur KA er á fimmtudaginn næstkomandi, 30. júní. Þegar að við sækjum Selfyssinga heim á Selfoss. Sá leikur hefst kl. 19.15  og hvetjum við alla KA-menn sem hafa tök á að fylgja liðinu á Selfoss.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is