Umfjöllun: 4-0 sigur á Leikni F.

Almennt | Fótbolti
Umfjöllun: 4-0 sigur á Leikni F.
Elfar Árni var með mark og stoðsendingu í kvöld.

KA vann í kvöld öruggan sigur á Leikni frá Fáskrúðsfirði. Lokatölur urðu 4-0 KA í vil.

KA 4 – 0 Leiknir F.

1 – 0 Aleksandar Trninic (’45) Stoðsending: Elfar
2 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’59) Stoðsending: Juraj
2 – 0 Rautt spald: Jose Rocamora ('67) (Leiknir F.)
3 – 0 Aleksandar Trninic (’71) Stoðsending: Grímsi
4 – 0 Ólafur Aron Pétursson (’91) Stoðsending: Bjarki

Mörkin úr leiknum:

Lið KA:

Aron Dagur, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Baldvin, Aleksandar, Almarr, Ásgeir, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni.

Bekkur:

Eggert Högni, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Kristján Freyr, Archange og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Guðmann út – Ólafur Aron inn (’74)
Ásgeir út – Bjarki Þór inn (’74)
Elfar Árni út – Pétur Heiðar inn (’79)

Töluverðar breytingar voru á liði KA fyrir leikinn í kvöld. Aron Dagur Birnuson var í byrjunarliði KA í sínum fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið. Baldvin kom í vinstri bakvörðinn og Aleksandar aftur í byrjunarliðið eftir að hafa verið í leikbanni í síðasta leik.

KA-menn hófu leikinn af krafti og var greinilegt að liðið ætlaði sér að svara fyrir töpin tvö í síðustu tveimur leikjum. KA var gríðarlega mikið með boltann og óð hvað eftir annað upp kantana og fyrirgjafirnar voru óteljandi í fyrri hálfleik. Til marks um yfirburði KA var liðið búið að fá 10 hornspyrnur eftir 20 mínútna leik.

Það var hins vegar ekki fyrr en á síðustu mínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik sem KA tókst loksins að brjóta ísinn. Þá átti Baldvin langa sendingu upp á Elfar sem gerði vel að skýla varnarmönnum Leiknis frá og gaf út fyrir teiginn á Aleksandar sem kom á ferðinni og lagði boltann fyrir sig og hamraði að marki og boltinn söng í netinu. 1-0 fyrir KA þegar að flautað var til hálfleiks og forystan vægast sagt verðskulduð.

Í síðari hálfleik var það sama upp á teningnum. KA sótti mjög stíft að marki gestanna. Á 59. mínútu jók Elfar Árni forystuna í 2-0. Hann skallaði þá knöttinn í netið eftir hornspyrnu frá Juraj.

Eftir seinna mark KA gerðu gestirnir breytingar á liði sínu og fóru að taka sénsa. Við það galopnaðist leikurinn. Pressa KA hélt áfram og á 67. mínútu lét Jose Rocamora leikmaður Leiknis kappið bera fegurðina ofurliði og hrinti Elfari Árna eftir baráttu þeirra.

Í kjölfarið gengu KA menn á lagið. Aðeins nokkrum mínútum seinna var brotið á Grímsa í einni af fjölmörgum sóknum KA. Aleksandar tók aukaspyrnuna og gerði sér lítið fyrir og nelgdi boltanum í slánna og inn af rúmlega 30 metra færi. Stórkostlegt mark og átti markvörðu gestanna enga möguleika.

Það var svo í uppbótartíma sem varamennirnir Ólafur Aron og Bjarki Þór innsigluðu sigurinn fyrir KA. Bjarki gaf þá á Ólaf Aron fyrir utan teig sem lagði boltann fyrir sig og skaut hnitmiðuðu skoti að marki og kom KA í 4-0. Skömmu seinna flautaði Þóroddur Hjaltalín dómari leiksins til leiksloka.

Sterkur sigur hjá KA og mjög verðskuldaður. Gaman var að liðið sótti og varðist sem ein heild í kvöld og skemmtilegt fyrir markvörðinn unga Aron Dag að halda markinu hreinu í kvöld í sínum fyrsta meistaraflokksleik fyrir KA.

KA-maður leiksins: Aleksandar Trninic (Var hreint út sagt frábær. Skoraði tvö mjög góð mörk. Seinna markið líklegast mark sumarsins í Inkasso-deildinni. Tapaði varla skallabolta á miðjunni og sendingarnar hnitmiðaðar hjá Aleks í dag.)

Það er hins vegar skammt stóra högga á milli í þessu. Næsti leikur KA er sannkallaður toppslagur og er hann á þriðjudaginn n.k. 16. ágúst. Þá eigum við leik gegn Keflavík. Sá leikur hefst kl. 18.30 og fer fram á Nettóvellinum í Keflavík. Við hvetjum alla sem hafa tök á að fylgja liðinu í leikinn og hvetja þá áfram. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is