Umfjöllun: Jafntefli gegn Keflavík

Almennt | Fótbolti
Umfjöllun: Jafntefli gegn Keflavík
Pétur Heiðar átti góða innkomu / Mynd - Sævar Sig.

KA og Keflavík áttust við í dag í 5. umferð Inkasso-deildarinnar á Akureyrarvelli. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Keflavík leiddu í hálfleik 0-1 en Elfar Árni bjargaði stigi fyrir KA úr vítaspyrnu á 90. mínútu.

KA 1 – 1 Keflavík

0 – 1 Guðmundur Magnússon (’38)
0 – 1 Elfar Árni Aðalsteinsson (Víti) (’90) Stoðsending: Pétur Heiðar

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Callum, Archie, Aleksandar, Almarr, Juraj, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Fannar, Baldvin, Halldór Hermann, Ásgeir, Ólafur Aron, Pétur Heiðar og Ívar Örn.

Skiptingar:

Aleksandar út – Ásgeir inn (’65)
Guðmann út – Ólafur Aron inn (’80)
Juraj út – Pétur Heiðar inn (’84)

Um var að ræða fyrsta heimaleik KA á Akureyrarvelli í sumar og aðstæður til knattspyrnu prýðilegar. Sól og 15 gráður og léttur norðan andvari.

Fyrstu 30 mínútur leiksins einkenndust af mikilli baráttu og var greinilegt bæði liðin voru kominn til að láta finna fyrir sér. Ekki var spilaður fallegur fótbolti og var baráttan í fyrirrúmi.

Síðustu 15 mínútur fyrri hálfleiksins voru hins vegar eign gestanna frá Keflavík. Þeir sóttu mjög í sig veðrið á meðan KA var engan veginn að finna taktin. Það var svo á 38. mínútu sem Sigurbergur Elísson sem átti góðan sprett framhjá nokkrum varnarmönnum KA og gaf fyrir markið á Guðmund Magnússon sem var frír inn á markteig og skallaði boltann í netið. 0-1 fyrir gestina í hálfleik og forystan verðskulduð.

Síðari hálfleikur var síðan keimlíkur fyrstu 30 mínútunum í fyrri hálfleik. Mikil barátta og hvorugt liðanna að skapa sér teljandi marktækifæri og sóknarleikur KA heldur kraftlítill og ekki nægileg hreyfing á liðinu.

KA nýtti allar þrjár skiptingarnar sínar í seinni hálfleik og virkuðu þær vel. Pétur Heiðar kom frábærlega inn í leikinn og var sóknarleikur KA allt annar með hann innanborðs.

KA jók pressuna að marki Keflavíkur undir lokin og bar það árangur þegar að venjulegur leiktími var að líða undir lok. Þá var brotið á Pétri Heiðari innnan teigs og flautaði dómari leiksins umsvifalaust vítaspyrnu. Á punktinn steig Elfar Árni og skoraði hann af miklu öryggi og sendi markvörð Keflavíkur í vitlaust horn og tryggði KA stig.

KA voru svo nálægt því á fjórðu mínútu uppbótartíma að stela sigrinum þegar að Pétur Heiðar átti laglega sendingu inn á Ásgeir en Beitir markvörður Keflvíkinga gerði vel að verja. Gestirnir í Keflavík sóttu þó meira í uppbótartímanum en án árangurs og lokatölurnar því 1-1.

Spilamennska KA liðsins í dag var ekki góð og liðið stálheppið á ná í stig. Liðið fékk lítil sem enginn hættuleg færi og var Keflvíkurliðið sterkara liðið í dag, í þessum mikla baráttu leik.

KA-maður leiksins: Pétur Heiðar Kristjánsson (Kom inn á 84. mínútu og hafði gífurleg áhrif á leikinn. Brotið var á honum í vítinu ásamt því að hann átti magnaða sendingu inn á Ásgeir í uppbótartíma. Frábær innkoma hjá Pedda.)

Næsti leikur KA er á sunnudaginn næsta. Þá sækjum við Leikni R. heim í Breiðholtið. Leikurinn hefst kl. 14.00 og er feykilega mikilvægur en liðin eru jöfn að stigum með 10 stig.  


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is