Vignir Már sæmdur gullmerki KSÍ

Fótbolti
Vignir Már sæmdur gullmerki KSÍ
Vignir (hægri) á ársþingi KSÍ í ár (mynd: KSÍ)

Vignir Már Þormóðsson var sæmdur gullmerki Knattspyrnusambands Íslands á dögunum er hann steig til hliðar úr aðalstjórn sambandsins. Vignir Már er mikill KA maður en hann æfði og lék knattspyrnu með KA frá unga aldri og fram yfir tvítugt. Hann þótti nokkuð liðtækur og þótti sérstaklega góður skot- og skallamaður.

Vignir hefur unnið ýmis störf fyrir KA og var hann meðal annars formaður knattspyrnudeildar KA frá nóvember árið 2000 til febrúar ársins 2007. Óhætt er að segja að í hans formannstíð hafi deildin tekið mikið stökk fram á við en öll umgjörð í kringum liðið var löguð og má segja að ákveðinn hluti þeirrar umgjarðar sé enn í dag mjög góð og gild.

KA tengingin er að sjálfsögðu enn mjög ríkjandi hjá Vigni en meðal annars var hann í lykilhlutverki í undirbúningi 90 ára afmælis félagsins sem haldið var með pompi og prakt á síðasta ári.

Sama ár og hann hætti sem formaður knattspyrnudeildar KA var Vignir kjörinn í aðalstjórn KSÍ þar sem hann sat þar til í ár þegar hann ákvað að stíga til hliðar. Auk þess að sitja í aðalstjórn var hann formaður mótanefndar sem og landsliðsnefndar U-21 árs landsliðs karla.

Gullmerki KSÍ fékk hann á ársþingi sambandsins sem var haldið á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu á dögunum og er hann svo sannarlega vel að því kominn og óskum við honum til hamingju með þennan mikla heiður.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is