Fréttir

Topplið Grindavíkur í heimsókn á morgun

Á morgun þriðjudag mætast KA og Grindavík í 11. umferð 1.deildar karla. Um er að ræða síðasta leik fyrri umferðar mótsins. Við hvetjum alla til að fjölmenna á leikinn enda um hörkuleik að ræða þar sem Grindavík sitja einir á toppnum með 22 stig og KA liðið verið á mikilli siglingu í undanförnum leikjum. Leikurinn hefst kl. 18.00.

Góður útisigur á Þrótturum

Í kvöld vann KA gríðarlega góðan útisigur á Þrótturum 1-0. Það var Ivan Dragicevic sem skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar. Leikurinn í kvöld fer seint í sögubækurnar fyrir áferða fallegan fótbolta en afar mikilvæg stig í hús hjá liðinu á erfiðum útivelli. KA liðið hefur fengið 10 stig af 12 í fjórum síðustu leikjum og hefur liðið haldið hreinu í þremur af þessum fjórum leikjum. 

Þróttarar sóttir heim á morgun

Á morgun fer liðið suður yfir heiðar og sækir Þróttara heim í 10. umferð 1.deildar karla. Leikurinn verður flautaður á kl. 19.15. Um er að ræða fyrsta heimaleik Þróttara undir stjórn Zoran Miljkovic sem tók við stjórnartaumunum hjá liðinu á dögunum. Liðin eru á svipuðum stað í deildinni. Þróttarar sitja í 11. sæti með 8 stig en KA er í því áttunda með 11 stig.

2-0 sigur gegn Völsungum

Okkar menn unnu í kvöld góðan 2-0 sigur á nágrönnum okkar frá Húsavík. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en í þeim síðari skoraði KA tvö mörk og hefðu þau hæglega getað verið fleiri. Gunnar Valur hélt upp á endurkomu sína í byrjunarlið KA eftir að hafa verið að stíga upp úr erfiðum meiðslum með því skora fyrsta mark KA í leiknum. Carsten Pedersen bætti svo við öðru marki á 75. mínútu. Gestirnir frá Húsavík fengu síðan vítaspyrnu í seinni hálfleik í stöðunni 1-0 fyrir KA sem Sandor Matus varði glæsilega. Lokatölur leiksins því 2-0 KA í vil sem með sigrinum eru komnir upp í 11 stig og á fleygiferð upp töfluna.

N1 mótið hafið!

N1-mót KA 2013 hófst í dag en fyrstu leikir verða flautaðir á eftir örfáar mínútur. Að þessu sinni eru um 1400 metnaðarfullir fótboltastrákar skráðir til leiks með sínum félögum en í ár verður leikið á tólf völlum og í fyrsta sinn á stórglæsilegum gervigrasvelli – þeim nýjasta á landinu. Það má því með sanni segja að næstu dagana verði boðið upp á algjöra fótboltaveislu á KA-svæðinu. Allar upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu mótsins með því að smella hér. Góða skemmtun!

KA - Völsungur á morgun

Þá er komið að 9. umferð 1.deildarinnar og er það heimaleikur gegn nágrönnum okkar frá Húsavík sem bíður okkar á morgun. Leikurinn mun hefjast á slaginu klukkan 19.15 og verður það Halldór Breiðfjörð Jóhannsson sem mun sjá til þess að leikurinn fari prúðmannlega fram. Fyrir leikinn á morgun situr Völsungur á botni deildarinnar með 2 stig en KA í því níunda með 8 stig og ljóst um er að ræða hörkuleik þar sem ekkert verður gefið eftir.

Jafntefli á Sauðárkróki

Í kvöld mættust KA og Tindastóll á Sauðárkróksvelli og lauk leiknum með 2-2 jafntefli þar sem mikið gékk á í fyrri hálfleik en seinni hálfleikur var heldur tíðindalítill. Heimamenn í Tindastól komust yfir eftir rúman hálftíma þegar að Steven Beattie skoraði úr vítaspyrnu. KA menn voru þó ekki lengi að jafna metin þegar að leikmaður Tindastóls skoraði sjálfsmark. Stuttu seinna kom fyrirliði KA, Atli Sveinn Þórarinsson KA yfir eftir hornspyrnu. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks gerðist svo umdeilt atvik þegar að önnur vítaspyrna var dæmd á KA og Ivan fékk sitt annað gula spjald og heimamenn jöfnuðu metin og þar við sat.

Stólarnir sóttir heim á morgun

Á morgun leggur liðið í ferð til Skagafjarðar, nánar tiltekið til Sauðárkróks og etur kappi við Tindastól í 8. umferð. Leikurinn verður flautaður á kl. 19.15. Um er að ræða fyrsta eiginlega heimaleik Tindastóls en þeir hafa ekki getað spilað heimaleiki sína á sínum heimvelli til þessa vegna þess hversu illa hann kom undan vetri. Við hvetjum sem flesta að gera sér ferð á leikinn og styðja við bakið á liðinu.

Kærkominn sigur gegn BÍ/Bolungarvík

Í dag mættust KA og BÍ/Bolungarvík á Akureyrarvelli og lauk leiknum með 1-0 sigri okkar manna í baráttuleik þar sem KA voru töluvert sterkari aðilinn og greinilegt að leikmenn KA voru hungraðir í stigin þrjú. Hallgrímur Mar skoraði eina mark leiksins og var það af dýrari gerðinni, beint úr aukaspyrnu af 25 metra færi og átti markvörður BÍ/Bolungarvíkur aldrei séns. Langþráður sigur KA eftir slæmt gengi í undanförnum leikjum. 

Ólafur Hrafn skrifar undir hjá KA

Í gær skrifaði Ólafur Hrafn Kjartansson undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild.  Ólafur sem er 15 ára og 210 daga gamall er að öllum líkindum yngsti leikmaður sem knattspyrnudeild K.A. hefur samið við.