Sannfærandi sigur KA (myndaveislur)

Handbolti
Sannfærandi sigur KA (myndaveislur)
Fjögur stig komin í hús! (mynd: Þórir Tryggva)

KA lék sinn fyrsta heimaleik í Olísdeild karla í gær er nýliðar Víkings mættu norður. KA sem hafði byrjað tímabilið á góðum útisigri á HK var staðráðið í að sækja annan sigur og það má segja að sigur strákanna hafi í raun aldrei verið í hættu í gær.

KA leiddi leikinn frá upphafi til enda og þegar leið á munaði aldrei minna en þremur mörkum á liðunum. Að lokum vannst afar sanngjarn 23-18 sigur sem hefði hæglega getað orðið stærri.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Þeir Þórir Tryggvason og Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndarar voru á leiknum og bjóða þeir báðir til myndaveislu frá leiknum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framtakið.

Tímalína fyrri hálfleiks

Varnarleikurinn var í fyrirrúmi í gær og þar fyrir aftan varði Nicholas Satchwell 16 skot eða 47% af þeim skotum sem rötuðu á markið. Ragnar Snær Njálsson fór fyrir varnarleiknum en hann átti 10 löglegar stöðvanir og varði auk þess tvö skot í vörninni. Næstur kom Arnar Freyr Ársælsson með 5 stöðvanir.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Patrekur Stefánsson var markahæstur í liði KA með 7 mörk en hann nýtti öll skot sín fyrir utan eitt. Einar Rafn Eiðsson gerði 6 mörk auk þess sem hann átti 5 stoðsendingar. Óðinn Þór Ríkharðsson gerði 3 mörk, Einar Birgir Stefánsson og Arnar Freyr Ársælsson gerðu báðir 2 mörk og þeir Jón Heiðar Sigurðsson, Jóhann Geir Sævarsson og Pætur Mikkjalsson gerðu allir eitt mark.

Tímalína seinni hálfleiks

Strákarnir eru þar með komnir með fjögur stig af fjórum mögulegum eftir fyrstu tvo leiki vetrarins en næsta verkefni er útileikur gegn liði ÍBV. Það urðu þó nokkrar breytingar á liðinu frá síðasta tímabili og má reikna með að það muni taka smá tíma að spila liðið almennilega saman en virkilega jákvætt að hafa klárað fyrstu tvo leikina og það á sannfærandi hátt.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is