Selfyssingar sóttu tvö stig norður (myndir)

Handbolti
Selfyssingar sóttu tvö stig norður (myndir)
Svavar var flottur í rammanum (mynd Þórir Tryggva)

KA tók á móti Íslandsmeisturum Selfoss í Olís deild karla á laugardaginn. KA liðið hafði tapað báðum leikjum sínum eftir áramót og voru strákarnir staðráðnir í að koma sér á sigurbrautina gegn sterku liði gestanna.

Það var allt annað að sjá til okkar liðs frá síðasta leik sem tapaðist á heimavelli gegn HK. KA liðið byrjaði betur og leiddi leikinn fyrstu tuttugu mínúturnar. Svavar Ingi Sigmundsson byrjaði í markinu og hann tók nokkra mikilvæga bolta.

En Selfyssingar voru aldrei langt undan og síðari hluta fyrri hálfleiks komust þeir yfir og með marki úr aukakasti er leiktíminn var liðinn tryggðu þeir sér eins marks forystu inn í síðari hálfleikinn, 13-14.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

Það var í raun grautfúlt að strákarnir skyldu ekki hafa forystuna í hléinu og hvað þá að vera marki undir en það segir ýmislegt um styrk gestanna. Strákarnir jöfnuðu í 14-14 í upphafi síðari hálfleiks en í kjölfarið náðu gestirnir góðum kafla og komust fimm mörkum yfir.

Eftir það var í raun aldrei spurning hvoru meginn sigurinn myndi enda, strákarnir gerðu sitt besta til að koma sér aftur inn í leikinn en það gekk ekki og lokatölur voru 26-31 fyrir Selfyssinga. Okkur gekk ákaflega illa að eiga við Hauk Þrastarson en hann gerði 11 mörk og átti ófáar stoðsendingarnar og það þrátt fyrir að við höfum frá fyrstu mínútu reynt að skyggja hann útúr leiknum.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Daníel Örn Griffin og Patrekur Stefánsson voru markahæstir í KA liðinu með 6 mörk hvor, Andri Snær Stefánsson gerði 5 mörk, Dagur Gautason 2 og þeir Daníel Matthíasson, Arnór Ísak Haddsson, Daði Jónsson, Einar Birgir Stefánsson, Jóhann Einarsson, Jón Heiðar Sigurðsson og Allan Norðberg gerðu allir eitt mark hver.

Í markinu varði Svavar Ingi 12 skot, þar af 2 vítaköst og Jovan Kukobat varði 3 skot.

Næsti leikur er útileikur gegn Stjörnunni á laugardaginn og mætast þar liðin í 8. og 9. sæti deildarinnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is