Fréttir

Unglingaflokkur kvenna: Tveir sigrar á FH

Það var nóg að gera hjá leikmönnum Akureyrar og FH í unglingaflokki þegar liðin mættust tvívegis með u.þ.b. hálftíma stoppi á milli leikja. Þessari törn lauk þannig að Akureyri sigraði í báðum leikjunum, 20-15 og 22-19 og skiluðu stelpurnar fjórum stigum í hús. Með þessum stigum tryggðu stelpurnar þriðja sætið í deildinni en Fram stelpurnar sem sitja í 4. sætinu geta ekki náð Akureyrarliðinu. Þessi lið mætast svo í KA heimilinu á sunnudaginn klukkan 13:00 en það er einmitt síðasti leikur Akureyrarliðsins í deildarkeppninni á þessu tímabili.

KEA býður öllum á leik Akureyrar og HK á sunnudag

Það verður sannkallaður stórleikur í N1-deild karla á sunnudaginn þegar Akureyri fær HK í heimsókn. KEA hefur ákveðið að bjóða öllum á leikinn og því ástæða til að hvetja alla til að mæta á leikinn sem hefst klukkan 15:00 í KA heimilinu. Það ber jafnframt til tíðinda að sjónvarpið verður með beina útsendingu frá leiknum og því mikilvægt að Akureyringar sýni þjóðinni raunverulega heimaleikjastemmingu eins og hún getur best verið.

Nýtt vefsvæði handknattleiksdeildar

Velkomin á nýtt heimili handknattsleiksdeildar K.A. á vefnum. Eins og oft vill verða þegar nýjir hlutir eru teknir í notkun eru nokkrir hnökrar á síðunni. Við búumst við að allt verði komið í samt lag undir lok vikunnar. Við biðjumst velvirðingar á þessu.

4. flokkur karla: Tveir öruggir sigrar á Þór

4. flokkur karla lék við Þór á miðvikudagskvöld en bæði A og B lið áttust við í Síðuskóla. Segja má að KA hafi verið mun sterkara í báðum leikjunum og unnið örugga sigra. Í A-liðum vann KA 21-28 eftir að hafa verið 10-14 yfir í hálfleik. Í B-liðum vann KA 21-26 eftir að hafa leitt 10-14 í hálfleik. Í A-liðum er KA á toppi deildarinnar og með fæst töpuð stig. B liðið á góðan séns á að ná öðru sæti deildarinnar.

4. flokkur KA í handbolta leikur við Þór á miðvikudag

Á morgun, miðvikudag, fara fram hörkuleikir í 4. flokki karla. Þá verður Akureyrarslagur milli KA og Þór en leikirnir fara fram í Síðuskóla. A-liðin munu hefja leik klukkan 20:00 og B-liðin þar á eftir eða klukkan 21:00. Fólk er eindregið hvatt til að mæta á leikina og sjá unga handboltamenn í bænum. KA hefur unnið báða leikina í B-liðunum til þessa en í A-liðinum var jafntefli í fyrri leiknum og KA vann svo seinni leikinn.