Fréttir

4. flokkur karla: KA strákar í úrslitaleikinn

KA strákarnir í 4. flokki A-liða sigruðu í dag Þór í undanúrslitum Íslandsmótsins 27-22 og eru þar með komnir í úrslitaleikinn sem verður leikinn á morgun, sunnudag klukkan 12:30 í Strandgötunni í Hafnarfirði.

4. fl kvenna: A-liðið úr leik - skýrsla þjálfara

Stelpurnar í A liði fóru suður í gær til að keppa við HK í 8 liða úrslitum. Fyrirfram var vitað að leikurinn yrði erfiður. KA stelpurnar hafa leikið í 2. deildinni í vetur og staðið sig þar með sóma þrátt fyrir stöku mótlæti. HK hefur á að skipa gríðarlega breiðum hóp af sterkum handboltastelpum og eru núverandi deildar- og bikarmeistarar 4. flokks kvenna.  Það sem þó gerði stöðuna enn erfiðari fyrir stelpurnar var að þetta var fjórði leikurinn þeirra á aðeins sex dögum.

4. flokkur karla: KA – Þór í undanúrslitum á laugardag

Um helgina fara strákarnir í A-liði 4. flokks suður að leika á úrslitahelgi yngri flokka. Á laugardag leika þeir í undanúrslitum gegn nágrönnum sínum í Þór. Leikurinn fer fram í Strandgötu í Hafnarfirði klukkan 14:00 og er fólk á höfuðborgarsvæðinu eindregið hvatt til þess að mæta og sjá hörkuleik. Nái strákarnir að sigra þann leik munu þeir spila um gullið á Íslandsmótinu á sunnudag.

4. flokkur kvenna: 8 liða úrslit hjá A liðinu í dag

A lið 4. flokks kvenna á erfiðan leik við HK í Digranesinu í dag (fimmtudag) HK stelpurnar hömpuðu á dögunum deildarmeistaratitlinum og fyrr í vetur urðu þær bikarmeistarar. Það er því á brattann að sækja fyrir KA stelpurnar í þessum leik en ef að stelpurnar sýna þann vilja og þá einbeitingu sem þær sýndu á móti Val í síðasta leik þá eiga þær möguleika á að fara lengra í þessari keppni. Eins og oft hefur sannast, þá slær KA hjartað hvað harðast þegar á reynir. Leikurinn hefst klukkan 16:00 og er í Digranesi. Stefán Guðnason

4. flokkur drengja: A-liðið í undanúrslit

Í kvöld tryggði A-lið 4. flokks sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótins með sannfærandi sigri á Gróttu. KA leiddi 18-8 í hálfleik en lokatölur voru 29-22. Strákarnir halda því suður um komandi helgi en þá munu úrslitaleikirnir fara fram. KA mætir Þór í undanúrslitunum á laugardag. Ljóst var strax frá fyrstu sekúndu að KA-menn voru klárir í verkefnið. Þeir komust strax yfir og leiddu 5-1 eftir örfáar mínútur. Eftir það var aldrei spurning hvort liðið myndi sigra leikinn.

4. fl kvenna: A-liðið vann umspilsleikinn

A liðið vann umspils-leikinn við Valsstelpur nokkuð sannfærandi. KA byrjaði leikinn af feiknakrafti. Með mjög góðri vörn, markvörslu og feikna góðum sóknarleik var staðan 10-0 fyrir KA stelpum þegar 15 mínútur voru búnar. Staðan í hálfleik var 15-4 KA í vil. Breytt var um varnarleik í seinni hálfleik og nýjir hlutir prófaðir. Valsstelpur náðu með því aðeins að klóra í bakkann og voru lokatölur 24-15.

4. flokkur karla: A-liðið leikur í úrslitakeppni á miðvikudag

Á morgun, miðvikudag, mætir A-lið 4. flokks Gróttu í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Leikurinn verður í KA-Heimilinu klukkan 18:30 og er fólk eindregið hvatt til þess að mæta. Strákarnir urðu fyrir stuttu deildarmeistarar og er núna komið að úrslitakeppninni.

4. flokkur kvenna í dag þriðjudag

B liðið spilar klukkan 16:30 í KA heimilinu gegn Stjörnunni úr Garðabæ. Þetta er síðasti leikur stelpnanna í deildarkeppninni í vetur. A liðið leikur svo strax á eftir eða klukkan 18:00.  Það er hins vegar umspilsleikur gegn Val um laust sæti í 8-liða úrslitum þannig að það er til mikils að vinna hjá stelpunum, hreinn úrslitaleikur.

Stórsigur hjá 4. flokki kvenna gegn Fram

Stelpurnar í 4. flokk spiluðu tvo leiki um helgina við Fram. Voru þessir leikir síðustu leikir liðsins í deildinni í vetur. Fyrri leikurinn fór rólega af stað og var jafnt á tölum fyrstu mínúturnar. Eftir það sigu KA stelpur fram úr og héldu öruggri forustu þó leikurinn héldi áfram að vera óttalega rólegur. Leikurinn endaði 25-15 KA í vil og einn rólegasti leikur tímabilsins staðreynd. Óttalegt andleysi var í stelpunum og þrátt fyrir tíu marka sigur léku þær langt undir getu, gerðu í raun einungis það sem þær þurftu.

Síðustu heimaleikir 4. flokks kvenna

4. flokkur kvenna spilar sína síðustu heimaleiki þetta árið á næstu dögum. A liðið spilar tvo gríðarlega mikilvæga leiki við Fram á föstudag klukkan 19:30 og síðan klukkan 11:00 á laugardaginn. Báðir leikirnir fara fram í Síðuskóla. KA þarf þrjú stig úr þessum tveimur leikjum til að tryggja sér sæti í umspilinu um laust sæti í 8 liða úrslitum og því ljóst að um mikilvæga leiki er að ræða. Því er um að gera að drífa sig í kaffi til Gunna Mall í Síðuskóla og hvetja stelpurnar áfram. B liðið á svo leik klukkan 16:30 í KA heimilinu næstkomandi þriðjudag. Þessum leik hefur tvívegis verið frestað þar sem að Stjarnan komst ekki. B liðið hefur verið að sækja í sig veðrið eftir áramót og unnið marga góða sigra.  Hafa þær fengið fjórtán stig úr níu leikjum og spilað glimrandi handbolta inn á milli. Því er um að gera að sjá stelpurnar spila í þessum síðasta heimaleik þeirra á tímabilinu.