Fréttir

Aðalfundur knattspyrnudeildar kl 20 í kvöld

Aðalfundur knattspyrnudeildar KA verður haldinn í kvöld, fimmtudagskvöldið 25. febrúar, kl 20:00 í KA - heimilinu. Allir félagsmenn eru hvattir til þess að mæta til að fyljast með starfi deildarinnar. Einnig er þetta ágætur vettvangur til að ræða mál sem brenna á mönnum en orðið verður gefið laust undir lok fundar.

Húsavíkurferð 7. flokks handbolta

Nú er að koma að Húsavíkurferð 7. flokks en Völsungur hefur boðið okkur og Þórsurum að koma og spila við þá æfingaleiki. Ekki eru allar upplýsingar komnar í hús en áætlunin er að fara með rútu um kl. 8:30, spila handbolta frá kl. 10:00 – 12:00, fara á pizzuhlaðborð, í sund og ís og svo heim. Ekkert þarf að borga fyrir rútuna þar sem unglingaráð KA sér um hana (Samherjastyrkur) en kostnaður við pizzu, sund og ís er 1.000 kr.

Góðir sigrar hjá KA/Þór

Á laugardaginn mættust KA/Þór og Víkingur í Víkinni og fóru stelpurnar í KA/Þór með öruggan fjórtán marka sigur, 22-36. Í hálfleik var munurinn orðinn tíu mörk, 7-17 og ljóst í hvað stefndi. Arna Valgerður Erlingsdóttir skoraði 8 mörk fyrir KA/Þór, Arndís Heimisdóttir skoraði 6 mörk og þær Katrín Vilhjálmsdóttir og Martha Hermannsdóttir komu næstar með 5 mörk hvor.

Mótaskrá JSÍ

Nú er mótaskrá JSÍ fyrir restina af þessu keppnistímabili komin á netið.   Hægt er að smella hér til að skoða pdf útgáfuna með öllum mótum og viðburðum, innlendum sem erlendum sem eru frá 1. janúar til 1. júní 2010. Til þess að skoða eingöngu innlenda viðburði er hægt að smella á tengilinn hér að ofan undir heitinu Mótaskrá JSÍ 

Slæmt tap gegn HK og titillinn bíður um stund - Stelpurnar unnu Ými

Tvö efstu lið MIKASA deildar karla, KA og HK, mættust í Kópavogi í dag. Með sigri hefði KA tryggt sér deildarmeistaratilinn og um leið sinn fyrsta titil í 18 ár. Mikil stemning var á leiknum en liðsmenn KA voru illa stemmdir og steinlágu 1-3. KA á tvo leiki eftir í deildinni og sigur í öðrum þeirra nægjir til að landa deildarmeistaratitlinum. Stelpurnar spiluðu einnig í dag og unnu þær Ými 3-2. Þær eiga eftir tvo heimaleiki, gegn HK og Fylki en þau lið eru efst í deildinni. Stöðuna í kvennadeildinni má sjá með því að lesa meira. Bæði lið eru nú komin í úrslitakeppni Íslandsmótsins og einnig eru þau í undanúrslitum bikarsins. Karlaliðið mun spila við Þrótt Reykjavík í þeirri keppni en stelpurnar spila við Fylki. Báðir leikirnir fara fram 13. mars í Laugardalshöllinni. Ef KA kemst í úrslitaleikina þá munu þeir verða spilaðir daginn eftir.

3. flokkur karla með heimaleiki á laugardaginn

Næstkomandi laugardag eiga bæði lið KA í 3. flokki karla heimaleiki, KA2 spilar við Þrótt og teljum við að þetta gæti orðið hörkuleikur strákarnir hafa verið að bæta sig jafnt og þétt í vetur. Leikurinn hefst kl:15.00.

Lengjubikarinn rúllar af stað

Undirbúningsmótin halda áfram og eftir svekkjandi silfur á Soccerade mótinu er komið að baráttunni í Lengjubikarnum. Með okkur í riðli eru FH, Fjölnir, Fram, Leiknir R., Selfoss, Valur og Víkingur R. Fyrsti leikurinn fer fram um helgina og munu við sækja Víkinga heim en leikurinn mun fara fram í Egilshöll á laugardag. Hann hefst kl 17:00 og hvetjum við alla KA menn á svæðinu til þess að mæta og styðja strákana til sigurs. Næsti leikur verður svo á Akranesi gegn Selfoss en fyrsti heimaleikur okkar er ekki fyrr en 14. mars. Leikjaplan er hægt að sjá undir lesa meira.

2. fl: Flottur sigur KA2 gegn Þór2 í Soccerademótinu

KA vann Þór 3-2 í leik um 7. sætið á Soccerademótinu í kvöld. Leikurinn var hraður og nokkuð skemmtilegur en KA-menn byrjuðu hann hörmulega, lentu 0-2 undir eftir tíu mínútur. Míló tók greinilega fjórfalda hárþurrkumeðferð í hálfleik a la Ferguson og átti KA allan seinni hálfleikinn. Í honum uppskáru þeir þrjú mörk og í heildina verður að telja sigur KA sanngjarnan.

KA mönnum boðið í kaffi og kleinur

Á föstudagsmorgun verður öllum KA mönnum boðið að koma í KA heimilið og eiga góða stund. Boðið verður upp á rjúkandi heitt kaffi og nýbakaðar kleinur. Menn geta hittst og spjallað um allt og ekkert, litið á framkvæmdirnar við pottaðstöðu félagsins o.fl. Kaffið og kleinurnar verða á boðstólnum frá kl 09:30. Við hvetjum alla til að mæta, n.k. föstudagsmorgun kl 09:30 og eiga góða stund.

Konudagsblóm til styrktar knattspyrnudeildar

Á sunnudaginn er einn af aðal dögum ársins, jú konudagurinn. Á þeim degi má alls ekki klikka á því að gefa konunni blóm því annars gæti farið illa. Í fyrra bauð knattspyrnudeild KA upp á afar góðan kost en hægt var að panta blómvönd sem síðan var sendur heim til viðkomandi. Gekk þetta svo vel að ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn. Hægt er að kaupa tvær gerðir af blómvöndum, fyrir 2500. kr og 3500. kr og verður svo vendinum keyrt heim fyrir hádegi sunnudaginn n.k. Þetta er kjörin leið til að gleðja það sem veitir manni mesta ánægju í lífinu, jú konuna og að sjálfsögðu KA! Áhugasamir sendið pantanir á gassi@ka-sport.is eða hafið samband við: Gassa - 899 7888 Dóra - 861 5525