13.01.2010
Góður KA maður, Gunnar Jakobsson, fæddur 23.08.1934 lést sl. föstudag 8. janúar, á afmælisdegi KA. Gunnar lék knattspyrnu með
öllum flokkum KA og varð bæði Akureyrar- og Norðurlandsmeistari. Hann var einnig mjög góður í 800 og 1500 metra hlaupi. Hann var alla tíð
mjög mikill KA maður og studdi KA í öllum greinum félagsins enda af mikilli KA ætt, sonur Matthildar Stefánsdóttur og Jakobs Gíslasonar og
bróðir Jakobs (þess sem Jakobssjóður var stofnaður til minningar um) , Hauks og Jóhanns en þeir spiluðu allir til fjölda ára með
KA.
KA sendir fjölskyldu og ættingjum Gunnars samúðarkveðjur. Útför Gunnars verður gerð frá Garðakirkju föstudaginn 15. janúar kl
13:00.
12.01.2010
Strákarnir í 4. flokki stóðu í ströngu á laugardaginn og léku alls fjóra leiki, en KA er með þrjú lið í
Íslandsmóti 4. flokks.
A liðið spilaði við FH í Höllinni en FH liðið er efst í 1. deildinni. KA strákarnir lentu undir í fyrri hálfleik en FH leiddi
með fimm mörkum í hálfleik, 12-17. KA strákarnir bitu frá sér í seinni hálfleik en svo fór að lokum að FH sigraði með
eins marks mun, 27-28. KA liðið situr í 5. sæti fyrstu deildar eftir leikinn.
10.01.2010
Aðalstjórn KA undir stjórn Erlings Kristjánssonar setti saman annál ársins 2009. Tryggvi Gunnars flutti hann á KA deginum í dag. Hér getur
þú lesið hann.
10.01.2010
Í dag var 82. ára afmæli KA fagnað á hinum svokallaða KA degi, en hefð er að skapast fyrir að halda hann helgina í kringum afmælisdag KA 8.
janúar. Um og yfir 100 manns lögðu leið sína í KA - heimilið, hlustuðu á ræður og gæddu sér á glæsilegum
veitingum. Auk þess að lýsa kjöri á íþróttamanni KA, Piotr Slawomir, var farið yfir árið 2009 hjá KA af Tryggva Gunnarssyni,
fallinna félaga minnst af Hrefnu Torfadóttur og síðan sló ræðumaður dagsins Sr. Svavar Alfreð sóknarprestur í Akureyrarkirkju í
gegn sem ræðumaður dagsins.
10.01.2010
Á KA - deginum í dag, sem fram fór í tilefni 82. ára afmæli KA, var íþróttamaður KA kjörinn. Í ár var
Piotr Slawomir Kempisty kjörinn. Piotr var valinn besti leikmaður 1. deildar karla 2009 af leikmönnum og þjálfurum deildarinnar
er hann stigahæstur í MIKASA deild karla eftir fyrstu fimm umferðir þessa keppnistímabils. Í öðru sæti var Haukur Heiðar
knattspyrnumaður og í því þriðja var Helga Hansdóttir júdókona en þau hafa bæði staðið sig virkilega vel á
árinu. Heimasíðan óskar þessu frábæra keppnisfólki til hamingju með titlana!
10.01.2010
Árið hefur verið viðburðarríkt hjá blakdeild KA einsog reyndar félaginu öllu. Sigurður Arnar, formaður deildarinnar, tók saman
helstu viðburði á árinu og bjó til annál ársins 2009 fyrir deildina, hér er hægt að lesa hann.
10.01.2010
Fyrsti leikur KA á Soccerade mótinu fór fram í gær en það voru strákarnir í 2. flokk sem riðu á vaðið. Öttu
þeir kappi við nágranna okkar úr Eyjarfjarðarsveit, Samherja. Skemmst er frá því að segja að strákarnir unnu leikinn 3-1 og eru
nú efsta sæti riðilsins með 2 stig og bestu markatölu. Næstu helgi helgi tekur meistarflokkur (KA1) á móti 2. flokk Þórs, föstudaginn
15. jan kl 19:45 og á laugardag mætir 2. flokkur (KA2) Draupni kl 14:15.
09.01.2010
Kvennalið KA fylgdi í fótspor karlanna og vann sinn leik gegn Stjörnunni. Eftir mikið basl í tveimur fyrstu hrinunum náði KA undirtökunum og vann
að lokum öruggan 3-1 sigur. Hulda Elma Eysteinsdóttir bar liðið á herðum sér og tók málin í sínar hendur þegar á
þurfti að halda. Hún skoraði 27 stig en Auður Anna var með 16 og Birna 14.
09.01.2010
Karlalið KA vann Stjörnuna 3-2 í hörku tveggja tíma leik í KA heimilinu í dag. Stigahæsti maður KA var Piotr Kempisty með 32 stig en
Hilmar Sigurjónsson skoraði 18 stig.
08.01.2010
Hið árlega Soccerade - mót hófst í dag. Mótið er hugsað sem undirbúningsmót fyrir liðin hér á norðurlandi en alls
eru 10 lið skráð til leiks en mótið stendur til 21. febrúar. Fyrsti leikur KA manna á mótinu er á morgun þegar 2. flokkur etur kappi
við Samherja úr Eyjafjarðarsveit. Það er um að gera fyrir alla fótboltaþyrsta KA menn að mæta í Bogann á morgun en leikurinn hefst kl
14:15. Næstu helgi munu svo bæði meistaraflokkur og 2. flokkur keppa þannig að það verður nóg að spennandi hlutum að gerast í boltanum
á næstu vikum. KA síðan verður með litla hliðarsíðu tileinkaða mótinu þar sem hægt er að sjá
leikjaniðurröðun, riðla og einnig samantekt yfir allar fréttir sem skrifaðar verða um mótið. Þú getur smellt hér eða farið í "Soccerade mótið" í valmyndinni hér að
ofan.