Lífsnauðsynlegur sigur KA á HK (myndir)

Blak
Lífsnauðsynlegur sigur KA á HK (myndir)
Allt annað að sjá til KA liðsins! (mynd: EBF)

KA tók á móti HK í Mizunodeild karla í blaki í gærkvöldi. Leiksins var beðið með mikilli eftirvæntingu því þarna mættust tvö bestu lið síðustu leiktíðar og var staða þeirra ansi ólík fyrir leikinn. Gestirnir höfðu unnið alla leiki sína til þessa og voru með 16 stig af 18 mögulegum en KA liðið hafði hikstað í byrjun vetrar og var með 5 stig af 12 mögulegum.

Það var því morgunljóst að KA liðið þurfti á öllum þremur stigunum að halda til að koma sér nær HK í toppbaráttunni en á sama tíma gátu gestirnir gjörsamlega skilið KA liðið eftir. Gestirnir byrjuðu betur og komust í 0-3 áður en KA liðið kom sér á blað og tók í kjölfarið forystuna. Smá titringur var í báðum liðum og var töluvert um mistök í fyrstu hrinunni.

KA liðið virtist þó hafa betri tök á taugunum og gestirnir náðu aldrei að jafna er leið á hrinuna. KA komst mest sex stigum yfir og vann að lokum hrinuna 25-20.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna Friðjónssonar frá leiknum

En það býr gríðarlega mikið í liði HK og þeir svöruðu fyrir sig í næstu hrinu. Þeim tókst að fækka mistökum sínum umtalsvert og höfðu frumkvæðið nær allan tímann. Á sama tíma kom upp þó nokkur pirringur í lið KA út í nokkra dóma sem hjálpaði nákvæmlega ekki neitt og gestirnir jöfnuðu í 1-1 með 18-25 sigri.

KA liðið þurfti nauðsynlega á öllum þremur stigunum að halda og eðlilega fór aðeins um áhorfendur í KA-Heimilinu eftir slakan endi á síðustu hrinu. En þær áhyggjur urðu að engu eftir frábæra byrjun á þriðju hrinu. Alexander Arnar Þórisson átti frábærar uppgjafir og KA komst í 7-0. Eftir þetta var aldrei spurning hvort liðið myndi vinna hrinuna.

Forskot KA liðsins jókst jafnt og þétt í gegnum hrinuna og á endanum vannst 25-8 sigur sem eru ótrúlegar tölur þegar þessi lið eigast við. Strákarnir voru því komnir í bílstjórasætið 2-1 yfir og gátu klárað verkefnið í fjórðu hrinu.

Hún var eðlilega miklu jafnari og var í raun unun að fylgjast með báðum liðum spila frábært blak á köflum. Liðin skiptust á að jafna og spennan í algleymingi enda mikið undir. KA leiddi 19-18 fyrir lokakaflann og reyndust þar einfaldlega sterkari aðilinn og unnu 25-20 sigur í hrinunni og leikinn þar með 3-1.

KA liðinu tókst þar með ætlunarverkið að sækja öll stigin í leiknum og fyrsta tap HK staðreynd. Sigur KA kemur liðinu í góða stöðu til að færast nær HK en KA liðið er með 8 stig eftir fimm leiki og á tvo leiki til góða á HK sem er með 16 stig eftir 7 leiki. Einnig gefur sigurinn öðrum liðum í toppbaráttunni möguleika á að halda í við HK liðið og spennandi barátta framundan í deildinni.

Miguel Mateo Castrillo fór hamförum í liði KA og gerði 27 stig, Alexander Arnar Þórisson gerði 16, Filip Pawel Szewczyk 9, Benedikt Rúnar Valtýsson 3, Vigfús Jónbergsson 2 og Hermann Biering Ottósson 1 stig.

Það var allt annað að sjá til KA liðsins og ljóst að ef strákarnir halda áfram þessari spilamennsku eiga þeir góðan möguleika á að verja einhverja ef ekki alla titla sína frá síðustu leiktíð. En það er þó klárt að það er langur vetur framundan og þarf liðið að sýna góðan stöðugleika til að halda áfram að sækja dýrmæt stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is