Sigur KA-stúlkna í síðasta deildarleik vetrarins.

Blak
Sigur KA-stúlkna í síðasta deildarleik vetrarins.
KA stúlkur á góðri stundu

KA-stúlkur áttu að spila síðustu leiki vetrarins í Mikasadeildinni á föstudag og laugardag en vegna veðurs komust þær ekki suður fyrr en í gær, sunnudag. Þá spiluðu þær við Aftureldingu sem trónir á toppi deildarinnar. Þjálfari liðsins Piotr Kempisty átti þess ekki kost að fara með og tók því leikmaður KA Friðrika Marteinsdótir að sér þjálfarastöðuna í leiknum. Leikmennirnir fóru beint af flugvellinum í leik og náðu nánast engri upphitun. Fyrsta hrinan bar þess aðeins merki að leikmenn voru að hita upp en síðan fór leikur liðsins upp á við. Í heildina stóð liðið sig vel og náði oft á tíðum upp mjög góðri baráttu og má sérstaklega nefna Hildi Davíðsdóttur sem stóð sig vel í liberóstöðunni. Helst vantaði að liðið næði beittari sóknum og varði Afturelding, og þá helst Velina Apostolova, stóran hluta af sóknum KA. Helst var það Brynhild Dam sem náði að berja í gegnum vörn Aftureldingar og var hún stigahæst í KA liðinu með 11 stig. Leikurinn endaði 3-0 fyrir Aftureldingu, 25-14, 25-20 og 25-23. Stigahæst í liði Aftureldingar var Velina Apostolova með 13 stig.

Síðari leikurinn var í kvöld, mánudagskvöld, við Þrótt R og höfðu okkar stelpur betur 3-2 (25-19, 25-17, 18-25, 22-25, 16-14). Stigahæstar okkar stúlkna voru þær Hólmfríður Ásbjarnardóttir með 13 stig, Brynhild Dam með 11 og Friðrika með 9. Hjá Þróttar stúlkum voru stigahæstar þær Sunna Þrastardóttir með 16 stig og Fjóla Rut með 15 stig. KA-stúlkur hafa ekki átt nógu góðu gengi að fagna í vetur en hafa verið á mikilli uppleið undanfarið og því kærkomð að enda veturinn á þessum flotta sigri. Til hamingju stúlkur! 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is