KA tapađi fyrir HK, 12-15 í oddahrinu.

Blak

KA tók á móti góðvinum sínum í HK í dag og voru það hinir spræku Kópavogspiltar sem höfðu sigur. Liðin spiluðu til úrslita í fyrra og þau buðu áhorfendum upp á hörkuleik.

HK vann fyrstu hrinuna 23-25 en KA tvær næstu 25-18 og 25-16. Virtust HK-strákarnir alveg loftlausir á þessum kafla og KA-sleggjurnar nutu þess að lemja á þeim. HK tók svo fjórðu hrinuna þar sem KA dinglaði ansi lengi í snörunni. Endaði hún 23-25 eftir að HK hafði komst í 19-23 og 20-24. Í oddinum var KA með forystu 6-3 en HK jafnaði í 6-6. KA komst svo í 7-6 en þá fór allt í steik. HK skoraði fimm stig í röð og lagði grunninn að sigrinum, komst þar í 7-11. KA klóraði í bakkann en þegar HK-ingar skoruðu sitt 13 stig fengu þeir bónusstig þar sem Marek missti sig á bekknum og uppskar hann að sjálfsögðu gult spjald. Staðan því 10-14. KA náði svo tveimur stigum áður en HK kláraði leikinn.

Allt annað var að sjá KA-liðið í þessum leik heldur en í síðasta heimaleik þar sem liðið lá 0-3 gegn Þrótti. Þjóðverjinn Till Wohlrab spilaði á miðjunni  en að auki voru Jóhann, Valur og Davíð Búi komnir á vaktina á ný. Þessi liðsauki dugði því miður ekki enda var liðið ekki að spila nógu vel. Aðeins Davíð Búi hélt haus allan leikinn og spilaði vel í vörn og sókn. Piotr var fínn í vörninni en gerði allt of mörg mistök í sókn. Aðrir tóku einn og einn góðan bolta en voru að spila undir getu. Greinilegt er að Marek á eftir að slípa liðið aðeins til en HK fékk allt of mörg stig vegna misskilnings og sambandsleysis milli manna.

Að lokum verður að minnast á ákveðin atriði sem áhorfendur hreinlega geta ekki sætt sig við. Sá ljóður sem hefur verið á leik liðsins síðustu ár virðist lifa góðu lífi. Leikmenn eru allt of fljótir að kólna niður í mótlæti og sumir fara bara í fýlu. Tvö gul spjöld í tveimur síðustu hrinunum reyndust dýrkeypt þegar upp var staðið. HK strákarnir fengu líka gult spjald en þeir héldu leikgleðinni og má því segja að sigur þeirra hafi verið sanngjarn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is